Fara í efni

Skrautfuglar

Almenn meðferð og umhirða skrautfugla

Þegar fuglar eru hafðir saman, skal val á fuglum taka mið af tegund, aldri, kyni og öðrum þáttum sem minnka líkur á ósætti.

Óheimilt er að tjóðra búrfugla. Þó má í undantekningartilvikum festa band við fóthring í skamma stund ef nauðsyn krefur við sérstakar aðstæður, eins og við flutning á fuglinum, og þá undir stöðugu eftirliti.

Búrfuglar skulu hafa óheftan aðgang að vatni og fóðri sem hæfir tegundinni. Ef fleiri fuglar eru saman í búri skulu allir geta náð til fóðurs samtímis.

Búrfuglum skal almennt gefinn kostur á að fljúga. Aðeins má vængstýfa þá fugla sem ekki er hægt að halda öðruvísi og þá aðeins af aðila sem hefur reynslu og þekkingu á slíku, að mati Matvælastofnunar. Aðra fugla má þó vængstýfa tímabundið ef þörf er á í upphafi þjálfunar og tamningar. Vernda skal vængstýfða fugla fyrir óvinveittum dýrum. Óheimilt er að skilja búrfugla eftir án eftirlits lengur en einn sólarhring

Undaneldi og umönnun ungviðis

Verpandi fugli skal tryggð aðstaða, s.s. í varpkassa þar sem fugl er varinn fyrir áreiti úr umhverfi. Tryggja skal að varp og ungauppeldi búrfugla gangi ekki nærri holdafari eða heilsu þeirra.

Almennur aðbúnaður fugla

  • Tryggja skal aðstöðu og umhverfi sem uppfyllir þörf fuglsins fyrir afþreyingu og eðlilega hreyfingu. Staðsetning fuglabúrs skal vera þannig að fugl geti notið dagsbirtu eða lýsingar og sé varinn fyrir dragsúg og óþarfa áreiti.
  • Fuglabúr skulu þannig gerð, að þau henti fuglategundinni og þeir geti séð og heyrt það sem fram fer í umhverfi þeirra. Í fuglabúri skulu vera minnst tvö prik til að sitja á, af gerð og sverleika sem hentar fyrir tegundina. Botn skal vera heill með heppilegum undirburði. Séu margir fuglar í sama búri, skal vera það rúmt um fugla, að þeir geti allir setið samtímis á priki og unnt sé að fljúga á milli prika. Í búrum fyrir fleiri fugla skal jafnframt vera afdrep fyrir þá fugla sem er eiginlegt að draga sig í hlé, eða þá sem sýna merki um veikindi eða streitu. Búr ætluð páfagaukum skulu vera þannig að þeir geti klifrað í þeim. Lágmarkshæð fuglabúra frá gólfi mælt til hæsta setpriks skal vera 1,5 m. Stærð og gerð búra skal uppfylla lágmarkskröfur skv. 5. lið viðauka II.
  • Fuglar skulu njóta dagsbirtu eða lýsingar í minnst átta klst. á dag. Stöðug sterk lýsing og sterk lýsing að næturlagi er óheimil. Verpandi búrfuglar og fuglar sem settir eru í nýtt umhverfi skulu þó tímabundið hafa dauft næturljós. Hiti skal vera innan þeirra marka sem er tegundinni eðlilegt.
  • Sandbaðandi fuglar skulu hafa aðgang að hreinum fínkorna sandi. Baðandi fuglar skulu hafa reglulegan aðgang að hreinu baðvatni. Fuglabað skal vera af stærð og gerð sem hæfir tegundinni og skal ekki vera dýpra en svo að fuglinn geti staðið í botni þess.

Innflutningur skrautfugla til Íslands

Hér er að finna upplýsingar um innflutning skrautfugla sem haldnir eru sem gæludýr. Afla skal innflutningsleyfis Matvælastofnunar og leggja fram vottorð sem sýnir fram á að skrautfuglarnir uppfylli heilbrigðisskilyrði. Þeir skulu svo dvelja í sóttkví (heimaeinangrun) í 4 vikur við innflutning. 

Athugið að fyrir tegundir sem eru á válista (í útrýmingarhættu) skal afla sk. Cites vottorðs bæði í útflutningslandi og á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Cites málum. 

Útflutningur skrautfugla

Ef flytja á skrautfugl frá Íslandi til annars lands skal kynna sér reglur viðkomandi móttökuríkis. Í sumum löndum er gerð krafa um heilbrigðisvottorð vegna innflutnings. Mælt er með því að afla upplýsinga á opinberum vefsíðum viðkomandi ríkis, þ.e. dýralæknayfirvalda í viðkomandi landi og hefja undirbúning í samráði við dýralækni tímanlega. Athugið að fyrir tegundir sem eru á válista (í útrýmingarhættu) skal afla sk. Cites vottorðs bæði í útflutningslandi og á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Cites málum. 

Salmonella í dúfum

Dúfnaeigendur og -ræktendur þekkja vel að einstaka dúfur geta drepist við álag, til dæmis þegar þær verða fyrir streitu við varp eða flutning milli hópa. Ungdýr eru viðkvæmari. Orsök slíkra dauðsfalla getur verið salmonellusmit.

Í þessari greinagerð verður farið yfir salmonellusýkingar í dúfum og teknar verða saman ráðleggingar um varnir gegn því að salmonella berist í dúfnakofa.

Sjúkdómsvaldur og faraldsfræði

Salmonella er gram neikvæð baktería í fjölskyldu Enterobacteriaceae. Yfir 2.400 mismunandi sermisgerðir eru þekktar. Bæði dýr með heitu blóði og köldu geta verið náttúrulegir hýslar fyrir salmonellu. Algengasta sermisgerðin í dúfum er Salmonella Typhimurium var. Copenhagen (STVC). Þessi sermisgerð hefur sérstaklega aðlagað sig að dúfum og getur valdið sjúkdómum og afföllum í þeim (1). Dúfustofnar STVC eru venjulega af fögugerð (e. phage type) DT2 eða DT99 en þessar fögugerðir finnast sjaldan í öðrum dýrum eða mönnum (2).

Einkenni

Einkenni í dúfum geta verið væg eða alvarleg, stundum geta einkenni verið langvarandi en einnig geta dúfur drepist skyndilega. Ungfuglar eru líklegri til að sýkjast alvarlega en eldri fuglar sýna vægari einkenni. Ef ungar smitast við klak er algengt að dauðsföll nái hámarki þegar ungarnir eru vikugamlir.

Einkenni geta verið almenns eðlis og getur reynst erfitt að greina einkenni salmonellusýkinga frá öðrum bakteríusýkingum. Veikir fuglar geta sýnt einkenni eins og niðurgang, lystarleysi, slappleika og vanþrif. Einnig er liðabólga algeng þar sem fuglarnir geta átt erfitt með gang og flug, ásamt því að sýktir fuglar geta fengið augnsýkingar.

Breytingar í líffærum sem sjást við krufningu einskorðast ekki við salmonellusýkingar. Bólgur og ígerðir sjást í þeim líffærum sem eru sýkt en algengar eru sýkingar í lifur, milta og þörmum (3).

Greining og meðhöndlun

Nauðsynlegt að greina salmonellu, sér í lagi STVC ef upp koma veikindi og/eða dauðsföll til að geta gripið til viðeigandi aðgerða. Greining fer fram með sýklaræktun á sýnum teknum úr veikum fuglum, t.d. saursýni og/eða sýni sem dýralæknir tekur úr bólgnum lið. Best er þó að rækta bakteríuna úr sýnum sem tekin eru úr sýktum líffærum við krufningu þegar fuglar hafa drepist.

Greining á salmonellu í fuglum án sjúkdómseinkenna er erfið vegna þess að oft tekst ekki að finna bakteríuna í sýnum úr þeim. Sýni geta verið tekin úr fuglunum sjálfum, stroksýni úr klóaki eða saursýni en einnig er hægt að taka umhverfissýni. Það geta verið sýni úr undirburði, ryksýni og stroksýni innan úr kofunum þar sem saurmengun er til staðar. Einnig skiptir máli hvort verið sé að meðhöndla með sýklalyfjum þegar sýni eru tekin (3). Salmonella finnst óreglulega í saur hjá einkennalausum smitberum og þarf þess vegna að taka saursýni oftar en einu sinni ef grunur vaknar um smit í fuglunum (4).

Erfitt getur reynst að greina salmonellusýkingar með mótefnamælingu í blóðsýnum vegna þess að prófin eru yfirleitt einungis fyrir algengar sermisgerðir í alifuglum en þau greina ekki mótefni gegn öllum sermisgerðum salmonellu (4).

Ef smit greinist er hægt að meðhöndla veika fugla með viðeigandi sýklalyfjum. Í rannsóknum erlendis hefur verið sýnt fram á að sýklalyfjaónæmi getur verið töluvert í dúfnastofnum vegna mikillar notkunar á sýklalyfjum. Ekki er vitað hver staða sýklalyfjanæmis er hérlendis í stofnum STVC, en það er alltaf ráðlagt að mæla sýklalyfjanæmi áður en meðhöndlun hefst svo viðeigandi sýklalyf séu notuð (3,5). Það ber að hafa í huga að ekki er hægt að útrýma smiti í dúfnakofum með því að meðhöndla allan hópinn með sýklalyfjum. Þrátt fyrir meðhöndlun getur salmonella lifað af í fuglum sem hafa náð sér eftir veikindi. Þeir fuglar verða einkennalausir smitberar sem, einkum undir álagi, smita umhverfi og nýja fugla sem fluttir eru inn í kofana. Til viðbótar hefur sýklalyfjanotkun ekki áhrif á smit í umhverfi (3). Sýklalyfjanotkun er þess vegna eingöngu réttlætanleg til meðhöndlunar á veikum fuglum og draga þar með úr afföllum.

Smitvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir

Með bólusetningu á dúfum gegn salmonellusýkingum er hægt að draga úr alvarleika veikinda. Ólíklegt er þó að hægt sé að útrýma smiti í dúfnakofum eingöngu með bólusetningu fuglanna. Bólusetning eykur mótstöðu gegn STVC en þrátt fyrir hana geta fuglarnir smitast af bakteríunni. Þar sem bakterían finnst í þörmum geta þessir fuglar því smitað umhverfið með saur, en þó mismikið eftir því hvaða bóluefni er notað (5,6). Hingað til hefur ekki verið notað bóluefni í dúfur hérlendis.

Hægt er að draga úr smitálagi með því að tryggja gott hreinlæti í kofunum og koma í veg fyrir þrengsli. Huga skal að góðri loftræstingu. Góð og regluleg þrif ásamt sótthreinsun með viðeigandi efni í kofa og á búnað draga úr smitálagi. Fóður- og vatnskerfi ættu að vera þannig uppsett að þau mengist ekki af driti. Þessar aðgerðir ásamt markvissri bólusetningu á ósýktum fuglum draga enn frekar úr áhrifum sýkinga í kofum þar sem salmonella hefur komið upp.

Erfitt er að draga úr smitálagi í kofum þar sem einkennalausir smitberar eru haldnir. Eins og áður var nefnt þá er erfitt að bera kennsl á þá fugla en ef þeir finnast er ráðlagt að fjarlægja þá úr kofunum.

Við kaup á nýjum dúfum er ráðlagt að kanna sjúkdómastöðu á upprunastað. Ekki ætti að fá sér dúfur úr kofum nema að þar hafi ekki komið upp veikindi s.l. 12 mánuði. Enn fremur að tekin hafi verið endurtekin sýni úr dúfum og/eða umhverfi sem greinst hafi neikvæð m.t.t. salmonellu (4,5). Það getur verið gott ráð að halda nýjum dúfum í einangrun í nokkrar vikur til að kanna hvort upp komi veikindi áður en þær eru settar inn í dúfnakofann (5).

Viðbrögð Matvælastofnunar

Salmonellusýkingar í dýrum eru tilkynningarskyldar til Matvælastofnunar í samræmi við lög og reglugerðir þar um. Matvælastofnun metur hverju sinni viðbrögð við greiningu til verndar heilsu dýra og manna. Ef sjúkdómur er sjaldgæfur getur verið viðeigandi að einangra tilfellin og takmarka dreifingu sýktra dýra tímabundið meðan aðgerðir eru í gangi til að draga úr sýkingarhættu. Sé sjúkdómurinn landlægur er ekki réttlætanlegt að einangra sýkt dýr. Í slíkum tilfellum er það á ábyrgð eiganda dýranna að lágmarka smithættu og meðhöndla dýrin í samráði við sinn dýralækni.

Hérlendis skortir upplýsingar um tíðni STVC í dúfum. Örfáar greiningar liggja fyrir hjá Matvælastofnun, sjá töflu 1.

Tafla 1: Greiningar á Salmonella í dúfum.

Salmonella sermisgerð

Ár sýnatöku

Rannsóknarstofa

Sýni

S. Farsta

2010

Keldur

Líffæri

S. Typhimurium [1]

2010

Keldur

Líffæri

S. Typhimurium var. Copenhagen

2017

Keldur

Líffæri

S. Typhimurium var. Copenhagen

2020

Keldur

Líffæri

 

[1] Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort um var. Copenhagen hafi verið að ræða.

Þrátt fyrir það getur verið að sjúkdómurinn sé mun útbreiddari í dúfum hérlendis en greiningarnar skorti.

STVC er sérhæfð sermisgerð í sinni dýrategund og hefur mjög þröngt hýsilsvið. Hún leggst fyrst og fremst á dúfur og getur þar valdið alvarlegum veikindum og dauðsföllum. Það er sjaldgæft að STVC dúfnastofnar valdi sýkingum í öðrum dýrum þar með töldum alifuglum og mönnum (2). Í ljósi þessara upplýsinga og þeirrar staðreyndar að hægt er að bólusetja dúfurnar gegn sjúkdómnum ef í ljós kemur að sjúkdómurinn er útbreiddur hér á landi, telur Matvælastofnun að ekki sé þörf á opinberum takmörkunum ef upp kemur sýking af völdum STVC í dúfum. Í staðinn hvetur stofnunin dúfnaeignendur til einstaklingsbundinna smitvarna eins og lýst er í kafla hér að ofan en ítrekar að það er á ábyrgð dúfnaeigenda að upplýsa kaupendur um sjúkdóma í sínum dúfum. Með sama móti hvetur stofnunin dúfnakaupendur um að kanna hjá seljendum hvort upp hafa komið sjúkdómar í kofunum og hvort sýni hafa verið tekin til vöktunar á salmonellu.

Stofnunin hvetur dúfnaeigendur sem og alla sem halda dýr að huga að góðu hreinlæti þar sem dýrin eru haldin til að draga úr sýkingahættu vegna hinna ýmsu sjúkdóma. Æskilegt er að í öllum kofum sé að minnsta kosti aðstaða til handþvottar og þrifa á skóm.

Stofnunin hvetur skipuleggjendur dúfnakeppna og -sýninga að meta smithættu á viðburðum þar sem dúfur koma saman úr mörgum kofum og gera viðeigandi ráðstafanir til að draga úr smithættu eftir því sem við á.

Heimildir

  1. Teske L, Ryll M, Rubbenstroth D, Hänel I, Hartmann M, Kreienbrock L, et al. Avian Pathology Epidemiological investigations on the possible risk of distribution of zoonotic bacteria through apparently healthy homing pigeons Epidemiological investigations on the possible risk of distribution of zoonotic bacteria through apparently . Avian Pathol [Internet]. 2013 [cited 2020 Nov 9];42. Sótt frá: https://www.tandfonline.com/action/journalInformation?journalCode=cavp20
  2. Rabsch W, Andrews HL, Kingsley RA, Prager R, Tschäpe H, Adams LG, et al. Salmonella enterica serotype Typhimurium and its host-adapted variants [Internet]. Vol. 70, Infection and Immunity. American Society for Microbiology Journals; 2002 [cited 2020 Oct 28]. p. 2249–55. Sótt frá: http://iai.asm.org/
  3. Brugère-Picoux J, Vaillancourt J-P, Shivaprasad H, Venne D, Bouzouaia M. Manual of Poultry Diseases [Internet]. AFAS; 2015 [cited 2020 Nov 10]. Sótt frá: https://www.researchgate.net/publication/279176416_Manual_of_Poultry_Diseases
  4. MAF Biosecurity New Zealand. Import Risk Analysis: Pigeons (Columba livia) from Australia FINAL [Internet]. 2009 [cited 2020 Nov 9]. Sótt frá: https://www.mpi.govt.nz/dmsdocument/2780-Pigeons-Columba-livia-from-Australia-Final-import-risk-analysis-August-2009
  5. Salmonella - The Australian Pigeon Company [Internet]. [cited 2020 Nov 10]. Sótt frá: https://www.auspigeonco.com.au/salmonella.html
  6. Vereecken M, De Herdt P, Ducatelle R, Haesebrouck F. The effect of vaccination on the course of an experimental Salmonella typhimurium infection in racing pigeons. Avian Pathol. 2000;29(5):465–71.
Uppfært 14.04.2023
Getum við bætt efni síðunnar?