Rannsókn á þungmálmum og steinefnum í barnamat
Sænska matvælastofnunin (Livsmedelsverket) birti þann 23. janúar síðastliðinn niðurstöður eigin rannsóknar þar sem hún lét mæla þungmálma (arsen, blý og kadmíum) og nokkur steinefni (járn, kopar og mangan) í matvælum sem sérstaklega eru ætluð börnum. Stofnunin rannsakaði 92 ólík matvæli, svo sem ungbarna- og stoðblöndur, korngrauta og aðrar kornvörur ætlaðar ungbörnum og smábörnum, sérfæði og ýmis almenn matvæli sem má ætla að ungbörn og smábörn neyti, t.d. soja-, hrís- og hafradrykki sem af sumum er neytt í stað kúamjólkur. Þrátt fyrir að magnið af þessum þungmálmum fari ekki yfir hámarksgildi í reglugerð um aðskotaefni álítur sænska matvælastofnunin að magn þungmálma og steinefna sé svo mikið að það geti leitt til neikvæðra áhrifa á heilsu barna. Því þarf að mati stofnunarinnar að vinna markvist að því að lækka það.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að arsen er meðal þeirra efna sem veldur hvað mestum áhyggjum. Arsen finnst aðallega í miklu magni í hrísgrjónum og vörum framleiddum úr þeim. Á grundvelli niðurstaðnanna ráðleggur sænska matvælastofnunin til að mynda að gefa börnum yngri en 6 ára ekki hrísgrjónadrykki vegna mikils magns arsens í þessum drykkjum. Svipaðar ráðleggingar hafa áður verið gefnar út í öðrum löndum eins og t.d. í Bretlandi er ráðið frá því að gefa börnum yngri en 4 til 5 ára hrísgrjónadrykki og í Danmörku er miðað við börn yngri en þriggja ára.
Matvælastofnun hefur tekið niðurstöður rannsóknarinnar til athugunar og er meðvituð um áhættuna sem rannsakendur benda á. Matvælastofnun telur því mikilvægt að kanna málið frekar og verður því skoðað hvort og í hvaða mæli hægt sé að yfirfæra niðurstöðurnar og ráðleggingar rannsakenda yfir á ástand þessara mála á Íslandi. Rétt er þó að vekja nú þegar athygli á því að leggja ber ríka áherslu á fjölbreytt mataræði ung- og smábarna, t.d. með því að breyta reglulega til í vali á korngrautum. Þannig má forðast þungmálma og önnur óæskileg efni í matvælum.
Matvælastofnun telur að rannsóknin geti gefið mikilvægar upplýsingar varðandi þungmálma í barnamat almennt. Niðurstöðurnar sýna að þörf er á endurskoðun löggjafar bæði varðandi þungmálma og steinefni. Óháð þessu er samt sem áður nauðsynlegt að matvælaframleiðendur leggi sitt af mörkum til að lækka magn óæskilegra efna í matvælum.