Fara í efni

Breytingar á matvælafyrirtæki

Tilkynna skal til Matvælastofnunar eða heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga ef breytingar verða á nafni og eða kennitölu matvælafyrirtækja eða ef umtalsverðar breytingar verða á starfsemi matvælafyrirtækja.

Við breytingu á kennitölu fyrirtækis þarf að gefa út nýtt starfsleyfi og því er mikilvægt að tilkynna það til eftirlitsaðila.

Eftirlitsaðili metur í kjölfar kynningar hvort þörf sé á sérstakri úttekt, breytingum á forsendum leyfis eða breytingu á samþykkisnúmeri. Almennt fá fyrirtæki sem vinna dýraafurðir nýtt samþykkisnúmer ef kennitölu er breytt. 

Ef fyrirtækið er undir eftirliti Matvælastofnunar skal senda tilkynningu um breytingar í gegnum þjónustugátt MAST á sama hátt og umsókn um leyfi en ekki er nauðsynlegt að fylla út allar upplýsingar. Haka skal við „Breytt vinnsluleyfi“ og neðar undir „Breyting á vinnsluleyfi“ skal merkja við hvað breytist. Undir athugasemdir/ skýringar neðst á síðunni skal koma fram greinargóð lýsing á því í hverju breytingin felst.

Ef fyrirtækið er undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga skal haft samband við viðkomandi heilbrigðiseftirlit. Sjá nánar hér.

Með umtalsverðum breytingum er átt við:

 • Stækkun / endurbyggingu á húsnæði.
 • Breytingar á skipulagi húsnæðis.
 • Flutningur á starfsemi í annað húsnæði.
 • Miklar breytingar á vöruúrvali, framleiðsluháttum, framleiðslumagni eða fjölda starfsmanna.
 • Ný framleiðsluferli eða framleiðslulínur sem hafa áhrif á kröfur til húsnæðis eða kalla á verulegar breytingar á HACCP kerfinu.

Nokkur dæmi um breytingar. Athugið að listinn er ekki tæmandi.

Fyrirtæki ætlar að bæta við:

 • Framleiðslu á matvælum sem eru ólík þeim matvælum sem eru framleidd í fyrirtækinu s.s. framleiðslu á ávaxtasafa, skurði á grænmeti og ávöxtum, meðhöndlun á deigi, frystingu eða uppþíðingu matvæla.
 • Meðhöndlun á matvælum sem eru menguð af jarðvegi. Dæmi um slíka framleiðslu er meðhöndlun á grænmeti og ávöxtum með sjáanlegum jarðvegi, eða fláning, plokkun eða affiðrun dýra.
 • Framleiðslu á hitameðhöndluðum matvælum.
 • Framleiðslu á matvælum í veitingahúsi/stóreldhúsi, sem dreifa á í neytendaumbúðum til smásöluverslana. 
 • Reykingu matvæla, kald- eða heitreykingu eða nota nýja aðferð við reykingu.
 • Skurði á kjöti og fiski eða framleiðslu á kjöt- og fiskafurðum með öðrum aðferðum en leyfi nær til s.s. frystingu, söltun, þurrkun, gröfun, marineringu eða gerjun.
 • Geymslu matvæla í kæli eða frystigámum.
 • Afhendingu matvæla til viðkvæmra neytenda eða fyrirtækja sem afhenda matvæli til þessara hópa. Viðkvæmir neytendur eru börn undir 5 ára, fólk með viðkvæmt ónæmiskerfi (s.s. eldra fólk, sjúklingar á sjúkrahúsum, barnshafandi konur)
 • Vinnslu dýraafurða eða geymslu dýrafurða í frysti eða kæli. Ekki er átt við þurrkaðar og niðursoðnar dýraafurðir eða hunang.
 • Framleiðslu á íblönduðum matvælum s.s. matvælum sem D vítamíni á að bæta í. Talað er um íblöndun (food fortification) þegar næringarefnum, þ.e. vítamínum og steinefnum (þ.m.t. snefilefnum), er aukalega bætt í matvæli við framleiðslu þeirra til að auka næringargildi þeirra.
 • Slátrun á tegund dýra sem leyfi næri ekki yfir.
 • Skurði á dýrategund sem leyfi nær ekki yfir.
 • Vinnslu á hrámjólk til framleiðslu á mjólkurafurðum eða öðrum matvælum.
 • Vinnslu á öðrum tegundum dýraafurða. T.d ef fyrirtæki sem framleiðir kjötafurðir fer að framleiða fisk- eða mjólkurafurðir, eða að fiskfyrirtæki fer að framleiða kjöt- eða mjólkurafurðir
 • Framleiðslu á hökkuðu kjöti, eða unnum kjötvörum (meat preparation) í fyrirtæki sem er með leyfi til að skera kjöt.
 • Framleiðslu á prufum / sýnishornum úr hráefni sem er óskylt því sem er tilgreint í leyfi.
 • Meðhöndlun, pökkun, geymslu, markaðsetningu eða innflutningi á lífrænum matvælum.
 • Afhendingu á leifum úr jurtaríkinu til fóðrunar dýra.

Starfsemi hætt eða hlé á starfsemi

Tilkynna skal til Matvælastofnunar eða heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga ef starfsemi matvælafyrirtækis er hætt. Þó er heimilt að gera hlé á starfsemi í allt að 3 mánuði án þess að tilkynnt sé til eftirlitsaðila. Skilyrðið er að engin önnur starfsemi verði í húsnæðinu á meðan hlé er á starfseminni.