Fara í efni

Barnamatur fyrir ungbörn og smábörn

Í reglugerð um barnamat eru ákvæði um umbúðamerkingar sem eingöngu gilda fyrir barnamat. Hér að neðan verður stiklað á stóru varðandi þessi sérákvæði um merkingar:

 • Óheimilt er að markaðssetja barnamat fyrir ungbörn yngri en fjögurra mánaða
 • Ef vara er ætluð 4-6 mánaða ungbörnum þarf að tilgreina hvort glúten er til staðar í vörunni eða ekki. Ef vara er ætluð ungbörnum eldri en 6 mánaða er ekki gerð krafa um slíka merkingu
 • Merkja skal á umbúðir orkugildi í vörunni í tölugildum í 100g eða 100 ml með einingunum kcal og KJ
 • Merkja skal prótein-, kolvetna- og fituinnihald í tölugildum í 100g eða 100 ml
 • Ef vítamín og steinefni eru merkt í næringargildismerkingunni skal magn þeirra merkt í tölugildum í 100g eða 100 ml
 • Fyrir þau vítamín og steinefni sem ráðlagðir dagskammtar eru til fyrir má merkja magn þeirra sem hlutfall af ráðlögðum dagskammti en einungis þó ef hlutfallið er a.m.k. 15%
 • Ef kjöt, alifuglar fiskur, innmatur eða aðrir próteingjafar, hver fyrir sig eða til saman, er tilgreint fremst í heiti vörunnar hvort sem varan er sett fram sem máltíð eða ekki, þá skulu tilgreindar tegundir af kjöti, alifuglum, fiski, innmat eða öðrum hefðbundnum próteingjöfum vega samanlagt a.m.k. 10% af heildarþyngd vörunnar
 • Ef áðurnefndir próteingjafar eru tilgreindir í heiti vörunnar, en þó ekki alveg fremst þá skulu tilgreindar tegundir af kjöti, alifuglum, fiski, innmat eða öðrum hefðbundnum próteingjöfum vega samanlagt a.m.k. 8% af heildarþyngd vörunnar
 • Notkunarleiðbeiningar þurfa að vera á umbúðum um barnamat, ef nauðsyn krefur, til að skýra hvernig beri að tilreiða vöruna og jafnvel áminning um mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningunum

Í janúar og febrúar 2004 fór fram eftirlitsverkefni á merkingu um umbúðir barnamats á vegum Heilbrigðiseftirlitssvæðanna og Umhverfisstofnunar. Skýrsluna með niðurstöðum verkefnisins má finna hér.

Barnamatur eins og önnur matvæli þarf að uppfylla ákvæði reglugerðar um merkingu matvæla. Samkvæmt þeirri reglugerð þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:

 • Heiti vörunnar
 • Nafn og heimilisfang framleiðanda, eða ábyrgs aðila innan EES
 • Innihaldslýsing
 • Geymsluþol
 • Geymsluskilyrði
 • Nettóþyngd

Í sömu reglugerð segir einnig að tungumál á umbúðum megi vera á íslensku, ensku eða norðurlandamáli, öðru en finnsku, og má vera fleira en eitt tungumál á umbúðunum. Reglugerðin um ungbarnablöndur og stoðblöndur er þó með sérstök ákvæði þar sem gerð er krafa um merkingu á íslensku. Hér að neðan eru gefin dæmi um hvaða upplýsingar skulu gefnar á íslensku á ungbarnablöndum:

 • Merking "áríðandi" eða sambærilegt hugtak þar sem í framhaldi skal gerð grein fyrir ágæti brjóstagjafar. Einnig skal taka fram að leita beri ráðgjafar hjá fagfólki sem annast mæðra- og ungbarnavernd
 • Yfirlýsing þess efnis að varan sé ætluð sem sérfæði fyrir ungbörn sem ekki eru höfð á brjósti
 • Nákvæmar leiðbeiningar um blöndun ásamt aðvörun um hættu samfara rangri blöndun 
Uppfært 28.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?