Starfandi dýralæknar og dýralæknisleyfi
Dýralæknar á Íslandi
Matvælastofnun er lögskipaður eftirlitsaðili með störfum allra dýralækna á Íslandi. Sama gildir um tímabundin leyfi sem veitt er dýralæknanemum á lokaári námstíma síns, að því gefnu að þeir starfi undir eftirliti dýralæknis sem hefur starfsleyfi.
Útgáfa dýralæknaleyfa og úthlutun læknanúmera er í höndum Matvælastofnunar. Auk þess heldur Matvælastofnun skrá um starfandi dýralækna á Íslandi.
Sækja um íslenskt dýralæknisleyfi
Ef sækja á um íslenskt dýralæknisleyfi þarf umsækjandi að fylla út umsókn nr. 10.07 í þjónustugátt Matvælastofnunar og skila þar inn afriti af prófskírteini. Hafi umsækjandi ekki íslenska kennitölu er hægt að fylla út eyðublað sem er að finna hér á ensku útgáfu vefsíðunnar.
Matvælastofnun metur hvort dýralæknisprófið sé fullnægjandi og fengið frá skóla innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í þeim tilfellum sem dýralæknisprófið er fengið utan EES óskar Matvælastofnun eftir mati dýralæknaráðs.
Þegar staðfest hefur verið að dýralæknisprófið sé fullnægjandi þarf umsækjandi að kynna sér íslensk lög og reglugerðir sem sannreynt er með viðtali við fulltrúa Matvælastofnunar. Einnig þarf umsækjandi að fá kennslu í gangagrunninum Heilsu, sem er sjúkdóma- og lyfjaskráningarkerfi stofnunarinnar.
Gjald er tekið fyrir veitingu dýralæknisleyfis. Um gjaldtöku fyrir eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar s.s. útgáfu leyfa, vottorða, skráningar o.fl. fer skv. gjaldskrá Matvælastofnunar. Reikningar Matvælastofnunar eru rafrænir og birtir á Ísland.is. Krafa birtist jafnframt í netbanka viðkomanda.