Fara í efni

Aðskotaefni

Aðskotaefnum er hægt að skipta í fjóra flokka eftir því hvernig þau berast í matvælin

 • Efni sem berast úr umhverfinu í matvæli (Díoxín, þungmálmar, PAH efni DDT og geislavirk efni)
 • Efni sem myndast við framleiðslu matvæla (akrýlamíð, 3-MCPD og PAH)
 • Efni sem notuð eru við framleiðslu ýmissa matvæla (lyfjaleifar, plöntuvarnarefni, efni til þrifa og gerileyðinga)
 • Náttúrleg eiturefni (sólanín í kartöflum, histamín í fiski, sveppaeitur í mygluðum matvælum)

Hér fyrir neðan eru nánari upplýsingar um þau sem hafa helst verið til umræðu undanfarin misseri.

Glýfosat / Roundup

Hvað er glýfosat?

Glýfosat, (e. glyphosate) N-(phosphonomethyl)glycine, er virka efni í illgresiseyðinum Roundup sem seldur er um mestallan heim. Það er líka virka efnið í illgresiseyðum sem seldir eru undir öðrum nöfnum, eins og Ameda, Clinic og Keeper. Stórfyrirtækið Monsantó setti Roundup fyrst á markað árið 1974 og notkun þess hefur aukist á hverju ári síðan. 

Hvernig er leyfð notkun á glýfosati? 

Glýfosat má nota í atvinnuskyni til eyðingar á húsapunti, grastegundum og breiðblaða illgresi í kornrækt. Til eyðingar á húsapunti og breiðblaða illgresi, sem og til að svíða niður plöntur fyrir uppskeru í repjuræktun. Til eyðingar á illgresi og grassverði fyrir sáningu eða plöntun nytjaplantna. Til valkvæðrar eyðingar á illgresi innan um annan gróður. Til að varna endurvexti og myndun rótarskota eftir fellingu á stórum trjám. Til eyðingar á illgresi á gróðurlausum svæðum. Uppskerufrestur: Úðun á korni fyrir uppskeru má ekki eiga sér stað síðar en 10 dögum fyrir uppskeru. 

Almenningur getur einnig keypt efni sem innihalda glýfosat og notað það til varnar gegn húsapunti og öðrum fjölærum grastegundum svo og tvíkímblaða illgresi á slegnum ökrum, óræktuðum svæðum og í skógum. 

Er glýfosat notað á Íslandi? 

Umhverfisstofnun veitir markaðsleyfi og fer með eftirlit með innflutningi, dreifingu og markaðssetningu plöntuverndarvara. Í maí 2018 voru 10 vörur með tímabundið markaðsleyfi. Árið 2016 tók Matvælastofnun þrjú sýni af innlendum kornvörum til greiningar á glýfósati. Ekkert glýfósat greindist í vörunum. 

Hvers konar matvæli innihalda glýfosat? 

Illgresiseyðar eru mest notaðir fyrir útplöntun eða sáningu matjurta og korns og eru því lítið eða ekkert af leifum glýfosats almennt í matjurtum. Í kornrækt er það að aukast að glýfosati sé úðað yfir akrana fyrir uppskeru, en það flýtir fyrir að kornið verði fullþroskað og auðveldar uppskeru þar sem plönturnar drepast. Eftir úðun verður samt að bíða í 10 daga (uppskerufrestur) þar til uppskera hefst. 

Það getur verið hægt að finna örlitlar leifar glýfosats í mörgum matvælum, sérstaklega ef tekin eru mörg sýni og leitað vel. Í skýrslu EFSA um niðurstöður eftirlits með plöntuverndarvörum árið 2016 kemur fram á bls. 67 að glýfosat fannst í linsubaunum í 38% sýna, hörfræjum í 20% sýna, soja baunum í 16% sýna og tei í 10% sýna. Í kornvörum fannst glýfosat aðallega í bókhveiti og öðrum gervikornum (24% af sýnum) og þar á eftir bygg (19% sýna), millet (18%), hveiti (13%) og rúgur (4%). Glýfosat fannst ekki í neinu sýni af hrísgrjónum. 

Hvernig tengist glýfosat erfðabreyttum matvælum? 

Það eru þónokkrar gerðir af erfðabreyttum plöntum ræktaðar víða um heim sem eru kallaðar Round-up ready en þá hefur tekist með erfðabreytingunni að mynda þol hjá plöntunni gagnvart virka efninu í illgresiseyðinum, glýfosati. Þar af leiðandi þola plönturnar að vera úðaðar ítrekað yfir vaxtartímann með Roundup eða öðru efni sem inniheldur glýfosat. 

Ræktun erfðabreyttra plantna er mjög mikil takmörk sett á Íslandi og í Evrópu en er aftur á móti orðin stór hluti ræktunar í öðrum heimshlutum.

Er glýfosat hættulegt? 

Já, sérstaklega þeim sem vinna með glýfosat, við að blanda og úða því eða vinna á ökrum með erfðabreyttum jurtum sem eru úðaðir oft á vaxtartímanum. Það má búast við að einhverjar leifar séu enn til staðar þegar matvælin koma á diskinn okkar. En reglur eru skýrar um leyfða notkun og hversu mikið magn er leyfilegt í matvælum. Vel er fylgst með ræktun og matvælum á markaði í Evrópu. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) segir í áhættumati sínu 2018 að miðað við það magn sem finnst í matvælum í Evrópu stafi heilsu almennra neytenda ekki hætta af glýfosati. 

Er ekki hámark á hve mikið glýfosat megi finnast í matvælum? 

Jú, hámark fyrir varnarefnaleifar í matvælum og fóðri eru sett í reglugerð 672/2010 (sem innleiðir EB/396/2005). Þar eru hámarksgildi fyrir allar matjurtir, ávexti, ber, grænmeti, korn, baunir o.s.frv. Flest hámarksgildin eru mjög lág, eða við greiningamörk, þ.e. glýfosat má ekki finnast. En fyrir jurtir sem leyft er að nota roundup á vaxtartíma plöntunnar (t.d. korn og soya) eru hærri gildi, en samt það lág að almenningi stafi ekki hætta af. Hægt er að skoða hámarksgildi í gagnagrunni Evrópusambandsins sem er hér: http://ec.europa.eu/food/plant/pesticides/eu-pesticides-database/public/?event=pesticide.residue.selection&language=EN 

Á ég að breyta neysluvenjum mínum? 

Miðað við fyrirliggjandi gögn, bæði niðurstöður mælinga á matvælum í Evrópu og áhættumat EFSA er ekki ástæða til þess. 

Matvælastofnun vill þó leggja ríka áherslu á að fjölbreytt mataræði kemur í veg fyrir að eitt efni geti orðið í miklu magni í fæði einstaklings.

Histamín

Histamín tilheyrir hópi efna sem nefnast lífræn amín. Önnur efni í sama flokki eru til dæmis tyramin, phenylethylamin, dopamin, tryptamin, serotonin, putrescin, cadaverin, spermidin, spermin og agmatin.

Í hvaða matvælum getur histamín myndast?

Histamín getur verið náttúrulega til staðar í ýmsum matvælum og í eðlilegu magni er það ekki talið skaðlegt fyrir fólk. Þau matvæli sem líkleg eru til að innihalda histamín og önnur lífræn amín eru t.d. rauðvín, ostar, spægipylsa, ákveðnar fisktegundir og fiskafurðir.

Hvernig myndast histamín?

Histamín myndast við efnabreytingar á amínósýrunni histidíni. Ef matvæli eru geymd á rangan hátt t.d. við of hátt hitastig í langan tíma, geta bakteríur stuðlað að myndun histamíns og annarra amína. Matvæli með of mikið magn af histamíni geta valdið matareitunum. Mikil histamínmyndun getur átt sér stað í vissum fiskafurðum og valdið svonefndri skombroíðeitrun.

Eitrun

Eituráhrif getur valdið ofnæmisviðbrögðum hjá fólki allt frá óþægindum á húð upp í ógleði, uppköst og niðurgang.

Einkenni eitrunar getur verið roði í andliti, háls og bringu, höfuðverkur, ógleði, uppköst, magaverkir, bólgnar varir og kláði. Í sumum tilfellum getur verið um að ræða kláða, svima og í verri tilfellum, taugaáfall/lost, sársauki í lungum og truflanir á andardrætti.

Ráðleggingar

Setjum kælivörur strax í ísskáp eftir innkaupaferðir.

 • Geymum kælivörur við 0-4°C.
 • Kælum matarafganga strax að máltíð lokinni.
 • Viðkvæmra matvæla ætti ekki að neyta eftir síðasta söludag.
 • Þíðum frosinn mat í ísskáp eða á köldum stað.
 • Höfum matinn í ílátum við geymslu til að tryggja að ekkert leki yfir í önnur matvæli.
 • Höfum hreinlæti í fyrirrúmi. 

Glýkóalkalóíðar (Sólanín) í kartöflum

Glýkóalklóíðar

Glýkóalkalóíðar eru efni sem náttúrulega eru til staðar í plöntum af náttskuggaætt (Solanaceae) þ.m.t. kartöfum, tómötum og eggaldin. Best þekkti glýkóalkalóíðinn er líklega Sólanín. Þessi efni eru náttúruleg eiturefni sem gegna hlutverki varnarefna, þ.e. geta varið plöntuna fyrir ákveðnum sjúkdómum og aukið þannig mótstöðu hennar.  Mest er vitað um glýkóalkalóíða í kartöflum og ber helst að varast þá þar.  Í tómötum er magn efnanna mest í grænum, óþroskuðum tómötum og minnkar svo með þroska en í eggaldinum eykst magnið með þroska.

Glýkóalkaólíðar í kartöflum

Alfa-Sólanín og alfa-chaonín eru helstu glýkóalkalóíðarnir í kartöflum og eru til staðar í öllum hlutum kartöfluplöntunnar.  Magnið er mest í blómum, spírum og blöðum. Í kartöflunni sjálfri (kartöfluhnýðinu) eru efnin aðallega við og í hýði kartöflunnar.

Það er vel þekkt að mikill munur er á milli afbrigða hvað varðar styrk þessara efna, en aðstæður á vaxtartíma hafa einnig mikið að segja og því getur verið mikill munur á sama afbrigði milli ára.

Mikið hnjask og ljós stuðlar að myndun efnanna.  Magn efnanna eykst gjarnan eftir því sem líður á geymslutíma kartöflunnar og við spírun hennar. Þótt grænkun á kartöflum (myndun blaðgrænu) og aukning á innihaldi glýkóalkaólíða séu aðskildir efnaferlar eru þeir oft tengdir einkum þegar kartöflur verða grænar í sólarljósi. Þess vegna ætti alltaf að varast að neyta kartaflna sem eru orðnar grænar.

Skrælun, suða og steiking getur dregið úr magni glýkóalkaólíðanna.  Það að skræla kartöflur getur minnkað magnið frá 25-75% eftir aðferðinni sem er notuð við að skræla.

Eitrun

Neysla glýkóalkalóíða úr kartöflum yfir ákveðnu magni getur valdið eitrun. Hefðbundin einkenni eitrunar í fólki eru bæði meltingareinkenni þ.e. uppköst, niðurgangur og magaverkir.  Frekari einkenni eru dofi, sinnuleysi, uppnám, þróttleysi, sjóntruflanir og stundum meðvitundarleysi. Einnig getur hækkandi líkamshiti, hraður veikur púls, lágur blóðþrýstingur og hröð öndun fylgt eitrun. Til eru dæmi um um að fólk hafi látist af völdum glýkóalkalóíða en það hefur gerst við mjög óvenjulegar aðstæður, þ.e. kartöflurnar hafa verið ónýtar og fólk borðað verulegt magn af þeim. Venjulega koma einkennin fram 8-12 klukkustundum eftir neyslu.

Hámarksgildi

Ekki eru til samræmd löggjöf með hámarksgildum fyrir efnin á Evrópuvettvangi.  En á Íslandi eru leyfilegt hámark í hráum kartöflum með hýði, 200 mg/kg, líkt og á hinum norðurlöndunum.

Ráðleggingar

 • Framleiðendur og pökkunaraðilar eiga að flokka grænar kartöflur frá í framleiðslu.
 • Pökkunaraðilar verða að sjá til þess að kartöflurnar séu geymdar í myrkri meðan þær stoppa hjá þeim.
 • Verslanir verða að sjá til þess að sem minnst lýsing sé á kartöflum meðan þær eru í búðinni, t.d. geyma þær í dimmum kössum sem viðskipavinir taka kartöflurnar úr eða í dökkum umbúðum.
 • Neytendur ættu að geyma kartöflur á dimmum og svölum stað heima fyrir.
 • Varist að borða skemmdar, spíraðar og/eða grænar kartöflur.

PCB efni og Díoxín-lík PCB efni

PCB er skammstöfun fyrir polychlorinated biphenyl. Um er að ræða efnaflokk um 209 efna sem eru lífræn hringsambönd tengd klór í mismunandi magni og á mismunandi vegu. Efnið var notað í stórum stíl í iðnaði t.d. í spennaolíu, sem mýkingarefni í plast og í glussa ýmis konar. Efnið hefur síðan borist út í lífríkið með frárennsli frá verksmiðjum, vegna leka úr spennum og frá sorphaugum svo nokkuð sé nefnt. Áætlað er að um 550 þúsund tonn hafi verið framleidd í Bandaríkjunum frá lokum þriðja áratugarins þar til framleiðslu var hætt um 1978. Fyrstu merki um alvarlega eitrun vegna PCB efna komu fram í Japan árið 1968.

Hvernig berst PCB í matvæli og hvaða matvæli innihalda PCB?

PCB telst til svokallaðra þrávirkra efna, en þau brotna mjög hægt niður í náttúrunni og safnast því upp í fæðukeðjunni. Efnið er fituleysanlegt og safnast í fitu land- og sjávardýra. PCB finnst einnig í sjávarseti og í menguðum jarðvegi. Magn efnanna eykst eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni og eftir aldri dýranna.

PCB er aðallega að finna í dýraafurðum ýmiskonar, s.s. kjöti, eggjum, mjólk og eldisfiski. Efnið hefur þá venjulega borist með fóðri vegna mengunar jarðvegs frá t.d. sorphaugum. PCB finnst einnig í ýmsum feitum fiskafurðum en mesta magnið er að finna í sjávarspendýrum og stórum ránfiskum s.s. túnfiski og sverðfiski.

Hversu hættulegt er PCB?

PCB efnum er skipt í tvo flokka eftir gerð. Annars vegar eru efni sem líkjast díoxíni og hins vegar önnur PCB efni. Þau fyrrnefndu eru 12 talsins og eru venjulega flokkuð með díoxíni. Hin hafa ekki eituráhrif í líkingu við díoxín en hafa áhrif engu að síður. Díoxínlík PCB hafa ýmis konar eituráhrif og áhrif á efnaskipti líkamans. Sum eru þekktir krabbameinsvaldar en auk þess eru þekkt áhrif á móðurlíf, áhrif á þroska, áhrif á æxlunarfæri (skert sæðismyndun og vansköpun) og mótstöðuafl gegn sjúkdómum.

Eituráhrif efnanna er mismikil en til þess að hægt sé að bera saman eiturvikni þeirra hefur verið skilgreindur alþjóðlegur jafngildisstuðull (Toxic Equivalent Factor, I-TEF) sem er hlutfall af eitrunaráhrifum þeirrar afleiðu díoxíns sem er eitruðust og nefnist 2,3,7,8-TCDD, en stuðull hennar er 1. Styrkur hverrar afleiðu margfaldaður með jafngildisstuðli hennar gefur eitrunarjafngildi, Toxic Equivalent, eða TEQ. Heildar eitrunaráhrif er síðan summa TEQ gildanna. Samkvæmt áhættumati vísindanefndar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um matvæli hefur verið ákveðið að ásættanleg dagleg neysla (Tolerable daily intake, TDI) díoxína og díoxínlíkra PCB efna sé 2 picogrömm á kg líkamsþunga. 

Er magnið í náttúrunni að aukast eða minnka? 

Niðurstöður rannsókna á umhverfismengun bendir til að magn PCB fari minnkandi í náttúrunni og að sama skapi hefur magnið í fæðu minnkað. 

Á ég að breyta neysluvenjum mínum?

Flest bendir til þess að magn PCB í umhverfinu fari minnkandi. Talið er að helst sé hætta á ferðum hjá neytendum sem borða mikið af fiski frá menguðum hafsvæðum eins og t.d. Eystrasalti. 

Hámarksgildi fyrir PCB efni í matvælum.

Hámarksgildi eru sett í reglugerð EB/2006/1881 með síðari breytingum.  

Akrýlamíð

Efnið akrýlamíð myndast samhliða brúnun þegar kolvetnarík matvæli eru steikt, bökuð eða ristuð við hita yfir 120°C. Helsta uppspretta akrýlamíðs í matvælum er úr kartöfluvörum s.s. frönskum kartöflum og kartöfluflögum og kaffi en einnig úr kornvörum og öðrum bökuðum, ristuðum eða steiktum sterkjuríkum matvælum.

Akrýlamíð er talið krabbameinsvaldandi og því er rétt að reyna að halda magni þess í matvælum í lágmarki.

Árið 2019 voru sett viðmiðunarmörk fyrir akrýlamíð, með reglugerð og leiðir sem fyrirtæki skulu fylgja til að draga úr myndun þess í matvælum sem þau framleiða. 

Neytendur geta líka gert sitt til að lágmarka magn efnisins í matvælum sem þeir neyta með því að:

 • Forðast að borða mikið ristað brauð og mikið brúnaðar kartöflur, brauð og bakkelsi.
 • Geyma kartöflur ekki í kæliskáp.  Geymsla á kartöflum við hitastig undir 6°C veldur því að meira myndast að sykri í þeim og því meira akrýlamíð eftir hitun.
 • Leggja skrældar kartöflur í vatn í 20 mínútur áður en þær eru bakaðar eða steiktar.  Þannig skolast hluti sterkjunnar út.
 • Snöggsjóða kartöflur áður en þær eru steiktar eða bakaðar.
 • Skera þykkari sneiðar af kartöflum sem eru steiktar. Þannig er yfirborðið hlutfallslega minna.

Klórpýrifos

Hvað er klórpýrifos?

Klórpýrifos (e.chlorpyrifos) er skordýraeitur sem notað er í plöntuverndarvörur. Klórpýrifos er notað gegn skordýrum í ýmsum aðstæðum, meðal annars við mismunandi ræktun matjurta til að vernda uppskeruna fyrir skordýrum. Notkun klórpýrifos hefur ekki verið leyfð á Íslandi.
Getur verið að klórpýrifos sé í mat sem seldur er á Íslandi? 
Já, vegna þess að skordýraeitur er leyft til notkunar í öðrum löndum, bæði sumum löndum ESB og í löndum utan ESB. Með matnum getum við því fengið klórpýrifos í litlu magni. Þar sem viðmiðunarmörk ESB voru hert fyrir margar vörur, árið 2016, er aðallega hægt að finna leifar í sítrusávöxtum og banönum.

Er það magn sem ég fæ í gegnum ávexti og grænmeti hættulegt?

Það magn sem við höfum séð í ávöxtum og grænmeti í sýnatökum Matvælastofnunar undanfarin ár er lang oftast mjög lítið og vel undir því hámarki sem sett er í reglugerð. Byggt á fyrirliggjandi rannsóknum á áhrifum klórpýrifos á mannfólk bendir ekkert til þess að það magn sem neytendur á Íslandi fá með fæðunni hafi í sjálfu sér áhrif á heilsuna.
Er hægt að finna leifar af klórpýrifos í öllum ávextinum?
Já, en mjög lítið. Ef efnið hefur verið notað, er það í öllum ávextinum, en stærstur hluti efnisins er í hýðinu.

Er það rétt að nýjar rannsóknir sýni að klorpýrifos sé hættulegt jafnvel í litlu magni?

Vísindanefnd hjá Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur nýlega lagt fram nýtt mat á klórpýrifos til framkvæmdastjórnar ESB. Þar sem óvissuþættir voru í gögnunum var niðurstaða ESFSA sú að ekki sé hægt að setja örugg mörk fyrir hvenær efnið getur haft áhrif á viðkvæma hópa. 
Í stuttu máli telur EFSA að efnið uppfylli ekki kröfurnar sem þarf að setja varðandi heilsu manna og þeirra sem kunna að verða fyrir áhrifum (notendur, íbúar, vegfarendur og neytendur). Því ætti ekki að nota það lengur við ræktun matjurta. Það lítur út fyrir að efnið muni ekki fá áframhaldandi leyfi til notkunar í Evrópu, en leyfið rennur út í janúar 2020.

Hvað gerist núna varðandi notkun á klórpýrifos

Ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB í byrjun desember 2019 þýðir að ekki má nota plöntuvarnarefni sem innihalda klórpýrifos í ESB eftir vorið 2020. Eftir það verður leyfilegt hámarksmagn í öllum matvælum á EES svæðinu líklega lækkað niður í greiningamörk eins fljótt og hægt er. Það þýðir að eftir sumarið 2020 er ekki hægt að nota klórpýrifos í löndum utan ESB, ef þeir vilja flytja mat til EES. Og í kjölfarið að við neytendur verðum ekki lengur fyrir áhrifum klórpýrifos.

Hvernig er eftirlit með plöntuverndarvörum eða varnarefnaleifum á Íslandi?

Matvælastofnun gerir árlega sýnatökuáætlun sem nær yfir alla flokka ferskra ávaxta, grænmetis og korns og hafa þær verið gerðar samfleytt frá árin 1991. Um 200 sýni eru tekin hjá innflytjendum, í verslunum eða hjá bændum um allt land og eru það Heilbrigðisnefndir sem sjá um sýnatökurnar. Svo tekur rannsóknastofa Matís ohf. við sýnunum og skimar fyrir leifum af varnarefnum. Ef leifar finnast yfir hámarksgildi í reglugerðum ESB sem gilda hér á landi eða óleyfileg efni finnast, er dreifing þeirra stöðvuð og birgðum fargað eftir að niðurstöður hafa verið staðfestar.

Hægt er að sjá í skýrslum EFSA sem tekur saman niðurstöður frá öllum löndum EES (líka Ísland og Noregs) að magn klórpýrifos og annar avarnarefna sem tilheyra sama efnaflokki og geta haft svipuð áhrif hefur lækkað jafnt og þétt á síðustu 10-15 árum. Þar með hefur magnið sem við fáum frá mat einnig minnkað. Viðmiðunarmörk fyrir klórpýrifos voru hert fyrir margar gerðir ræktunar árið 2016. Það varð því útilokað að nota klórpýrifos við flesta ræktun nema sítrusávexti, banana og einstaka aðrar vörur.

Hvernig veikist þú af klórpýsifos?

Klórpýrifos hefur áhrif á taugakerfið og í stórum skömmtum getur það valdið bráðum áhrifum eins og ógleði, kviðverkjum og höfuðverkjum. Ef leifar af klórpýrifos eru lægri en núverandi viðmiðunarmörk í matnum geturðu ekki fengið svo stóra skammta. 
Nýju rannsóknirnar sem nú hafa verið metnar benda til þess að klórpýrifos í lægri skömmtum geti haft áhrif á þroska heila meðal barna sem verða útsett fyrir efninu í móðurkviði. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt fram á slík áhrif hjá börnum mæðra sem höfðu mikið magn af klórpýrifos í blópi. Slík áhrif sáust ekki hjá börnum mæðra með lítið magn efnisins í blóði.

Hvað get ég gert til að fá minna af klórpýrifos í mig með matnum?

Klórpýrifos er að mestu leyti utaná ávöxtum, í óætu hýðinu á sítrusávöxtum, appelsínum og mandarínum og líka banönum. Því er góð regla að skola ávexti vel fyrir neyslu, jafnvel þó hýðið verði ekki borðað. Sama á við um allt grænmeti og salat.

Ef þú vilt vera alveg viss um að þú fáir ekkert klórpýrifos í þig með matnum er eitt ráð að kaupa innlent grænmeti, því þetta efni er ekki með markaðsleyfi á Íslandi og því ekki notað hér. Nokkur Evrópulönd hafa heldur ekki leyft efnið, eins og Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Þýskaland. Svo má ekki nota skordýraeitur í lífrænni ræktun og það gildir í öllum löndum. Því er hægt að velja það sem merkt er lífrænt vottað.

Plöntuvarnarefni

Varnarefni (plöntuverndarvörur) eru efni sem notuð eru við ræktun og geymslu matvæla svo sem ávaxta, grænmetis og kornvara, til að draga úr eða koma í veg fyrir skaða af völdum illgresis, sveppa og meindýra. Til varnarefna teljast plöntulyf (skordýra- og sveppaeitur), illgresiseyðar og stýriefni. Stýriefni notuð til að hafa áhrif á vöxt og viðgang ákveðinna tegunda matvæla, t.d. til að draga úr spírun kartaflna og auka þar með geymsluþol. Ákveðnar reglur gilda um notkun varnarefna á vaxtartíma, t.d. hve langur tími skal líða frá notkun þar til kemur að uppskeru. Þá gilda ákveðnar reglur um hvaða varnarefnaleifar (þ.e. leifar af varnarefnum eða umbrots-, niðurbrots- eða myndefnum þeirra) mega mælast í mismunandi matvælum og í hvaða magni. Rétt notkun varnarefna við framleiðslu og geymslu matvæla á að tryggja að litlar sem engar leifar þeirra finnist í matvælum sem tilbúin eru til neyslu. Engu að síður er mikilvægt að fylgjast með magni varnarefna í reglubundnu eftirliti þar sem ýmislegt getur farið úr skorðum á leiðinni frá haga til maga.

Eftirlit með innflutningi og markaðssetningu plöntuverndarvara er hjá Umhverfissotfnun og þurfa allar vörur sem eru á markaði hér að hafa fengið markaðsleyfi hjá UST eða vera á lista yfir tímabundnar skráningar

Eftirlit með frumframleiðslu matjurta, pökkun í neytendaumbúðir og verslunum sem selja matjurtir er hjá Heilbrigðisnefndum. Einnig eftirlit með innflutningsfyrirtækjum sem flytja inn og dreifa matjurtum, kornvörum og víni. Flest sýni eru tekin á höfuðborgarsvæðinu þar sem innflutningsfyrirtæki eru staðsett. Aðrar heilbrigðisnefndir taka sýni af framleiðslu á sínu svæði. 

Yfirumsjón með verkefninu er hjá Matvælastofnun sem skipuleggur sýnatökur fyrir hvert ár, safnar saman niðurstöðum, tekur þær saman í skýrslu og sendir til Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) fyrir 31. ágúst ár hvert.

Arsen

Hér er að finna ráðleggingar til neytenda og heilbrigðisstarfsfólks í kjölfar niðurstaðna sænskrar rannsóknar á þungmálmum og steinefnum í barnamat sem Embætti landlæknis og Matvælastofnun senda frá sér. 

Í byrjun árs 2013 birti Matvælastofnun frétt með niðurstöðum sænskrar rannsóknar á þungmálmum (blýi, arseni og kadmíni) og steinefnum (járni, kopar, mangani) í barnamat. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að arsen finnst aðallega í hrísgrjónum og vörum framleiddum úr þeim, t.d. hrísgrjónagrautum og -drykkjum. Arseninnihald er óháð því hvort hrísgrjónin eru úr lífrænni ræktun eða ekki. Jafnframt kom í ljós í rannsókninni að í hluta sýnanna fundust einnig aðrir þungmálmar og í vörum fyrir börn með sérstakar næringarþarfir (þ.e. matvæli til nota í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi) var hluti sýnanna með of mikið magn af mangani. Á grundvelli niðurstaðnanna ráðleggur sænska matvælastofnunin að börnum yngri en 6 ára séu ekki gefnir hrísgrjónadrykkir vegna arsenmagns í þessum drykkjum. Áfram er lögð áhersla á fjölbreytt mataræði ung- og smábarna og einnig bent á mikilvægi þess að foreldrar breyti reglulega til í vali á korngrautum.

Markmið ráðlegginganna er að vernda börn yngri en 6 ára fyrir skaðlegum áhrifum arsens og annarra þungmálma enda eru ung- eða smábörn viðkvæmur hópur vegna þess hve létt þau eru (ávallt er miðað við grömm þungmálma á kg líkamsþyngdar). Sænska áhættumatið miðast við börn sem drekka hrísgrjónadrykk í stað kúamjólkur daglega. Þannig fá börn sem vega minna en 20 kg (u.þ.b. 5–6 ára) og drekka daglega um 500 ml af hrísgrjónadrykk það mikið magn arsens að það getur haft neikvæð áhrif á heilsu þeirra. Sérstaklega þykir mikilvægt að benda á þessa hættu þar sem hrísgrjónadrykkja getur verið neytt í stað mjólkur alla barnæskuna, t.d. hjá börnum sem eru með mjólkurofnæmi.

Allar hrísgrjónavörur sem skoðaðar voru í sænsku rannsókninni innihéldu arsen, þó í mismiklu magni. Aðrar rannsóknir hafa sýnt svipaðar niðurstöður, en það ber að nefna að í sænsku rannsókninni voru skoðaðar hrísgrjónavörur jafnt frá evrópskum framleiðendum og frá öðrum heimshlutum.

Matvælastofnun og Embætti landlæknis töldu mikilvægt að kanna málið frekar til að skoða hvort hægt væri að taka sænsku ráðleggingarnar einnig upp á Ísland. Í kjölfarið var fulltrúum frá Næringarstofu Landspítala, Embætti landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands boðið til umræðu um ráðleggingar til íslenskra neytenda. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að ráðleggingar sænsku matvælastofnunarinnar eigi einnig við hér á landi og eru því eftirfarandi ráðleggingar gefnar til foreldra ungra barna.

Ráðleggingar til neytenda:

 • Foreldrum er ráðlagt að tryggja fjölbreytni í vali á ungbarnagrautum með því að velja grauta úr mismunandi korntegundum og breyta til á milli vörumerkja. Ekki er þörf á að útiloka grauta úr hrísmjöli en einnig ætti að velja grauta úr t.d. maís, hirsi eða bókhveiti sem fyrsta graut. Eftir sex mánaða aldur má byrja að gefa grauta úr höfrum, byggi, hveiti eða rúgi.
 • Foreldrum er ráðlagt að gefa ekki börnum undir sex ára aldri drykki úr hrísgrjónum, t.d. hrísgrjónadrykk (e. rice drink) vegna arseninnihalds þeirra.
 • Foreldrum er ráðlagt að gefa þeim börnum undir 6 ára sem fá drykki úr jurtaríkinu ekki alltaf sams konar drykk heldur breyta á milli tegunda og vörumerkja. Hér er átt við drykki úr höfrum, byggi, soja og fleiru. Rétt er að benda á að slíkir drykkir henta ekki börnum undir tveggja ára aldri, heldur á frekar að gefa þeim sérstakar ungbarnablöndur.

Sérstaklega ber að nefna að ef grunur leikur á að ung- eða smábarn sé með mjólkurofnæmi er foreldrum bent á að hafa samband við ung- og smábarnavernd sem vísa ætti þeim til næringarráðgjafa á sviði fæðuofnæmis áður en farið er að taka út matvæli. Börn á þessum aldri eru viðkvæmur hópur og eru mjólkurvörur mikilvæg uppspretta orku- og annarra næringarefna. Því er mikilvægt að fara yfir með næringarráðgjafa hvað kemur í staðinn ef mjólkurvörur eru teknar út.

Vörur fyrir börn með sérstakar næringarþarfir

 Starfsfólki sjúkrastofnana, sem annast börn með sérstakar næringarþarfir, vegna t.d. ofnæmis, vannæringar eða fenylketonuriu (PKU), er bent á að velja vörur með lágu manganinnihaldi þar sem sum sýnin mældust með of háu slíku gildi. Einnig er foreldrum barna sem nærast á slíkum vörum bent á að snúa sér til næringarráðgjafa eða læknis til að fá nánari upplýsingar og ráð.

Ítarefni

Díoxín

Hvað eru díoxín?

Díoxín, fúran og díoxínlík PCB efni (PolyChlorinated Biphenyls) eru þrjú af tólf þrávirkum lífrænum mengunarefnum sem eru sérstakt áhyggjuefni vegna áhrifa þeirra á umhverfið og heilsu almennings. Efnin geta borist í matvæli úr umhverfinu. Þau hafa ekki áhrif á heilsu okkar samstundis, en geta valdið vandamálum ef þau berast í líkamann í talsverðu magni yfir langt tímabil. Þrávirk lífræn efni er samheiti yfir hóp efnasambanda sem eru mjög stöðug bæði í náttúrunni og í lífverum ef þau berast í þær. Þau eru fituleysanleg með langan helmingunartíma sem þýðir að þau brotna hægt niður í náttúrunni og safnast þar af leiðandi upp í fituvefjum manna og dýra.

Díoxín og fúran eru oft nefnd í sömu andrá sem díoxín þar sem bygging þeirra og efnaeiginleikar eru svo lík. Ákveðin PCB efni hafa svipaða eiturvirkni og díoxín og eru kölluð díoxínlík PCB. Af 419 díoxín skyldum efnum sem hafa fundist eru bara 30 talin hafa verulega eiturvirkni. Af þeim er díoxín (2,3,7,8-tetrachlorodibenzo-para-dioxin eða 2,3,7,8-TCDD) það eitraðasta.

Hvaðan koma efnin?

Díoxín og furan hafa aldrei verið framleidd viljandi. Þau myndast sem aukaafurð við málmiðnað, ýmsan iðnað sem notar klór, bleikingu í pappírsiðnaði, framleiðslu varnarefna og brennslu, m.a. sorpbrennslu. Efnin verða einnig til í náttúrunni, t.d. við eldgos og skógarelda. Nú orðið er vandlega fylgst með að losun frá iðnaði uppfylli reglugerðir um mengunarvarnir til að koma í veg fyrir að efnin berist út í umhverfið.

PCB efni (Polychlorinated biphenyls) er stór hópur efna sem hafa verið notuð síðan á 4.áratugnum, aðallega í rafmagnsiðnaði. Framleiðsla og notkun á PCB efnum lagðist af á 8.áratugnum en efnin geta þó enn verið til staðar í gömlum rafmagnleiðslum og tækjum.

Hvernig dreifast efnin?

Díoxín og PCB efni dreifast með lofti, vatni og jarðvegi og finnast því um allan heim. Dýr og fiskar taka þau svo upp með fæðu sinni og jarðvegi og seti. Efnin eru vatnsfælin og setjast í líkamsfitu dýra þar sem þau safnast fyrir. Helmingunartími díoxína í líkamanum er talinn vera frá 7 til 11 ár. Díoxín safnast fyrir í fæðukeðjunni og því er meira af díoxínum ofar í fæðukeðjunni.

Mataræði einstaklinga er mjög breytilegt og einnig hve mikið magn af þessum efnum þeir fá í sig. Mest fær fólk úr matvælum sem innihalda mikið af dýrafitu eins og mjólk, kjöt, fisk og egg (og matvæli unnin úr þeim). Þó eru þessi efni í snefilmagni í öllum matvælum.

Hversu hættuleg eru díoxín?

Samkvæmt áhættumati vísindanefndar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um matvæli er ásættanleg dagleg neysla (Tolerable daily intake, TDI) díoxína og díoxínlíkra PCB efna sé 2 picogrömm á hvert kg líkamsþunga.
Mesta áhættan stafar af því að borða mat með miklu innihaldi díoxína yfir langt tímabil. Staðfest hefur verið að þau valdi ýmsum kvillum í dýrum, þar á meðal krabbamein og skaða á ónæmiskerfi og æxlunarfærum. Þó virðast menn ekki vera jafn viðkvæmir og tilraunadýr.

Hvernig eru eituráhrif efnanna metin ?

Eituráhrif efnanna er mismikil en til þess að hægt sé að bera saman eiturvirkni þeirra hefur verið skilgreindur alþjóðlegur jafngildisstuðull (Toxic Equivalent Factor, I-TEF) sem er hlutfall af eitrunaráhrifum þeirrar afleiðu díoxíns sem er eitruðust og nefnist 2,3,7,8-TCDD, en stuðull hennar er 1. Styrkur hverrar afleiðu margfaldaður með jafngildisstuðli hennar gefur eitrunarjafngildi, Toxic Equivalent, eða TEQ. Heildar eitrunaráhrif er síðan summa TEQ gildanna.

Hvernig er best að forðast díoxín og díoxínlík PCB efni?

Díoxín og díoxínlík PCB efni finnast í öllum matvælum í mismiklu magni, líka þeim matvælum sem eru rík af mikilvægum næringarefnum. Það er nær ómögulegt að fjarlægja þessi efni úr matnum þegar þau eru komin inn í fæðukeðjuna. Almennt er viðurkennt að besta leiðin til að minnka díoxín og PCB í fæðu sé að koma í veg fyrir losun þeirra út í umhverfið.

Niðurstöður vöktunar á lífríki sjávar sýna að ætilegur hluti matfisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur almennt lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni og díoxínlíkum PCB efnum samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Talið er að helst sé hætta á ferðum hjá þeim sem borða mikinn fisk af menguðum hafsvæðum eins og t.d. Eystrasaltinu.

WHO ráðleggur neytendum að skera fitu af kjöti og neyta frekar fituminni mjólkurvara til að minnka díoxín í fæði. Fjölbreytt fæði sem inniheldur ávexti, grænmeti og kornvörur í hæfilegu magni minnkar hættuna af mengun frá einum uppruna ef upp koma mengunartilfelli eins og í írsku svínakjöti haustið 2008. Þessi ráð hafa helst áhrif til langs tíma litið og á helst við um stúlkur og konur á barneignaaldri til að minnka skaðleg áhrif díoxíns á fóstur og ungbörn á brjósti sem þær eiga hugsanlega eftir að eignast. Barnshafandi konum og konum með barn á brjósti er einnig bent á að borða ekki sjávarspendýr (sel, hval) og stóra ránfiska (túnfisk, sverðfisk).

Hvað gerir Matvælastofnun?

Matvælastofnun hefur eftirlit með aðskotaefnum í búfjárafurðum og reglulega eru sýni tekin af mjólk, eldisfiski og sláturafurðum þar sem m.a. er skimað fyrir bendi-PCB efnum. Einnig er skimað fyrir aðskotaefnum í fóðri bæði innfluttu og innlendu. Niðurstöður þessa eftirlits er að finna á heimasíðu MAST.

Uppfært 24.08.2020
Getum við bætt efni síðunnar?