Fara í efni

Rekjanleiki

Með innleiðingu matvælalöggjafar ESB á Íslandi 1. mars 2010 er gerð aukin krafa um rekjanleika matvæla. Ákvæðið er sett fram í 18. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002, með síðari breytingum, sem innleidd var með reglugerð nr. 102/2010.

Framleiðsla og dreifing matvæla um allan heim er sífellt að aukast. Af og til koma upp tilfelli, eða vísbending um matvæli á markaði sem geta valdið neytendum heilsutjóni. Nauðsynlegt er að geta rakið matvörur til framleiðanda /dreifingaraðila, svo hægt sé að innkalla þau ef ástæða er til og koma í veg fyrir að neytendur veikist í kjölfar neyslu þeirra.

Með rekjanleika er átt við möguleika á að rekja feril matvæla, fóðurs og dýra, sem gefa af sér afurðir til manneldis, og efna, sem nota á eða vænst er að verði notuð í matvæli eða fóður, í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar;

Af hverju rekjanleiki?

Traust rekjanleikakerfi í matvælafyrirtækjum er mikilvægt svo hægt sé að innkalla vörur og veita neytendum og/eða eftirlitsaðilum upplýsingar á skjótan og markvissan hátt þegar upp kemur grunur um matvæli sem ekki eru örugg. Þannig má stuðla að aukinni neytendavernd, komast hjá óþarfa röskun starfseminnar og lágmarka fjárhagslegt tjón fyrirtækja.  

Hvenær eru matvæli ekki örugg?

Í 14. grein í fylgiskjali I við reglugerð 102/2010 er fjallað um kröfur um öryggi matvæla.  Matvæli skulu ekki teljast örugg ef þau eru álitin heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Ekki skal markaðsetja matvæli sem ekki eru örugg.    Í greininni er einnig fjallað um ýmsa þætti sem skal hafa til hliðsjónar við ákvörðun á því hvort matvæli séu örugg.

Hver er ábyrgð matvælafyrirtækja?

Samkvæmt  matvælalöggjöfinni, bera stjórnendur matvælafyrirtækja ábyrgð á að hægt sé að rekja vöru til framleiðanda/dreifingaraðila. Matvælaframleiðendur eiga að geta tilgreint birgja og halda skrá yfir þá aðila/fyrirtæki sem þeir afhenda vörur sínar.

Hvaða vörur?

Allar vörur og efni sem nota á, eða gert ráð fyrir að verði notuð í vinnsluferli matvæla. Þetta nær því yfir allar gerðir af matvælum, sem og aukefni, varnarefni og umbúðir sem komast í snertingu við matvæli.

Hvaða fyrirtæki?

Matvælafyrirtæki á öllum stigum matvælakeðjunnar frá frumframleiðslu til matvælavinnslu og dreifingar eiga að geta tryggt rekjanleika.

Matvælafyrirtæki eru skilgreind sem fyrirtæki sem rekja starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi. Dreifingafyrirtæki og vörugeymslur falla því einnig undir þessa skilgreiningu, þar sem þau geyma matvæli og dreifa þeim.

Fyrirtæki sem framleiða efni og hluti sem komast í snertingu við matvæli eiga einnig að geta tryggt rekjanleika hráefna og framleiðsluvöru skv. 17.grein reglugerðar (EB) nr 1935/2004 með síðari breygingum sem innleidd var með reglugerð nr. 398/2008..

Hvernig  tryggja matvælaframleiðendur rekjanleikja?

Krafan um rekjanleika er byggð á upplýsingum um eitt skref aftur - eitt skref fram, sem þýðir að matvælafyrirtæki skulu setja upp kerfi eða verklagsreglur sem gerir þeim kleift að tilgreina birgja og kaupendur framleiðsluvara fyrirtækisins. Matvælafyrirtæki á að geta tilgreint:

  • Alla þá aðila, sem þeir hafa móttekið matvörur, hráefni til matvælaframleiðslu og umbúðir sem eiga að komast í snertingu við matvæli frá. Þetta geta verið einstaklingar (t.d. veiðimenn) eða fyrirtæki.
  • Öll þau fyrirtæki, sem taka við vörum fyrirtækisins. Krafan um rekjanleika gildir einnig um viðskipti milli smásala, t.d. dreifingaraðila og veitingahús.

Með þessu er tryggt, að það verður hægt að rekja vöruna frá birgjum til viðskiptavina.

Matvælafyrirtæki þurfa þó ekki að tilgreina viðskiptavini þegar um er að ræða neytendur.

Hvaða upplýsingar skal skrá?

Til að tilgangur ákvæða um rekjanleika náist, þurfa matvælafyrirtæki að varðveita að lágmarki upplýsingar um:

  • Nafn, heimilisfang birgja og skrá yfir vörur frá þeim
  • Nafn, heimilisfang viðskiptavina og skrá yfir vörur til þeirra
  • Viðskipta- eða afhendingadagur

Einnig skal benda á að það er æskilegt fyrir matvælafyrirtæki að skrá upplýsingar um:

  • Magn
  • Lotunúmer
  • Útskýring á vöru (pökkun, vöruflokkur, hráefni eða tilbúin matvæli)

Ekki er til algild regla um hversu lengi á að geyma upplýsingar, en það er æskilegt að fyrirtækin geymi nauðsynlegar upplýsingar um vöruna út geymslutíma hennar að viðbættum 12 mánuðum.

Hvar eru upplýsingarnar?

Flest fyrirtæki eru með þær upplýsingar sem þarf til að uppfylla kröfuna um rekjanleika, s.s lista yfir birgja og kaupendur, fylgiseðla, flutnings- og afhendingarskjöl og afrit af kvittunum.  Í huga þarf hvort tengja þurfi frekari upplýsingar við þessi skjöl.  Skjölin þarf að geyma á skipulagðan hátt í t.d. möppu eða í tölvukerfi.

Hvernig skal eftirlit vera?

Matvælafyrirtæki eiga að sannreyna hvort rekjanleiki er tryggður og hvort unnt sé að afla nauðsynlegra upplýsinga á skjótvirkan hátt. Prófun á rekjanleika á að vera hluti af innra eftirliti fyrirtækisins.

Eftirlitsaðili á einnig að athuga í reglubundnu eftirliti hvort rekjanleiki sé tryggður.

Ef innra eða ytra eftirlit leiðir í ljós að rekjanleiki sé ekki til staðar skal fyrirtækið vinna að úrbótum.  

Markvissari viðbrögð

Það sem er afgerandi fyrir virkt rekjanleikakerfi er, hversu langan tíma það tekur að nálgast nákvæmar upplýsingar um vöru. Töf á upplýsingum getur haft úrslita áhrif á viðbragðstíma fyrirtækisins og eftirlitsaðila, ef upp kemur grunur um að matvæli á markaði sé ekki örugg fyrir neytendur.

Rekjanleiki vöru innan fyrirtækisins (Innri rekjanleiki), er því gagnlegur fyrir fyrirtækið, þar sem hann stuðlar að betri, markvissari og kostnaðarminni innköllun. Ákvörðun um hversu nákvæmur innri rekjanleiki á að vera, skal fyrirtækið sjálft taka.

Ítarefni

Uppfært 22.03.2021
Getum við bætt efni síðunnar?