Fara í efni

Virkar/sérhæfðar umbúðir

Virkar umbúðir

Virkar umbúðir stjórna eða bregðast við breytingum sem eiga sér stað inni í umbúðum matvæla eða í umhverfi þeirra. Meginmarkmið virkra umbúða er að viðhalda gæðum og lengja geymsluþol matvæla. Reynt er að skapa kjöraðstæður inn í umbúðunum fyrir matvælin. Lagt er upp úr að viðtakandi vörunnar fái ávalt örugg matvæli af bestu gæðum. 

Sérhæfðar umbúðir

Í sérhæfðum umbúðum á að vera hægt að sjá hvernig ástand matvælanna er inni í umbúðunum. Þetta er gert með því að hafa mæla eða nema inni í/eða á umbúðum sem sýna hitastig, örveruskemmdir eða ástand umbúðanna sjálfra, ytri högg og fleira. Upplýsingarnar geta gefið vísbendingu um gæði vörunnar. 

Fjórir flokkar virkra og sérhæfðra umbúða

Gleypar (scavengers)

Í þessum flokki eru umbúðir sem drekka í sig eða eyða efnum, eins og súrefni, etýlen, raka eða öðrum efnum sem hafa áhrif á geymsluþol. Efnin hafa ekki bein áhrif á matvælin, en í flestum tilfellum áhrif á geymsluþol og skynræna eiginleika matvæla. Algengastir úr þessum flokki eru súrefnisgleypar (oxygen scavengers) og etýlengleypar (ethylene scavengers). Árangurinn er lengra geymsluþol. Etýlengleypi er hægt að nota við pökkun á ávöxtum, þar sem etýlen er fjarlægt en það tefur fyrir þroskun ávaxtarins. 

Gjafar (Emitters)

Þessi flokkur umbúða inniheldur eða framleiðir efni sem er ætlað að dreifast um umbúðirnar eða á yfirborð matvælanna og hafa tæknileg áhrif annað hvort á loftið í umbúðunum eða matvælin sjálf t.d. aukefni. 

Mælar (Indicators)

Í þessum flokki eru mælar (indicators) sem mæla hitastig, samband hitastigs og tíma, örveruskemmdir, rakastig eða aðra þætti inn í umbúðum matvæla. Neytandinn getur því fengið upplýsingar um ástand inn í umbúðum og þar með ástand matvælanna. 

Aðrar umbúðir

Dæmi um aðrar umbúðir eru „susceptor materials“ sem hafa áhrif á matvæli við meðhöndlun; t.d. örbylgju „susceptor“ sem leiðir til hærra hitastigs í matvælinu en við venjulega hitun í örbylgjuofni. Annað dæmi er svokallað „hot-pot“, en það er dós með tvöfaldar „hliðar“ og á milli eru tvö efni. Þegar dósin er opnuð blandast efnin saman en við það myndast hiti þ.a. matvælið verður tilbúið til neyslu. Efnunum er ekki ætlað að snerta matvæli eða ætluð til neyslu.  
Uppfært 30.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?