Fara í efni

Kanínur og nagdýr

Almenn meðferð og umhirða

  • Kanínur og nagdýr skulu njóta afþreyingar og félagsskapar eftir því sem við á. Þegar dýr eru höfð saman skal val á dýrum taka mið af tegund, aldri, kyni og öðrum þáttum sem minnka líkur á ósætti. Gullhamstra skal hafa eina í búri frá þeim tíma sem þeir byrja að sýna hver öðrum árásarhneigð.
  • Næturvirkum dýrum skal tryggður nægilegur friður til hvíldar yfir daginn.
  • Hamstrar, rottur og mýs skulu hafa ótakmarkaðan aðgang að fóðri og vatni. Kanínur og naggrísir skulu hafa ótakmarkaðan aðgang að gróffóðri svo sem heyi eða grasi. Aðlögun skal eiga sér stað þegar breytingar eru gerðar á fóðri.
  • Óheimilt er að skilja kanínur eða nagdýr eftir ein og eftirlitslaus lengur en einn sólarhring.

Undaneldi kanína og nagdýra og umönnun ungviðis

  • Aðeins skal nota heilbrigðar kanínur og nagdýr til undaneldis. Ekki skal ala undan kanínum eða nagdýrum sem eru haldin arfgengum sjúkdómum sem geta haft áhrif á heilbrigði afkvæma eða skert lífslíkur og/eða lífsgæði.
  • Tryggja skal að kvendýr fái nægjanlega hvíld milli gota og ekki sé gengið nærri holdafari eða heilsu.
  • Tveimur vikum fyrir got skal færa kanínu í sér búr/rými með aðgang að hlýjum hreiðurgerðarkassa skv. 3. lið viðauka II. Kanínu skal hafa eina í búri með ungum sínum á meðan ungarnir eru á spena. Ekki skal nema í undantekningartilvikum skilja kanínuunga yngri en átta vikna frá móður, dverghamstraunga og músaunga yngri en þriggja vikna, og gullhamstraunga og naggrísaunga yngri en fjögurra vikna.
  • Minnst skulu líða tvær vikur frá því að kanínuungar eru aðskildir frá móður þar til hún er aftur sett í búr með karldýri.

Almennur aðbúnaður kanína og nagdýra

  • Búr eða aðhald skulu þannig gerð að dýr geti séð og heyrt það sem fram fer utan þess, fái útrás fyrir eðlilega hreyfiþörf, hafi möguleika á afdrepi gegn áreiti, óvinveittum dýrum og of mikilli birtu eða hita og hafi jafnframt aðgang að hentugu legurými. Einnig skal tryggja aðstöðu og umhverfi sem mætir þörf dýrs fyrir tilbreytingu og afþreyingu. Tryggja skal að dýr geti ekki nagað sig út úr búri/aðhaldi. Kanínur og nagdýr má ekki halda á net- eða víragólfi. Þetta á þó ekki við þegar um hluta gólfs í útibúri er að ræða, sem ætlað er til að gefa aðgang að grasi. Stærð og gerð búra skal uppfylla lágmarkskröfur skv. 3. og 4. lið viðauka II. Nr. 80 21. janúar 2016
  • Búrum skal halda þurrum og hreinum. Undirburður skal ávallt vera hreinn og úr viðeigandi efni, s.s. heyi, hálmi eða sagi. Ef fleiri dýr eru saman í búri skal vera legurými eða skjól sem öll dýr geti notað samtímis án þess að árásargirni skapist.
  • Séu kanínur hafðar úti að staðaldri skal slíkt aðeins gert eftir aðlögun að útiveru og tryggja skal aðstöðu sem veitir þeim skjól gegn veðri, vindum og sólarljósi, sé laus við dragsúg og vel einangruð frá jarðkulda og hafi tryggan aðgang að vatni. Nagdýr skal ekki vista utandyra og þau má ekki halda við hitastig lægra en 0°C. Ætíð skal tryggja að nagdýr hafi aðgang að stað þar sem hitastig er innan eðlilegra marka fyrir tegundina.

Innflutningur kanína og nagdýra 

Hér er að finna upplýsingar um innflutning kanína og eftirfarandi nagdýrategunda; naggrísa, hamstra, músa og degu, sem haldin eru sem gæludýr. Afla skal innflutningsleyfis Matvælastofnunar og leggja fram vottorð sem sýnir fram á að dýrin uppfylli heilbrigðisskilyrði. Þau skulu svo dvelja í sóttkví (heimaeinangrun) í 4 vikur við innflutning. 

ATH! Þann 11. mars 2020 tók gildi breyting á reglugerð um innflutning gæludýra sem varðar kanínur og nagdýr. Innflutningsskilyrði eru óbreytt en nagdýrategundir sem heimilt er að flytja inn skv. reglugerðinni eru eftirfarandi: naggrísir, hamstrar, stökkmýs og degu. Þar til nýjar leiðbeiningar verða gefnar út má hafa þær sem hér eru birtar til hliðsjónar. Sömu kröfur gilda enn varðandi innflutning, þ.e. heilbrigðisvottorð og fjögurra vikna heimaeinangrun. Þó bætist við krafa um að kanínur skulu örmerktar. Fyrirspurnir vegna þessa má senda á petimport@mast.is 

Reglugerð nr. 2020/2020 um 2. breytingu á reglugerð nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis. 

 

Uppfært 24.02.2022
Getum við bætt efni síðunnar?