Fara í efni

Veiruskita í nautgripum

Veiruskita er bráðsmitandi sjúkdómur í nautgripum. Honum svipar mjög til sjúkdóms sem kallast „winter dysentery“ og finnst um allan heim. Orsök sjúkdómsins hérlendis var lengi talin óþekkt, en fyrir lá þó ein PCR greining sem benti til kórónaveiru. Það var síðan staðfest með PCR og raðgreiningu sumarið 2022 á Tilraunastöðinni á Keldum og reyndist vera nautgripakórónaveira BovCoV. Mótefnamælingar hafa sýnt að sýking er mjög algeng í mjólkurkúahjörðum hérlendis og blossar veikin upp á mismunandi svæðum á landinu nokkuð reglulega. Sjúkdómurinn smitast með saur og slími frá nösum. Smit berst mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum, s.s. múlum, fatnaði, tækjum, bifreiðum o.s.frv. Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða.

Kórónaveirur eru þekktir smitvaldar í fjölda dýrategunda. Í dag eru skilgreindar 46 veirur í Kórónaveirufjölskyldunni, en þeim er svo skipt í 2 undirfjölskyldur og hvorri undirfjölskyldu í ættkvíslir og undirættkvíslir. Bovine coronavirus, BovCoV, eða nautgripakórónaveira tilheyrir Betacononavírus ættkvíslinni eins og Sars kórónaveirurnar. BovCoV er þekktur smitvaldur í kálfaskitu, lungnabólgu, veiruskitu í fullorðnum kúm og flutningsveiki aðallega í 6-10 mánaða gripum. Öndunarfærasýkingar eru nánast óþekktar í kálfum hérlendis en veiruskita í mjólkurkúm er landlæg og blossar sýkingin upp á mismunandi svæðum á landinu nokkuð reglulega.

Sjúkdómseinkenni

  • Gripir sýna einkenni í 3-5 daga eftir tilraunasmit.
  • Hiti 39,5-40,5 °C, deyfð, þurr hósti og sprautandi græn/svört illa lyktandi skita sem oft er freyðandi. 5-10% gripanna hafa blóð í saur.
  • Fall í nyt.
  • Skitan varir 2-4 vikur í hjörðinni.

Sjúkdómurinn er algengur í eins og tveggja kálfs kvígum en einnig í eldri kúm. Gengur oftast að vetrarlagi erlendis en oftast að sumarlagi hérlendis enn sem komið er.

Þegar skita er að ganga í nautgripahjörð þá sýna 10-20% einkenni, en veiran er mjög smitandi í móttækilegum hjörðum eða allt að 100% með einkenni á 1-2 vikum. Kýr á tali og kýr í hárri nyt verða verst úti.

Ungkálfar og gripir í uppvexti sýna vanalegast lítil eða engin einkenni. Dauðatíðni er sjáldan hærri en 10%, oftast 1-2 %. Milli 25%-95% (meðaltal 50%) mjólkurkúa falla í nyt í 1-2 vikur. Sumar ná ekki upp fyrri nyt á yfirstandandi mjaltaskeiði þrátt fyrir bata.

Smitleiðir

  • Veiruskitan smitast með saur frá sýktum nautgripum og þá sérstaklega fullorðnum gripum.
  • Smit milli gripa er aðallega með saurmenguðu fóðri.
  • Smit milli hjarða er aðallega með þjónustuaðilum nautgripabúa svo sem sæðingamönnum, mjólkurbílstjórum, mjólkureftirlitsmönnum og dýralæknum og öðrum þeim sem eru á ferðinni milli fjósa t.d. viðgerðarmenn. Breytingar í veðri hafa áhrif – hiti/kuldi – þrýstingsbreytingar.
  • Lélegt fóður hefur einnig áhrif.

Afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn skerðir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, m.a. júgurbólgu og öðrum bakteríusýkingum. Sýkingin eykur hættu á doða hjá kúm sem komnar eru nálægt burði. Kýr sem veikjast falla verulega í nyt á meðan þær eru veikar og komast sjaldan í fulla nyt aftur á yfirstandandi mjaltaskeiði, auk þess hefur veikin neikvæð áhrif á frjósemi kúnna.

Varnir og viðbrögð

Mikilvægt er að bændur efli sóttvarnir á búum sínum, dragi úr flutningi gripa og tækja milli búa og lágmarki umgengni utanaðkomandi fólks. Nota ætti hlífðarfatnað og stígvél búsins eða einnota skó-/stígvélahlífar. Tæki sem notuð eru á búinu þarf að þrífa og sótthreinsa, áður en þau eru notuð á öðrum búum.

Nauðsynlegt er að kýrnar hafi góðan aðgang að drykkjarvatni og salti. Vökvameðferð, ýmist í æð eða um munn, getur reynst nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir ofþornun. Vakta þarf kýr sem veikjast í kringum burð og bregðast strax við doðaeinkennum. Einnig þarf að vera vel vakandi gagnvart byrjunareinkennum júgurbólgu og annarra bakteríusýkinga. 

Uppfært 22.07.2022
Getum við bætt efni síðunnar?