MÓSA
Staphylococcus aureus er eðlilegur hluti bakteríuflóru á húð og í nefholi hjá stórum hluta heilbrigðra manna og dýra og veldur sjaldnast sýkingu í heilbrigðum einstaklingum. MÓSA eru afbrigði af bakteríunni sem eru ónæmir fyrir meticillín og öllum β-laktam sýklalyfjum og mögulega öðrum flokkum sýklalyfja. Því getur reynst erfitt að meðhöndla sýkingar af völdum MÓSA með hefðbundnum sýklalyfjum og hefur þetta einkum verið vandamál á heilbrigðisstofnunum þar sem mikið er af fólki með veikt ónæmiskerfi og meiri líkur á að smit berist í sár.
MÓSA var áður nær eingöngu vandamál á inni á heilbrigðisstofnunum (á ensku healthcare-associated MRSA eða HA-MRSA) en á síðustu árum hefur það breyst og hafa ný afbrigði bakteríunnar verið að koma fram, t.d. hjá hraustu fólki úti í þjóðfélaginu sem eru án tengsla við heilbrigðiskerfið. Þeir hafa verið kallaðir samfélags-mósar (á ensku community-associated MRSA eða HA-MRSA). Á síðustu 20 árum hafa verið að greinast stofnar sem tengjast búfénaði (á ensku livestock-associated MRSA eða LA-MRSA). Þeir eru orðnir útbreiddir víða um lönd og tengjast einkum svínarækt en einnig annarri búfjárrækt, svosem nautgripa- og alifuglarækt.
Hvað er búfjártengdur MÓSA?
Ákveðin stofngerð (CC398) af MÓSA, sem var fyrst lýst árið 2005, hefur breiðst út í búfé í Evrópu og víðar, einkum í svínbú. Þessi búfjártengda stofngerð er ólík öðrum MÓSA stofnum að því leyti að hún finnst helst í fólki sem umgengst búfé mjög mikið og veldur sjaldnast sjúkdómi. Fólk sem smitast af þessum stofn í gegnum beina eða óbeina snertingu við smituð dýr og bera t.d. á húð eða í nefholi, bera hann yfirleitt í skamman tíma. Stofninn smitast mjög sjaldan á milli fólks, en þá helst við náinn samgang. Fólk sem er veikt fyrir getur þó verið viðkvæmt fyrir smiti og því er mikilvægt að halda þessum MÓSA stofni frá heilbrigðisstofnunum og fólki með veikt ónæmiskerfi.
Vöktun á MÓSA í búfé og matvælum
Reglulega hefur verið skimað fyrir MÓSA hér á landi síðustu 10 ár. Fyrir skimunina sem var framkvæmd á síðustu vikum var skimað fyrir MÓSA í svínum árin 2014/2015, 2018, 2020 og 2022, en MÓSA fannst ekki við þær skimanir. Reynsla nágrannaþjóða sýnir að algengi MÓSA í öðru búfé en svínum er að aukast og hefur m.a. fundist í alifuglum, nautgripum og í mjólk. Árin 2023 og 2024 var því einnig skimað fyrir MÓSA í mjólkurtankssýnum á u.þ.b. 140 mjólkurframleiðslubúum en öll sýnin voru neikvæð. Mikilvægt er að skima reglulega fyrir MÓSA í búfé svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir til að sporna við útbreiðslu ef hann greinist, s.s. auknar smitvarnir milli býla og viðeigandi leiðbeiningar til bænda og þjónustuaðila þeirra. Jafnframt gefa heilbrigðisyfirvöld leiðbeiningar til heilbrigðisstofnana varðandi skimanir og sýkingavarnir þegar fólk í aukinni áhættu að fá MÓSA smit kemur á heilbrigðisstofnanir, eins og starfsfólk búa þar sem smit hefur greinst.
Árið 2025 var skimað í fimmta skipti fyrir MÓSA í svínum við slátrun og reyndust nokkur sýni jákvæð. Unnið er að frekari faraldsfræðilegri greiningu. Sjá nánar síðar.
Vöktun á MÓSA í svínum og í mjólk á kúabúum hafa verið styrktar af sýklalyfjaónæmis- og súnusjóði matvælaráðuneytisins til og með 2024. Skimanir 2025 er hluti af aðgerðaáætlun stjórnavalda gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Er búfjártengdur MÓSA hættulegur fólki?
Flestir sem greinast með búfjártengdan MÓSA eru einkennalausir berar. Það sama gildir um aðrar týpur af MÓSA. Heilbrigt fólk sem greinist með MÓSA er í lítilli hættu á að veikjast alvarlega. MÓSA geta þó valdið alvarlegum sýkingum við vissar aðstæður, til dæmis hjá ónæmisbældum einstaklingum eða sárasýkingar eftir skurðaðgerðir.
Þess má einnig geta að það eru ekki auknar líkur á sýkingu ef maður er beri af MÓSA frekar en öðrum Staph. aureus stofnum, það er einungis erfiðara að meðhöndla MÓSA sýkingar með þeim lyfjum sem vanalegast virka og eru notuð við Staph. aureus sýkingum.
Hvað er gert ef fólk greinist með MÓSA?
Það skal tekið fram að ekki er um hættu að ræða fyrir fólk almennt en mikilvægt er að vernda viðkvæma hópa. Ef einstaklingur án einkenna greinist með smit fyrir tilviljun (með skimun) er slíkt smit almennt ekki meðhöndlað með sýklalyfjum en viðkomandi er þá sagður bera bakteríuna og vera sýklaður. Í völdum tilvikum er reynt að uppræta sýklun en árangur er misgóður (sjá nánar fræðsluefni Landspítala).
Er hættulegt að neyta afurðir dýra sem greinast með MÓSA?
MÓSA finnst aðallega á húð eða í nösum. Þó að MÓSA geti fundist á hráu kjöti, eru engar vísbendingar um aukna smithættu eða að fólk geti orðið smitberi með því að borða eða meðhöndla mengað kjöt. Svínakjöt frá búum þar sem MÓSA hefur greinst telst jafn öruggt til neyslu og annað svínakjöt. Eldun drepur bakteríuna rétt eins og aðrar bakteríur. Ávallt skal huga að hreinlæti og hindra krossmengun við meðferð á hráu kjöti við matargerð.