Fara í efni

Flokkun fóðurs

Hráefni

Hráefni til fóðurgerðar er háð eftirliti Matvælastofnunar.  Fyrirtæki sem flytja inn eða framleiða hráefnistil fóðurgerðar skulu skráð hjá stofnuninni. Hráefni sem fóðurfyrirtæki flytja inn eða framleiða skulu einnig skráð hjá stofnuninni.

Hráefni er hreint fóður, þ.e. afurðir úr jurta- eða dýraríkinu, eins og þær koma fyrir í náttúrunni, nýjar eða rotvarðar, svo og afurðir þeirra úr iðnaðarvinnslu.  Einnig lífræn eða ólífræn efni notuð ein sér eða í blöndum sem gefin eru dýrum.

Fyrirtækin sem flytja inn eða framleiða hráefni til fóðurgerðar skulu gera skriflega áætlun um gæðastjórnun og hrinda henni í framkvæmd. Gæðastjórn skal byggja á góðum framleiðsluháttum (GFH).

Bannað er að selja og nota eftirtalin hráefni:

 • Skít og hland,  svo og gor og  annað sem er fjarlægt úr meltingarvegi  við tæmingu eða skolun hans án tillits til meðhöndlunar eða blöndunar
 • Skinn meðhöndluð með sútunarefnum, þar með talinn úrgangur þeirra
 • Fræ, korn og plöntur, önnur plöntufjölgunarefni og hugsanlegar aukaafurðir þeirra sem meðhöndlaðar hafa verið með plöntu-varnarefnum eftir uppskeru
 • Timbur, sag og annað sem hefur verið meðhöndlað með fúavarnarefnum
 • Allan úrgang frá aðskiljanlegum stigum hreinsunarferlis þéttbýlis-, húsa- og iðnaðarskólps án tillits til frekari hreinsunar þessa úrgangs og uppruna skólpsins.
  Hugtakið skólp á ekki við um vinnsluvatn, þ.e. frárennsli í sérleiðslum í fyrirtækjum í matvæla- og fóðuriðnaði; vatn, sem er veitt í þessar leiðslur, skal vera heilnæmt og hreint. Einnig er heimilt að veita hreinum sjó í leiðslur í fiskvinnslustöðvum. Vinnsluvatn skal einungis innihalda fóðurefni eða matvæli og skal vera tæknilega laust við hreinsiefni, sótthreinsandi efni eða önnur efni sem eru óheimil samkvæmt löggjöfinni um fóður.
  Meðhöndla ber efni úr dýraríkinu í vinnsluvatninu í samræmi við reglugerð nr. 674/2017 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis.
 • Fastur úrgangur frá bæjarfélögum, t.d. húsaskólp.
 • Ómeðhöndlaður úrgangur frá veitingahúsum, að undanskildum matvælum úr jurtaríki sem ekki teljast hæf til neyslu vegna þess að þau eru ekki nógu fersk.
 • Umbúðir og hlutar af umbúðum sem falla til vegna notkunar á afurðum í tengslum við matvælaframleiðslu í landbúnaði.
 • Prótein úr vefjum spendýra sem innihaldsefni í fóðurblöndur fyrir afurðargefandi dýr.
 • Úrgang og/eða annað hráefni úr fiskeldi í fóður fyrir eldisfisk.

Fóðurblöndur

Fóðurblanda er blanda fóðurefna, með eða án aukefna, ætluð til að fóðra dýr sem heilfóður eða fóðurbætir.

Innflutningur og framleiðsla fóðurblandna er háð eftirliti Matvælastofnunar. Fyrirtæki sem flytja inn eða framleiða fóðurblöndur skulu skráð hjá stofnuninni ásamt þeim fóðurblöndum sem þau flytja inn eða framleiða.

Án aukefna

Fyrirtækin sem flytja inn eða framleiða fóðurblöndur skulu gera skriflega áætlun um gæðastjórnun og hrinda henni í framkvæmd. Innihaldi fóðurblöndurnar ekki aukefni í þeim mæli að falli undir 3. viðauka reglugerðar 340/2001 um eftirlit með fóðri skal innra eftirlit byggja á góðum framleiðsluháttum.

Með aukefnum

Matvælastofnun veitir fyrirtækjum sem flytja inn, selja, nota eða framleiða aukefni, forblöndur aukefna eða fóðurblöndur sem innihalda aukefni í þeim mæli að falli undir 3. viðauka reglugerðar 340/2001 um eftirlit með fóðri, starfsleyfi sýni þau fram á að þau fullnægi kröfum sem gerðar eru 10. gr. og II. viðauka reglugerðar um fóður.  Þau fyrirtæki skulu gera skriflega áætlun um gæðastjórnun og hrinda henni í framkvæmd. Innra eftirlit viðurkenndra fyrirtækja skal byggja á GÁMSS (Greining áhættu og mikilvægra stýristaða).

Fóðurbætir

Fóðurbætir eru fóðurblöndur sem eru ríkar af vissum efnum sem vegna samsetningar sinnar og mikils innihalds einstakra efna teljast því aðeins nægja sem dagskammtur að þær séu gefnar með öðru fóðri.

Innihaldi fóðurbætir selen skal innihald þess í steinefnafóðurbæti ekki fara yfir 25 mg/kg og í öðrum fóðurbæti ekki yfir 2,5 mg/kg. Steinefnafóðurbætir er aðallega steinefni og inniheldur að minnsta kosti 40% ösku.

Fóðurbætir má ekki innihalda meira af óæskilegum efnum, sem talin eru upp í B hluta 1. viðauka reglugerðar nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri, en tilgreint er fyrir heilfóður

Aukefni

Einungis er heimilt að nota sem aukefni í fóðurvörur efni og blöndur sem hafa fengið til þess samþykki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í samræmi við gildandi lagaákvæði á EES svæðinu og fram koma í skrá ESB um heimiluð aukefni í fóðri samkvæmt reglugerð ESB nr. 1831/2003.

Aukefni í fóður eru skilgreind sem efni, örverur eða efnablöndur, aðrar en fóðurefni og forblöndur sem er bætt í fóður eða vatn af ásetningi, einkum til að gegna einu eða fleirum af eftirfarandi hlutverkum:

 • bæta eiginleika fóðurs,
 • bæta eiginleika dýraafurða,
 • bæta lit skrautfiska og -fugla,
 • fullnægja næringarþörf dýra,
 • hafa jákvæð áhrif á afleiðingar búfjárframleiðslu fyrir umhverfið,
 • hafa jákvæð áhrif á búfjárframleiðslu, afurðasemi eða velferð búfjár, einkum með áhrifum á maga- og þarmaflóruna eða meltanleika fóðurs eða
 • hafa hníslalyfja- eða vefsvipungaverkun (histomonostatic effect).
Sýklalyf, önnur en hnísla- eða vefsvipungalyf, eru bönnuð sem aukefni í fóðri. Fóðurframleiðandi sem afgreiðir fóður sem inniheldur hníslalyf eða vefsvipungalyf skal ávallt vera í stakk búinn til að afgreiða sambærilegar fóðurblöndur án hníslalyfja eða vefsvipungalyfja.


Fóðurfyrirtæki sem flytja inn, selja, kaupa eða nota aukefni eða forblöndur aukefna skulu hafa sérstaka viðurkenningu Matvælastofnunar fyrir starfsemi sinni.

Forblöndur aukefna

Forblöndur eru blöndur aukefna eða blöndur sem samanstanda af einu eða fleiri aukefnum ásamt hráefnum sem burðarefni, ætlaðar til framleiðslu á fóðurblöndum.

Sérfóður

Sérfóður er fóðurblanda sem vegna efnis- eða eðlisgerðar er frábrugðin bæði venjulegu fóðri og lyfjum og markmið með notkun er að fullnægja sérstakri næringarþörf.

Krafa til fóðurblöndu sem ætluð er til að fullnægja sérstökum næringarþörfum er að notkunarsvið blöndunnar sé í samræmi við næringarmarkmiðið í 1. dálki, dýrategund eða hóp sbr. 3. dálk og einn eða fleiri af þeim eiginleikum í 2. dálki sem tilgreindir eru í töflu 3.1. í 5. viðauka reglugerðar nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri.

Erfðabreytt fóður

Reglur um merkingu og rekjanleika erfðabreytts fóðurs hafa tekið gildi hér, sjá reglugerð nr. 1237/2014.  

Engar reglur eru í gildi hér á landi um hvaða tegundir erfðabreytinga eru heimilar eða bannaðar. 

Óheimilt er að fóðra sauðfé á erfðabreyttu fóðri samkvæmt reglugerð nr. 878/2016.

Lyfjablandað fóður

Matvælastofnun veitir leyfi til framleiðslu eða innflutning á lyfjablönduðu fóðri. Einungis má nota fóður eða forblöndur sem uppfylla kröfur laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru nr. 22/1994

Ítarefni:

 • Reglugerð (ESB) nr. 2019/4 um framleiðslu á lyfjablönduðu fóðri, setningu þess á markað og notkun

Gæludýra- og loðdýrafóður

Fóður fyrir dýr sem ekki eru ætluð til manneldis er háð eftirliti Matvælastofnunar. Framleiðendum, innflytjendum og seljendum ber að tryggja að fóður, sem ætlað er gæludýrum, loðdýrum og öðrum dýrum sem ekki eru ætluð til manneldis, sé ekki skaðlegt dýrum, mönnum eða umhverfi. Þeir sem stunda slíka starfsemi ber að skrá hana hjá Matvælastofnun ásamt þeim fóðurvörum sem þeir framleiða, flytja inn og/eða selja.

Ítarefni:

Uppfært 17.04.2024
Getum við bætt efni síðunnar?