Sala og dreifing á fóðri
Sala og dreifing á fóðri fyrir dýr í matvælaframleiðslu
Aukefni, forblöndur aukefna og lyfjablandað fóður fyrir dýr í matvælaframleiðslu skal vera skráð hjá Matvælastofnun hvort sem það sé framleitt innanlands eða flutt inn frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Allt fóður sem flutt er inn til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skal vera skráð hjá Matvælastofnun. Innflutningur á skráningarskyldu fóðri skal tilkynntur til Matvælastofnunar.
Öll fyrirtæki sem koma að sölu, geymslu og dreifingu fóðurs fyrir dýr í matvælaframleiðslu eiga að vera skráð hjá Matvælastofnun. Á það við um eftirfarandi fyrirtæki:
- Innflutningsfyrirtæki á fóðri
- Starfsstöðvar sem selja fóður í heildsölu.
- Starfsstöðvar sem selja fóður í smásölu – geta verið fleiri en ein innan sama fyrirtækis.
- Flutningafyrirtæki.
- Allar starfsstöðvar sem geyma fóður, þ.m.t. starfsstöðvar flutningafyrirtækja.
- Söluskrifstofur eða umboðssalar sem selja fóður, jafnvel þótt fóður komi ekki í þeirra vörslu.
Fyrirtæki sem flytja inn og selja fóðuraukefni, forblöndur fóðuraukefnaeru leyfisskyld og því undir reglubundnu eftirliti Matvælastofnunar.
Sótt er um skráningu og leyfi rafrænt í þjónustugátt á heimasíðu Matvælastofnunar.
Sala og dreifing á fóðri fyrir gæludýr
Aukefni, forblöndur aukefna og lyfjablandað fóður fyrir gæludýr skal vera skráð hjá Matvælastofnun hvort sem það sé framleitt innan lands eða flutt inn frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Allt gæludýrafóður sem flutt er inn til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skal vera skráð hjá Matvælastofnun. Innflutning á skráningarskyldu gæludýrafóðri skal tilkynna til Matvælastofnunar.
Fyrirtæki sem flytja inn gæludýrafóður og annast heildsölu á pökkuðu gæludýrafóðri eiga að vera skráð hjá Matvælstofnun.
Pökkun á gæludýrafóðri er leyfisskyld og því undir reglubundnu eftirliti Matvælastofnunar.
Sótt er um skráningu og leyfi rafrænt í þjónustugátt á heimasíðu Matvælastofnunar.