Fara í efni

Útflutningur matvæla

Mikilvægt er að ferðamenn kynni sér vel reglur um innflutning matvæla til einkaneyslu á milli landa áður en haldið er í ferðalag. Yfirvöld viðkomandi móttökuríkja setja slíkar reglur og óleyfilegar matvörur eru teknar af ferðamönnum við tollskoðun og getur það varðað sektum. Takmarkanir á innflutningi dýraafurða eru vegna sjúkdómavarna. 

Til landa innan EES

Ferðamönnum er heimilt að taka með í farangri dýraafurðir til einkaneyslu (allt að 10 kg af kjöti) til annarra landa innan EES (Evrópska efnahagssvæðisins) svo fremi sem þær eru í neytendapakkningum og merktar með auðkennismerki. Auk þess er ferðamönnum heimilt að hafa meðferðis lítið magn af mjólkurvörum til einkaneyslu.

Til Bandaríkjanna

Ferðamönnum er heimilt að taka með sér til Bandaríkjanna allt að 22,6 kg (50 pund) af lambakjöti til einkaneyslu. Athuið að kjötið þarf að vera í neytendapakkningum og merkt með auðkennismerki. Einnig er heimilt að hafa meðferðis lítið magn af fiski, rækjum, skelfiski og öðrum sjávarafurðum (ýmist hráum, frystum, þurrkuðum, reyktum, soðnum eða niðursoðnum). Slíkar vörur skulu vera eingöngu til einkaneyslu og ekki til frekari sölu eða dreifingar í Bandaríkjunum. Allir ferðamenn sem koma til Bandaríkjanna verða að gera skil gagnvart tolli á öllum matvælum sem þeir hafa í farangri sínum. Sé það ekki gert getur það varðað háum fjársektum.

Neytendapakkningar og auðkennismerki

Fyrirtæki sem framleiða matvæli úr dýraafurðum skulu merkja vörur sínar með auðkennismerki sem inniheldur samþykkisnúmer framleiðanda. Það tryggir rekjanleika og staðfestir að leyfishafi uppfyllir kröfur Íslands og Evrópusambandsins. Auðkennismerkið er egglaga og þar koma fram orðin EFTA, IS (eða Ísland) og númer framleiðandans.

Ávextir og grænmeti

Til þess að koma í veg fyrir dreifingu ýmissa plöntusjúkdóma eru víða í gildi reglur um innflutning á ávöxtum og grænmeti. Mikilvægt er að ferðamenn afli sér upplýsinga um slíkar reglur.

Til annarra landa

Víðast hvar er að finna upplýsingar á opinberum vefsíðum um hvað ferðamenn mega hafa meðferðis.

Uppfært 28.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?