Fara í efni

Merking og skráning katta

Eftirfarandi reglur gilda um merkingu og skráningu katta

  1. Allir kettir eldri en 12 vikna gamlir skulu vera örmerktir.
  2. Dýralæknir sem framkvæmir örmerkingu skal skrá örmerkisnúmerið í miðlægan gagnagrunn sem samþykktur er af Matvælastofnun.
  3. Dýraauðkenni er eini miðlægi gagnagrunnurinn á Íslandi sem samþykktur er af Matvælastofnun.
  4. Umráðamaður kattar skal tryggja að upplýsingarnar um köttinn í gagnagrunninum séu réttar á hverjum tíma.
  5. Umráðamaður kattar skal kynna sér reglur þess sveitarfélags sem hann tilheyrir og hlíta gildandi samþykktum um kattahald.

Örmerking

Skv. reglugerð um velferð gæludýra er skylda að örmerkja alla ketti. Örmerking er framkvæmd af dýralækni en örmerkið sjálft er tölvuflaga á stærð við hrísgrjón sem er sett undir húð á milli herðablaða eða vinstra megin í hnakkadramb kattarins með þar til gerðri sprautu. Örmerkið felur í sér einkvæman talnakóða (15 tölustafir) og er lesið með örmerkjaskanna. Kettlingar eru oftast örmerktir þegar þeir fá sína fyrstu skoðun og bólusetningu hjá dýralækni við 8 vikna aldur. 

Dýraauðkenni

Dýraauðkenni er gagnagrunnur á netinu sem heldur utan um örmerki gæludýra. Eingöngu dýralæknar/dýralæknastofur hafa aðgang að gagnagrunninum til þess að skrá ný dýr en umráðamenn geta skráð sig inn (með rafrænum skilríkjum eða íslykli) til þess að setja inn myndir af dýrinu, skrá eigendaskipti eða tilkynna um týnt dýr. Umráðamenn skulu tryggja að upplýsingar um dýrið séu réttar á hverjum tíma.

Uppfært 29.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?