Umönnun og sjúkdómavarnir
Umráðamönnum dýra ber að tryggja dýrunum góða umönnun, þ.m.t. að vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu og sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð
Það fylgir því mikil ábyrgð að eiga og annast um hund. Til þess að stuðla að heilbrigði hunda er mikilvægt að umráðamenn hugi að eftirfarandi þáttum.
Fóðrun
Til að hvolpur vaxi og þroskist eðlilega og geti viðhaldið heilbrigðum líkama er mikilvægt að fóðrun sé rétt næringalega séð fyrir hvert lífsskeið og í orkujafnvægi miðað við þörf hundsins. Hundar eru að eðlisfari kjötætur en geta til viðbótar nýtt aðra fæðuflokka. Alltaf skyldi ferskt vatn vera aðgengilegt. Mikið er til á markaði af alls kyns fóðri og getur verið gott að fá ráðleggingar frá dýralækni til að byrja með. Forðast ætti að gefa hundum mjög kryddaðan, saltan eða mjög feitan mat. Til að tryggja fullnægjandi næringarinnihald er einfaldast og öruggast að nota tilbúið þurrfóður og fóðra í magni miðað við ráðleggingar framleiðanda. Hægt er að kaupa hvolpafóður, fóður fyrir hunda í mikilli hreyfingu, fóður fyrir eldri hunda o.s.fr.v. Einnig fást hjá flestum dýralæknum sérstök sjúkrafóður, t.d. ef dýrið á við að glíma nýrna-, hjarta-, eða liðavandamál. Best er að fá ráðleggingar hjá dýralækni hvað sé talið passa best fyrir hvert dýr. Gott er að öllu jöfnu að ekki breyta snöggt um fóður nema ef nauðsyn krefur, svo sem meltingartruflanir eða veikindi. Ef skipta á um fóðurtegund er gott að miða við að blanda nýrri tegund af fóðri við það sem hundurinn er á fyrir yfir 3 daga, til að reyna að fyrirbyggja meltingarvandræði.
Svokallað hráfæði hefur verið að aukast í vinsældum. Margar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að með notkun á hráfæði liggur fyrir aukin hætta á matareitrun af völdum baktería. Margar fæðutegundir sem eru algengar í fæðu okkar mannfólksins geta líka verið eitraðar fyrir hunda og því ber að varast að gefa hundum afganga nema að þekkja til hvaða fæðutegundir geta verið hundum hættulegar.
Offita er vaxandi vandamál hjá gæludýrum í vestrænum löndum. Mikilvægt er því að orkuinntaka sé í samræmi við orkuþörf. Offþyngd eykur m.a. álagið á stoðkerfið, eykur álag á hjarta- og æðakerfi og eykur áhættu á sykursýki. Offþyngd minnkar líka hreyfimöguleika hundsins og rýrir þannig lífsgæði hans. Í reglugerð um velferð gæludýra er í viðauka hægt að finna leiðbeiningar um holdastigun og æskilegt holdafar gæludýra.
Umhirða
Feldhirða: Allir hundar með feld þurfa einhverja feldhirðu þó það sé mjög misjafnt hversu mikla. Mjög loðnir hundar þurfa oft meiri feldhirðu og reglulega að vera burstaðir til að hindra flóka, en svæði bak við eyra og innanvert efst á útlimum. Hundar sem ekki fara úr hárum þurfa einnig reglulega klippingu. Hundar með feld þrífast yfirleitt best án fatnaðar, en þunnhærðir hundar geta þurft hlífðarkápur ef kalt, vott og/eða vindasamt er í veðri. Gott er að kíkja reglulega inn í eyru hvort þar sé nokkuð roði, eymsli eða mikil óhreinindi. Ef svo skyldi vera er nauðsynlegt að leita til dýralæknis til skoðunar.
Klóhirða: Til að fyrirbyggja skaða og sprungur á klóm er best að halda klóm stuttum. Best er að venja unga hvolpa á sem fyrst að klippa klæar. Sumir hundar slíta klóm sjálfir en aðra þarf að klippa reglulega. Mikilvægt er að klippa ekki í blóð og gott að fá leiðbeiningar frá dýralækni til að byrja með.
Tannhirða: Heilbrigðar tennur og tannhold eru mjög mikilvægar til að hundinum líði vel. Hundur getur dregið sig í hlé eða orðið árásargjarn ef honum líður illa í munninum. Mjög misjafnt er hversu mikill tannsteinn safnast fyrir á tönnum hunda og eru oft smáhundategundir hvað verstar. Mikill tannsteinn veldur tannholdabólgum og tennur geta losnað. Brotnar tennur geta valdið slæmri tannpínu. Mikilvægt er að fylgjast reglulega með tannheilsu hundanna og láta hreinsa eða fjarlægja tennur ef þörf er á. Ef hundurinn fær mikinn tannstein er gott að þjálfa hann í að láta bursta á sér tennurnar.
Hreyfing og samvera
Til að hvolpar þroskist eðlilega og fullorðnir hundar haldi við heilbrigðum líkama þarf að tryggja reglubundna og hæfilega hreyfingu. Hversu mikla hreyfingu hundurinn þarf er hinsvegar bæði tegunda-, aldurs- og einstaklingsbundið. Gott er að hundurinn hitti reglulega aðra hunda í öruggum aðstæðum og upplifi mismunandi aðstæður úti og inni. Styrkjandi fyrir samband milli hunds og eiganda er að leika við hundinn og oft reynist vel að nota leik til að styrkja æskilega hegðun.
Bólusetningar
Á Íslandi eru afar fáir smitsjúkdómar sem herja á hunda í samanburði við flest önnur lönd. Þeir helstu eru smáveirusótt (parvó), smitandi lifrarbólga og hótelhósti. Af þessum þremur sjúkdómum eru það smáveirusótt og lifrarbólga sem eru líklegri til að valda alvarlegri veikindum.
Hægt er að bólusetja gegn þessum sjúkdómum ásamt hundafári (canine distempter) sem þó hefur afar sjaldan skotið upp kollinum hér á landi. Þar sem bólefni sem eingöngu inniheldur mótefnavaka gegn lifrarbólgu er ekki til á markaði, innihalda bóluefni gegn lifrarbólgu ávallt líka mótefnisvaka gegn hundafári. Það getur þó verið kostur að hundar hafi hundafársbólusetninguna, ef hún skyldi aftur berast til landsins, þar sem hundafár getur valdið alvarlegum veikindum og dauða.
Besta vörnin til að fyrirbyggja sjúkdóm er að bólusetja alla hunda það snemma á ævinni að þeir séu varðir gegn ofangreindum sjúkdómum, þegar vörnum sem þeir fá með móðurmjólkinni sleppir. Einnig er mikilvægt að viðhalda bólusetningum alla ævi hundsins samkvæmt ráðleggingum framleiðanda til að tryggja virkar varnir. Við heilbrigðisskoðun hjá dýralækni fær eigandi almennt ráðleggingar um hvernig skynsamlegast sé að haga bólusetningum fyrir hundinn.
Almennt fá hvolpar fyrstu bólusetningu rétt um 8 vikna gamlir, en ef smitpressa er mikil í umhverfinu er hægt að hefja bólusetningu á hvolpum allt niður í 6 vikna. Mikilvægt er að allir hundar sem á að bólusetja gangist undir heilbrigðisskoðun og séu við góða heilsu þegar bólusett er. Þetta er bæði til að bóluefnið hafi tilskilinn áhrif og til að hindra að dýrið veikist meira. Eftir bólusetningu fær eigandi bólusettningarskírteini og dýralæknirinn upplýsir svo hvenær er þörf á endurbólusetningum. Æskilegt er að halda ungum hvolpum frá umhverfi þar sem smitpressa er mikil, svo sem eins og á vinsælum hundasvæðum, þar til hvolpurinn er orðinn full bólusettur og hefur náð að mynda mótefni gegn sjúkdómum. Slíkt tekur oftast að lágmarki um 14 daga eftir bólusetningu.
Sníkjudýrameðhöndlun
Sníkjudýr flokkast gróflega í innvortis eða útvortis sníkjudýr. Sníkjudýraflóra í hundum og köttum á Íslandi er afar takmörkuð í samanburði við flest önnur lönd. Sníkjudýr eru oft hýsilsértæk, en sum hver geta smitað á milli tegunda og yfir í fólk.
Útvortis sníkjudýr: Á Íslandi er afar lítið um útvortis sníkjudýr þar sem hér eru hvorki lýs, hundamítlar, smámítlar eða hundaflær landlæg. Auðveldara er að sjá ytri sníkjudýr eða áhrif þeirra en innvortis sníkjudýra. Á Íslandi er því ekki algengt að meðhöndla gegn ytri sníkjudýrum nema sníkjudýr finnist eða einkenni hafi komið fram á hundinum. Ef útvortis sníkjudýr svo sem flær, lýs eða mítlar finnast á gæludýrum, hafið samband við dýralækni.
Innvortis sníkjudýr: Hvað varðar innvortis sníkjudýr þá geta hundar borið fjölbreytta flóru af innvortis sníkjudýrum, bæði ormum, svo sem spólormum og bandormum og einfrumungum, án þess að það sjáist mikil ytri einkenni. Meirihluti sníkjudýra er í meltingarvegi, en geta á vissum lífsstigum einnig verið annarsstaðar í líkamanum eða í umhverfinu. Ef smit er mikið geta þó komið fram einkenni eins og vanþrif, vannæring, þyngdartap, blóðleysi, hósti, úfið hárafar o.fl.. Til að vernda dýrin sjálf, umhverfið og hindra mögulegt smit í fólk er skylt er að meðhöndla hunda árlega gegn bandormum og spólormum samkvæmt reglugerð um hollustuhætti (nr 941/2002). Ekki er hægt að nýta ormalyf ætluð einni dýrategund fyrir aðra og getur slíkt valdið eitrunum. Fáið því ætíð lyfseðil fyrir ormalyfjum fyrir hvert einstakt gæludýr hjá dýralækni. Mismunandi er hvaða sníkjudýrum og sníkjudýrastigum ormalyf virka gegn og getur dýralæknir veitt ýtarlegri upplýsingar hvernig meðhöndlun er æskileg fyrir þitt dýr, umfram þá ormahreinsun sem er skylt að framkvæma og hversu oft þarf að endurtaka hana.
Smitvarnir
Sjúkdómar í hundum geta smitast með margvíslegum hætti. Sumir sjúkdómar smitast með saur, svo sem smáveirusótt, aðrir með snertingu, líkamsvessum, uppkasti, þvagi eða í loftögnum við hósta. Einnig geta ytri sníkjudýr eins og mítlar borið með sér smitefni, en slíkt er þó fágætt hér á landi. Sníkjudýr geta borist við snertingu eða legið í umhverfinu og borist þannig á hundinn.
Þegar hugað er að almennum smitvörnum þá er fyrsta regla allra hundaeiganda að hirða strax upp saur eftir hunda sína til að fyrirbyggja veiru-, bakteríu- eða sníkjdudýrasmit. Góð og mikilvæg regla fyrir hvolpaeigendur og eigendur með óbólusetta hunda eða hunda með skert mótstöðuafl (t.d. vegna þess að þeir eru á barkasterameðferð) að halda hundum sínum frá vinsælum og fjölförnum viðrunarsvæðum. Einnig er góð regla að fara ekki með eigin hunda að hitta aðra hunda sem þekkt er að séu með smitsjúkdóma og sömuleiðis ekki fara með hunda sem maður veit, eða hefur grun um að beri með sér smitefni þannig að aðrir hundar komist í snertingu við þá. Ef farið er til dýralæknis skyldi hinn veiki hundur geymdur í bílnum meðan maður tilkynnir komu sínu og einkenni hundsins þannig að það sé hægt að gera ráðstafanir til að hindra að fleiri dýr á biðstofunni geti smitast. Ef hundar komast í skemmdan mat, eða mjög mengaðan úrgang er nauðsynlegt að hafa strax samband við dýralækni og fá ráðleggingar.