Fara í efni

Auðkennismerki og samþykkisnúmer

Auðkennismerki

Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu skulu þau hafa auðkennismerki svo unnt sé að tryggja rekjanleika þeirra til framleiðanda. Þetta á við um hrátt kjöt og hráan fisk í neytendaumbúðum og vörur unnar úr hrámjólk, hráu kjöti og hráum fisk.

Auðkennismerkið skal vera egglaga og í því skal koma fram heiti landsins þar sem starfsstöðin er staðsett (IS eða Ísland),  samþykkisnúmer starfsstöðvar og EFTA. Mælt er með IS þar sem það er alþjóðlegur kóði. Merkið skal vera læsilegt, óafmáanlegt og rittáknin greinileg. 

Auðkennismerki

Auðkennismerkið gefur til kynna að lögbært yfirvald telji viðkomandi leyfishafa uppfylla kröfur Íslands og Evrópusambandsins. Afurðir í umbúðum sem bera slík auðkennismerki eru í frjálsu flæði innan EES svæðisins.

Samþykkt starfsstöð sem framleiðir matvæli úr dýraríkinu og matvæli jurtaríkinu getur sett auðkennismerki á allar afurðir sem framleiddar eru í því húsnæði sem fellur undir starfsemi hinnar samþykktu starfstöðvar. Kjötvinnsla með samþykki sem framleiðir grænmetisrétti getur því sett auðkennismerkið á grænmetisréttina.

Samþykkisnúmer 

Fyrirtæki sem framleiða matvæli úr dýraafurðum skulu merkja vörur sínar með auðkennismerki sem inniheldur samþykkisnúmer starfsstöðvarinnar.

Matvælastofnun úthlutar samþykkisnúmeri til fyrirtækja sem framleiða matvæli úr hráum fiski, hráu kjöti og hrámjólk, s.s. fiskvinnslur, sláturhús, kjötvinnslur, mjólkurvinnslur, eggjavinnslur, eggjapökkunarstöðvar og matvælafyrirtæki sem nota slíkar afurðir við framleiðslu á blönduðum matvælum.  Undanskilin er smásala ef smásali dreifir minna en 1/3 af dýrafurðum til annarra smásala s.s. verslana, veitingahúsa, mötuneyta eða heildsala.

Matvælastofnun birtir lista yfir starfsstöðvar á heimasíðu sinni. Einnig eru listar aðgengilegir á heimasíðu ESB

Pökkun og merking

Sá aðili sem meðhöndlar matvæli úr dýraafurðum síðast þ.e. pakkar og/eða merkir vöru skal merkja vöruna með sínu auðkennismerki sem inniheldur samþykkisnúmer starfsstöðvarinnar.  Sem dæmi má nefna fyrirtæki A sem framleiðir skinku og fær fyrirtæki B til að sneiða skinkuna niður, pakka í neytendaumbúðir og merkja. Samþykkisnúmer fyrirtækis B skal koma fram á umbúðum. Auk þess má samþykkisnúmer fyrirtækis A koma fram en þá þarf að vera skýrt hvort fyrirtækið gerir hvað. Annað dæmi gæti verið þannig að fyrirtæki A framleiðir skinku, lætur fyrirtæki B sneiða hana og pakka í umbúðir sem fyrirtæki A tekur svo við og merkir fyrir neytendamarkað.  Þá er það samþykkisnúmer fyrirtækis A sem á að koma fram á umbúðunum þar sem merking vörunnar er síðasta meðhöndlun. Fyrirtæki A og B þurfa bæði að uppfylla kröfur reglugerð um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu og hafa samþykkisnúmer.

Matvæli úr dýrafurðum s.s.kjöt í bitum, hakk, frosinn fiskur, pylsur og álegg sem er pakkað í kassa eða kör og þau send í mötuneyti eða veitingahús,  til frekari vinnslu, pökkunar eða merkingar  í annarri starfsstöð eiga vera með auðkennsimerki starfstöðvarinnar á kassanum, karinu eða í fylgiskjali sem fest er við sendinguna. Auðkennsimerki er staðfesting á þvi að matvælin hafi verið framleidd í samþykktri starfsstöð. Sá sem tekur við slíkum matvælum til frekari vinnslu / pökkunar má ekki taka við þeim nema hann geti sannreynt að framleiðslan hafa farið fram í samþykktri starfsstöð.   Þó ber að nefna að smásali B sem dreifir matvælum beint til neytenda má taka við matvælum frá öðrum smásala A svo fremi sem smásali A dreifi minna en 1/3 af þeim matvælum úr dýraríkinu sem hann framleiðir til annarra smásala.

Auðkennismerki á umbúðum kjöts í bitum eða hakkaðs kjöts sem fer til áframhaldandi pökkunar skal komið þannig fyrir að það eyðileggist þegar umbúðirnar eru opnaðar / rofnar eða umbúðirnar sjálfar eyðileggjast þegar þær eru opnaðar.   Þessar reglur eru settar fram til að koma í veg fyrir dreifingu kjöts sem hefur verið framleitt í starfsstöðvum sem ekki hafa leyfi til þess.

Uppfært 28.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?