Fara í efni

Aðskotaefni

Aðskotaefni eru efni sem berast í matvæli eða myndast í þeim og breyta eiginleikum, samsetningu, gæðum eða hollustu þeirra. 

Matvælastofnun er með eftirlit og sýnatökur varðandi lyfjaleifar og aðskotaefni í dýraafurðum, plönutvarnarefni í ávöxtum, grænmeti, kornvörum, aðskotaefni í fóðri, magn þörunga í sjó og þörungaeitur í kræklingi. Til viðbótar eru óreglulega eftirlitsverkefni og sýnatökur vegna ýmissa annara aðskotaefna, t.d. þungmálma, díoxín og PCB-efna, Histamín og fleira. 

Evrópureglugerð um aðskotaefni í matvælum var innleidd hérlendis með reglugerð 265/2010. Þar eru sett hámarksgildi fyrir nítrít í grænmeti, mykotoxin, þungmálma, díoxín og díoxín-lík PCB-efni, 3-MCPD og glycidyl fitusýruesterar, PAH, melamín, náttúruleg plöntueitur. Fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á þessari gerð og er einungist hægt að sjá uppfærða útgáfu á ensku á EUR-LEX

Nánar um ýmis efni og efnahópa:

Varnarefnaleifar

Varnarefni (plöntuverndarvörur) eru efni sem notuð eru við ræktun og geymslu matvæla svo sem ávaxta, grænmetis og kornvara, til að draga úr eða koma í veg fyrir skaða af völdum illgresis, sveppa og meindýra. Til varnarefna teljast plöntulyf (skordýraeitur og sveppaeitur), illgresiseyðar og stýriefni. Stýriefni eru notuð til að hafa áhrif á vöxt og viðgang ákveðinna tegunda matvæla, t.d. til að draga úr spírun kartaflna og auka þar með geymsluþol. Ákveðnar reglur gilda um notkun varnarefna á vaxtartíma, t.d. hve langur tími skal líða frá notkun þar til kemur að uppskeru. Þá gilda ákveðnar reglur um hvaða varnarefnaleifar (þ.e. leifar af varnarefnum eða umbrots-, niðurbrots- eða myndefnum þeirra) mega mælast í mismunandi matvælum og í hvaða magni. Rétt notkun varnarefna við framleiðslu og geymslu matvæla á að tryggja að litlar sem engar leifar þeirra finnist í matvælum sem tilbúin eru til neyslu. Engu að síður er mikilvægt að fylgjast með magni varnarefna í reglubundnu eftirliti þar sem ýmislegt getur farið úr skorðum á leiðinni frá haga til maga

Reglugerð um hámarksgildi varnarefnaleifa í matvælum og fóðri tók gildi í júlí 2008 og eru nú sömu hámarksgildi yfir rúmlega 1000 efnaleifar á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Breytingar á hámarksgildum eru mjög tíðar og viðauki með hámarksgildum er orðinn of stór til að birta á vefnum, (yfir 2400 bls). Handhægt er að leita í gagnagrunn ESB yfir hámarksgildi sem er að finna hér: Gagnagrunnur ESB 

Niðurstöður eftirlits með varnarefnaleifum í matvælum

Margir aðilar koma að eftirliti með varnarefnum og varnarefnaleifum:  

Umhverfisstofnun

Sér um eftirlit með innflutningi og markaðssetningu plöntuverndarvara, og þurfa allar vörur sem eru á markaði hér að hafa fengið markaðsleyfi hjá UST eða vera á lista yfir tímabundnar skráningar

Heilbrigðiseftirlit Sveitarfélaga

 Fer með eftirlit með frumframleiðslu matjurta, pökkun í neytendaumbúðir og verslunum sem selja matjurtir. Einnig eftirlit með innflutningsfyrirtækjum sem flytja inn og dreifa matjurtum, kornvörum og víni. Flest sýni eru tekin á höfuðborgarsvæðinu þar sem innflutningsfyrirtæki eru staðsett. Önnur svæði taka sýni af framleiðslu á sínu svæði.

Matvælastofnun

Hefur yfirumsjón með verkefninu, skipuleggur sýnatökur fyrir hvert ár, safnar saman niðurstöðum, tekur þær saman í skýrslu og sendir til Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) fyrir 31. ágúst ár hvert.

Matís ohf.

Tekur að sér greiningar sýna af ávöxtum, grænmeti, kornvörum, safa og víni. Greinir leifar um 200 efna sem flokkast sem leifar varnarefna og hjálparefna. 

Ítarefni um varnarefnaleifar 

Akrýlamíð 

Akrýlamíð myndast í kolvetnaríkum matvælum við hátt hitastig (yfir 120°C), samhliða brúnun. Því eru það bökuð og steikt kolvetnarík matvæli sem hafa brúnast við hitunina, s.s. kartöfluvörur (t.d franskar kartöflur og kartöfluflögur), kaffi, brauð og bakkelsi, morgunverðarkorn og aðrar kornvörur, sem innihalda mest af akrýlamíð. Efnið finnst ekki í matvælum sem eru framleidd eða elduð við suðuhitastig (100°C) eða í hráum matvælum.

Með þeirri þekkingu sem við höfum í dag virðist sem akrýlamíð sé lítill hluti þeirra hættulegu efna sem við fáum gegnum matinn, tæpt 1 %. En akrýlamíð skaðar erfðaefnið í líkamanum og þar með eykst hættan á þróun krabbameins. Því er full ástæða til að draga úr tilvist þess í matvælum.

Hámarksgildi fyrir akrýlamíð í matvælum

Í reglugerð um mildandi ráðstafanir og viðmiðunarmörkum til að draga úr tilvist akrýlamíðs í ákveðnum matvælum  eru sett mörk fyrir ýmis matvæli og í viðaukum eru aðgerðir sem fyrirtæki skulu fara í til að draga úr myndun akrýlamíðs í vinnslunni.

Glýkóalkalóíðar (Sólanín) í kartöflum

Glýkóalklóíðar

Glýkóalkalóíðar eru efni sem náttúrulega eru til staðar í plöntum af náttskuggaætt (Solanaceae) þ.m.t. kartöfum, tómötum og eggaldin. Best þekkti glýkóalkalóíðinn er líklega Sólanín. Þessi efni eru náttúruleg eiturefni sem gegna hlutverki varnarefna, þ.e. geta varið plöntuna fyrir ákveðnum sjúkdómum og aukið þannig mótstöðu hennar.  Mest er vitað um glýkóalkalóíða í kartöflum og ber helst að varast þá þar.  Í tómötum er magn efnanna mest í grænum, óþroskuðum tómötum og minnkar svo með þroska en í eggaldinum eykst magnið með þroska.

Glýkóalkaólíðar í kartöflum

Alfa-Sólanín og alfa-chaonín eru helstu glýkóalkalóíðarnir í kartöflum og eru til staðar í öllum hlutum kartöfluplöntunnar.  Magnið er mest í blómum, spírum og blöðum. Í kartöflunni sjálfri (kartöfluhnýðinu) eru efnin aðallega við og í hýði kartöflunnar.

Það er vel þekkt að mikill munur er á milli afbrigða hvað varðar styrk þessara efna, en aðstæður á vaxtartíma hafa einnig mikið að segja og því getur verið mikill munur á sama afbrigði milli ára.

Mikið hnjask og ljós stuðlar að myndun efnanna.  Magn efnanna eykst gjarnan eftir því sem líður á geymslutíma kartöflunnar og við spírun hennar. Þótt grænkun á kartöflum (myndun blaðgrænu) og aukning á innihaldi glýkóalkaólíða séu aðskildir efnaferlar eru þeir oft tengdir einkum þegar kartöflur verða grænar í sólarljósi. Þess vegna ætti alltaf að varast að neyta kartaflna sem eru orðnar grænar.

Skrælun, suða og steiking getur dregið úr magni glýkóalkaólíðanna.  Það að skræla kartöflur getur minnkað magnið frá 25-75% eftir aðferðinni sem er notuð við að skræla.

Eitrun

Neysla glýkóalkalóíða úr kartöflum yfir ákveðnu magni getur valdið eitrun. Hefðbundin einkenni eitrunar í fólki eru bæði meltingareinkenni þ.e. uppköst, niðurgangur og magaverkir.  Frekari einkenni eru dofi, sinnuleysi, uppnám, þróttleysi, sjóntruflanir og stundum meðvitundarleysi. Einnig getur hækkandi líkamshiti, hraður veikur púls, lágur blóðþrýstingur og hröð öndun fylgt eitrun. Til eru dæmi um um að fólk hafi látist af völdum glýkóalkalóíða en það hefur gerst við mjög óvenjulegar aðstæður, þ.e. kartöflurnar hafa verið ónýtar og fólk borðað verulegt magn af þeim. Venjulega koma einkennin fram 8-12 klukkustundum eftir neyslu.

Hámarksgildi

Ekki eru til samræmd löggjöf með hámarksgildum fyrir efnin á Evrópuvettvangi.  En á Íslandi eru leyfilegt hámark í hráum kartöflum með hýði, 200 mg/kg, líkt og á hinum norðurlöndunum.  Hámarksgildi er að finna í reglugerð nr. 411/2004.

Ráðleggingar

  • Framleiðendur og pökkunaraðilar eiga að flokka grænar kartöflur frá í framleiðslu.
  • Pökkunaraðilar verða að sjá til þess að kartöflurnar séu geymdar í myrkri meðan þær stoppa hjá þeim.
  • Verslanir verða að sjá til þess að sem minnst lýsing sé á kartöflum meðan þær eru í búðinni, t.d. geyma þær í dimmum kössum sem viðskipavinir taka kartöflurnar úr eða í dökkum umbúðum.
  • Neytendur ættu að geyma kartöflur á dimmum og svölum stað heima fyrir.
  • Varist að borða skemmdar, spíraðar og/eða grænar kartöflur.

Þörungaeitur í skelfiski

Aðskotaefni í fóðri

Óæskileg efni eru sérhver þau efni eða afurðir, að undanskildum sjúkdómsvöldum, sem eru í og/eða á afurðum sem ætlaðar eru í fóður og sem heilbrigði dýra eða manna eða umhverfinu stafar hugsanlega hætta af eða sem gæti haft skaðleg áhrif á búfjárframleiðslu. 

Einungis er heimilt að nota óæskileg efni, sem talin eru upp í B hluta 1. viðauka reglug. nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri, í afurðir sem ætlaðar eru í fóður í samræmi við skilyrðin sem þar er mælt fyrir um.

Óheimilt er að blanda afurðir, sem ætlaðar eru í fóður og innihalda óæskileg efni í magni sem er yfir hámarksviðmiðunargildi, sömu afurð eða öðrum afurðum, sem ætlaðar eru í fóður, í því skyni að þynna þær. 

Fóðurbætir má ekki innihalda meira af óæskilegum efnum, en tilgreint er fyrir heilfóður.

Uppfært 24.08.2020
Getum við bætt efni síðunnar?