Fara í efni

Tilkynningarskylt hestahald í atvinnuskyni

Reglugerð um velferð hrossa kveður á um úttektarskyldu Matvælastofnunar á margskonar hestahaldi í atvinnuskyni. Ábyrgðarmönnum slíkrar starfsemi ber að tilkynna starfsemina til Matvælastofnunar eigi síðar en 30 dögum áður en hún hefst og einnig ber að tilkynna starfsemi sem hófst fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Tilgangurinn er að treysta smitvarnir og viðbrögð við smitsjúkdómum og að auðvelda eftirlit með velferð hrossa. 

Eftirfarandi ákvæði gilda um tilkynningar- og úttektarskylda starfsemi:

 1. Landsmót hestamanna
  - Öll hross skulu undirgangast heilbrigðisskoðun skv. fyrirkomulagi sem samþykkt hefur verið af Matvælastofnun 
  - Sértæk viðbragðsáætlun, samþykkt af Matvælastofnun, ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm
 2. Íslandsmót í hestaíþróttum
  - Öll hross skulu undirgangast heilbrigðisskoðun skv. fyrirkomulagi sem samþykkt hefur verið af Matvælastofnun
  - Sértæk viðbragðsáætlun, samþykkt af Matvælastofnun, ef upp kemur grunur um smitsjúkdóm
 3. Tæknivædd þjálfunarstöð
  - Þeir sem reka tæknivæddar þjálfunarstöðvar fyrir hross og/eða starfsmenn þeirra skulu auk grunnþekkingar á eðli og þörfum hrossa, geta sýnt fram á þekkingu á þjálfunarlífeðlisfræði hrossa eða sambærilega menntun
  - Stöðugt eftirlit skal vera með hrossum meðan á þjálfun þeirra stendur í vélknúnum tækjum eða í öðrum búnaði þar sem hross geta enga björg sér veitt, fari eitthvað úrskeiðis, s.s. í sundlaugum
  - Þar sem hross eru þjálfuð á vatnsbrettum eða í sundlaugum skal gæta sérstakra smitvarna. Hindra skal að sjúkdómsvaldandi bakteríur vaxi í vatni sem notað er við slíka þjálfun með grófhreinsun vatnsins og klórun eða annarri efnameðhöndlun og halda yfir það dagbók
  - Í dagbókina skal einnig skrá hvaða hross eru þjálfuð með þessum hætti og heilbrigði þeirra. Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari í allt að tvö ár
 4. Endurhæfingarstöð fyrir hross
  - Endurhæfing hrossa vegna álagssjúkdóma eða annarra veikinda á endurhæfingarstöð skal eingöngu eiga sér stað að lokinni sjúkdómsgreiningu og samkvæmt tilvísun frá dýralækni
 5. Tamningastöð
  - Tilkynningarskylda
 6. Hestaleiga
  - Umráðamanni hestaleigu ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi
  - Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir
 7. Reiðskóli
  - Umráðamanni reiðskóla ber að skrá tíðni og tímalengd notkunar á hverju hrossi.
  - Dagbókin skal aðgengileg eftirlitsaðilum samkvæmt reglugerð þessari hvenær sem þurfa þykir

Tilkynning 2.10 Tilkynningaskyld starfsemi með hesta er að finna í þjónustugátt Matvælastofnunar

Nánari upplýsingar um tiltekin atriði er að finna hér:

Eru stangirnar þínar löglegar í keppni eða kynbótasýningu?

Í reglugerð um velferð hrossa er skýrt kveðið á um bann við notkun méla með tunguboga og vogarafli í hvers kyns sýningum og keppni hér á landi. Á það við um WR mót sem önnur. Eftirfarandi skilgreiningu er að finna í reglugerðinni:

Mél með tunguboga og vogarafli: Öll mél með stöngum og/eða keðju þar sem munnstykkið er þannig gert að hæðarmunur frá neðri kanti á endastykki upp í neðri kant á efsta hluta (miðhluta) er meiri en 0,5 sm.

Verulega hefur dregið úr alvarlegum áverkum á kjálkabeini hjá sýninga- og keppnishrossum eftir að reglugerðin tók gildi. En betur má ef duga skal og mikilvægt er að tryggja sameiginlegan skilning á þessu ákvæði sem og eftirfylgni. 

Yfirdómari hvers móts ber ábyrgð á að reglum um beislisbúnað sé fylgt en eðlilegast er að sjálft eftirlitið sé hjá fótaskoðunarmönnum/sýningastjórum. Ekki er mögulegt að meta hvort beisli með vogarafli séu með tunguboga nema tekið sé út úr hestunum og stundum getur reynst nauðsynlegt að mæla hæðarmuninn á neðri kanti á endastykki upp í neðri kant miðhluta.

Nokkur hópur dómara og sýningastjóra, auk formanns járningamannafélagsins og dýralæknis hrossasjúkdóma, kom saman 13. mars s.l. til að bera saman bækur sínar og samræma fyrirkomulag eftirlitsins. Niðurstaða fundarins var að samræma eftirlitið með eftirfarandi hætti:

 • Á öllum sýningum og mótum, þar sem fótaskoðun er viðhöfð, skulu fótskoðunarmenn athuga hvort riðið hafi verið við löglegan beislisbúnað. Merkt skal við hluteigandi lið á fótaskoðunarblaði í Mótafeng. Knapar geta mætt fyrir keppni og gengið úr skugga um lögmæti méla en alla jafna fer skoðunin fram eftir keppni. Tekið skal út úr öllum hestum sem riðið var við mél með vogarafli og kannað hvort þau séu með tunguboga. Hæð tungubogans skal mæld ef þurfa þykir. Ef um ólöglegan búnað er að ræða eða vafi leikur á lögmæti búnaðarins skal yfirdómari kallaður til sem tekur loka ákvörðun.
 • Á Landsmótum gerir Matvælastofnun kröfu um ítarlegri skráningu á mélum og öðrum beislisbúnaði.
 • Á sýningum þar sem ekki er viðhöfð fótaskoðun má vænta skyndieftirlits Matvælastofnunar.

Dæmi um ólögleg mél og mælingar á þeim:

Ólögleg mél 1

Ólögleg mél 2

Endastykki mélanna skulu lögð á láréttan flöt og hæð að neðra borði miðstykkis mælt.

Athygli er vakin á að mél sem þessi eru með vogarafli og þar sem þau eru ennfremur 
með tunguboga eru þau ólögleg í sýningum og keppni hér á landi.

Tíðni særinda í munni keppnishesta

Uppfært 08.03.2024
Getum við bætt efni síðunnar?