Fara í efni

Innflutningur

Matvælastofnun annast eftirlit og vottun vegna plöntuheilbrigði við innflutning plantna og plöntuafurða. Kröfur sem plöntur og plöntuafurðir verða að uppfylla við innflutning til Íslands má finna í reglugerð nr. 189/1990 með síðari breytingum. Jafnframt þarf að afla leyfis Umhverfisstofnunar sé um framandi tegund að ræða en óheimilt er að flytja inn framandi lífverur án leyfis stofnunarinnar.

Hvað má flytja inn?

Einungis er heimilt er að flytja inn eftirfarandi plöntur eða plöntuafurðir ef þeim fylgir opinbert plöntuheilbrigðisvottorð (Phytosanitary certificate) frá útflutningslandinu sem er ekki eldra en 14 daga miðað við útflutningsdag:

 • Plöntur með rót eða plöntuhlutar s.s. græðlingar, blómlaukar, stöngul- & rótarnhýði o.fl.
  Fræ og vatnaplöntur ætlaðar í fiskabúr eru þó undanskilin.
 • Afskorin blóm og greinar.
 • Rótarlaus barrtré og barrtrjágreinar frá Evrópu (ath. innflutningsbann á ýmsum ættkvíslum).
 • Trjávið með berki, með og án rótar (ath. innflutningsbann).
 • Kartöflur (Solanum tuberosum).
 • Mold.

Til þess að hægt sé að flytja inn plöntur og plöntuafurðir þurfa þær að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi plöntuheilbrigði, t.d. að vera lausar við ákveðna skilgreinda skaðvalda. Þær kröfur sem gerðar eru til plöntuheilbrigðis má finna nánar í reglugerð nr. 189/1990. Jafnframt þarf að afla leyfis Umhverfisstofnunar sé um nýja framandi tegund að ræða en óheimilt er að flytja inn nýjar framandi lífverur án leyfis stofnunarinnar.

Athuga þarf samt innflutningsbann við ákveðnum plöntum og plöntuafurðum.

Hvaða plöntur er bannað að flytja inn?

Það er óheimilt að flytja inn þá skaðvalda sem skilgreindir eru í viðauka I í reglugerð nr. 189/1990 og einnig plöntur sem þeir finnast í eða á.

Óheimilt er að flytja inn eftirfarandi plöntur:

 • Álmur (Ulmus spp.)
 • Birki (Betula spp.)
 • Fura (Pinus spp.)
 • Greni (Picea spp.)
 • Lerki (Larix spp.)
 • Víðir (Salix spp.)
 • Ösp (Populus spp.)
 • Önnur barrtré (Coniferae) frá löndum utan Evrópu.
 • Þinur (Abies spp) til áframhaldandi ræktunar.
 • Villtar plöntur sem safnað hefur verið á víðavangi.
 • Plöntur með rót af gúrku, papriku, tómat og salati. Undanskilið er salat með rót sem ekki er ætlað til útplöntunar heldur er tilbúið til neyslu.
 • Vatnaplantan Elodea spp.
 • Lyngrós (Rhododendron spp.), að undanskilinni Rhododendron simsii, nema plöntur komi frá vaxtarstað þar sem Phytophthora ramorum finnst ekki.

Innflutningsbann við ákveðnum ættkvíslum trjáa gildir einnig um trjávið ef við hann er áfastur börkur, það sama gildir um afurðir búnar til úr trjávið með berki t.d. eins og viðarkurl.

Má flytja inn jarðveg?

Almenna reglan er sú að óheimilt er að flytja inn jarðveg, safnhaugamold, óunnin eða kurlaðan trjábörk og húsdýraáburð. Þó er undanskilin tvennskonar mold.

Annarsvegar er undanskilin mómosamold til ræktunar sem að meginhluta samanstendur af mómosa (Sphagnum / peat moss). Sú mold þarf að vera tekin úr mógröfum þar sem ekki hefur verið ræktað áður, hún má ekki innihalda safnhaugamold, óunnin eða kurlaðan trjábörk né húsdýraáburð. Opinbert heilbrigðisvottorð þarf að fylgja moldinni við innflutning.

Hinsvegar er undanskilin sú mold sem fylgir rótum plantna. Í þeim tilfellum á heilbrigðisvottorðið sem fylgir plöntunum einnig að ná yfir þá mold sem fylgir með. Þó er vakin athygli á því að ef plönturnar koma frá löndum þar sem nýsjálenski flatormurinn er útbreiddur þurfa plönturnar að vera alveg lausar við mold, nema að sérstök yfirlýsing sé á heilbrigðisvottorði um að plönturnar komi frá svæði þar sem flatormurinn finnst ekki.

Hvað er opinbert plöntuheilbrigðisvottorð?

Plöntuheilbrigðisvottorð (Phytosanitary certificate) er gefið út af opinberri stofnun í útflutningslandinu sem sér um eftirlit með plöntuheilbrigði. Með því að gefa út slíkt heilbrigðisvottorð er verið að staðfesta það að plönturnar eða plöntuafurðirnar í sendingunni uppfylli þær kröfur sem innflutningslandið gerir varðandi plöntuheilbrigði. Athuga þarf að heilbrigðisvottorð má ekki vera eldra en 14 daga þegar sendingin fer frá útflutningslandinu.

Ef að plöntur eru ræktaðar í öðru landi en útflutningslandinu, skal fylgja sendingunni sérstakt endurútflutningsvottorð (re-export) ásamt afriti af heilbrigðisvottorðinu sem fylgdi plöntunum inn í útflutningslandið. 

Má flytja plöntur í handfarangri eða póstleggja án vottorða?

Já, einstaklingar eða ferðamenn mega taka með sér eftirfarandi plöntur eða plöntuhluta án þess að þeim fylgi heilbrigðisvottorð og það sama gildir um póstsendingar milli landa, oft kallað handfarangursreglur:

 • Vönd með afskorum blómum og greinum ( allt að 25 plöntum).
 • Blómlauka, rótar- og stöngulhnýði frá Evrópu í órofnum verslunarumbúðum (allt að 2 kg).
 • Einstaka pottaplöntur (inniplöntur) frá Evrópu (allt að 3 stk.)
 • Við búferlaflutninga frá Evrópulandi er heimilt að taka með sér pottaplöntur (inniplöntur) sem tilheyra venjulegri búslóð (allt að 30 stk.).

Bent skal á að þessi undanþága nær ekki yfir villtar plöntur sem tíndar eru á víðavangi, trjáplöntur (með eða án rótar) þ.m.t. dvergtré (bonsai) og kartöflur. Hafa þarf í huga að undanþága þessi nær ekki til tegunda sem óheimilt er að flytja inn skv. viðauka III.

Eftirlit

Markmið plöntueftirlits

Að hindra að nýir sjúkdómar eða meindýr berist til landsins sem valdið gætu tjóni á innlendri plönturæktun og að hefta frekari útbreiðslu nýrra og hættulegra skaðvalda sem þegar eru komnir og vinna að útrýmingu þeirra teljist það mögulegt. 

Lög og reglugerðir

Plöntueftirlit Matvælastofnunar annast þátt stofnunarinnar í framkvæmd laga nr. 51/1981 um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum ásamt síðari breytinum, og reglugerð nr. 189/1990 um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum, og reglugerðar nr. 630/2008 um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi. 

Eftirlit

Innflytjanda ber að tilkynna Matvælastofnun um hvern innflutning á plöntum eða plöntuafurðum sem fellur undir ákvæði reglugerðar nr. 189/1990, en óheimilt er að tollafgreiða og afhenda þær sendingar nema fyrir liggi leyfi og samþykki frá Matvælastofnun.

Framkvæmd eftirlits með innflutningi á plöntum og plöntuafurðum fer fram með skjalaskoðun og eftir atvikum vöruskoðun.

Allar þær sendingar sem koma til landsins og innihalda plöntur eða plöntuafurðir sem falla undir ákvæði reglugerðar nr. 189/1990 eru teknar til skoðunar með tilliti til skjalaskoðunar. Farið er yfir hvert innihald sendingarinnar er, hvort að sendingin innihaldi plöntur eða plöntuafurðir sem óheimilt er að flytja inn og hvort gild opinber plöntuheilbrigðisvottorð fylgi sendingunni. Eftir atvikum eru framkvæmdar vöruskoðanir þar sem plöntusendingin sjálf er skoðuð og tekin eru sýni.

Tollafgreiðsla og afhending sendinga

Til þess að fá sendingar sem innihalda plöntur eða plöntuafurðir afhendar úr tolli þarf fyrst að sækja um leyfi eða samþykki frá Matvælastofnun. Innflytjanda ber að tilkynna um innflutning á slíkum sendingum til Matvælastofnunar í gegnum Þjónustugátt stofnunarinnar, einnig þarf að framvísa afriti af vörureikningi og vottorðum eftir því sem við á. Sjá nánar undir eftirlit.

Þjónustugátt

Allar sendingar sem innihalda plöntur og plöntuafurður þarf að tilkynna til Matvælastofnunar, auk tilkynningar þarf að senda afrit af vörureikning og vottorðum auk annara fylgiskjala sem málið varðar hverju sinni. Tilkynningar fara fram á Þjónustugátt stofnunarinnar og eru þar til gerð eyðublöð í 5. kafla. Til þess að skrá sig inn á Þjónustugátt þarf að nota rafræn skilríki eða ÍsLykil. 

Ítarefni

Hér að neðan er tilgreint úrval greina og sumar þeirra er að finna í sameiginlegu greinasafni íslensks landbúnaðar.

 • Landbúnaðarráðuneytið 2000. Efldar varnir gegn plöntusjúkdómum og meindýrum. Skýrsla vinnuhóps landbúnaðarráðherra. febrúar 2000.
 • Sigurgeir Ólafsson 1997. Plöntuheilbrigði og EES. Bændablaðið 3(2): 18.
 • Sigurgeir Ólafsson 2001. Um innflutning á plöntum og plöntuafurðum. Morgunbl. 22. júní: 48.
 • Sigurgeir Ólafsson 2002. Um innflutning á jólatrjám og greinum
Uppfært 06.11.2023
Getum við bætt efni síðunnar?