Fara í efni

Varnir gegn sjúkdómum í svínum

Allur innflutningur á lifandi búfé til Íslands er bannaður. 

Vegna landfræðilegrar einangrunar og strangra innflutningsreglna hefur Ísland sloppið að mestu við alvarlega smitsjúkdóma í dýrum. Það er skylda okkar allra að standa vörð um góða sjúkdómastöðu og leita allra leiða til að hindra að varhugaverð smitefni berist til landsins. 

Þegar ferðast er milli landa er nauðsynlegt að gæta ítrustu smitvarna! Hafi aðilar verið á svínabúum eða sýningum erlendis, þar sem svín hafa verið eða komist í snertingu við hugsanlegt smit sem getur borist í svín hérlendis, skulu þeir ekki fara inn á svínabú eða vera í snertingu við svín fyrr en í fyrsta lagi 48 klst. eftir komu til landsins. 

Matvælastofnun hvetur svínabændur til þess að verja dýrin og búið sitt. Svínabændur eru hvattir til þess að vera fyrirmyndir í að sýna smitgát og takmarka umferð inn á búin hjá sér eins og kostur er.

Til að hindra útbreiðslu sjúkdóma þurfa svínabændur að:

 1. Vera með góðar smitvarnir
 2. Uppfylla lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og reglugerð 560/2010 um innflutning á djúpfrystu svínasæði
 3. Tilkynna um grun um smitsjúkdóm eða áður óþekktan sjúkdóm til Matvælastofnunnar, hverjum þeim dýralækni sem til næst eða lögreglu
 4. Skrá niður heimsóknir á búin og tryggja rekjanleika

Sjúkdómaskimun

Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi sem lögin ná yfir eða áður óþekktan sjúkdóm að tilkynna það hverjum þeim dýralækni sem til næst eða lögreglu. Þessi vöktun dýraeigenda og almennings ásamt vakandi augum dýralækna er gífurlega mikilvæg í því skyni að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar breiðist út. Sumir sjúkdómar eru þó þess eðlis að dýrin geta verið sýkt án þess að sjúkdómseinkenni komi fram, þá þarf að vakta með sýnatökum. Matvælastofnun metur hvaða sjúkdóma er mest þörf á að vakta hverju sinni. Við matið er tekið tillit til mögulegra smitleiða og sjúkdómastöðu í nágrannalöndum okkar og þeim löndum sem við eigum viðskipti við, jafnframt er farið eftir reglum Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) og viðskiptalanda okkar eftir því sem við á. 
 

Varnir gegn smiti MÓSA (e. MRSA) á íslenskum svínabúum

Eftirlit með salmonellu í svínarækt

Eftirlit með salmonellu í svínum fer samkvæmt landsáætlun um varnir og viðbrögð við salmonellu í svínarækt og afurðum svína:

Eftirlit með salmonellu í svínarækt er með þrennum hætti:

 1. Kjötsafasýni - Fylgst er með mótefnum gegn salmonellu í kjötsafa allt árið. Mótefni myndast í flestum tilvikum gegn salmonellu í svínum þegar þau verða fyrir smiti. Með því að mæla styrk mótefna í kjötsafa allt árið um kring má fylgjast með breytingum í magni þeirra og meta hvort smitálag salmonellu á svínabúunum sé hverfandi, lítið eða mikið.
 2. Stroksýni - Leitað er að salmonellu á yfirborði svínaskrokka við hverja slátrun. Við flutning svína í sláturhús, við bið þeirra í sláturrétt eða við slátrunina, geta þau smitast og skrokkarnir mengast af salmonellu. Svín sem eru laus við smit geta mengast með þessum hætti. Svín sem bera í sér salmonellu geta mengað flutningstæki, sláturhús og aðra skrokka. Því er nauðsynlegt að fylgjast með yfirborðsmengun skrokka til þess að koma í veg fyrir eins og kostur er, að mengað svínakjöt fari á markað.
 3. Saursýni - Til að greina hvaða sermisgerðir salmonellu eru að finna á viðkomandi búi. Að öllu jöfnu eru ekki tekin saursýni. Ef miklar breytingar eiga sér stað t.d. í móefnamælingu (titer) á kjötsafa, gæti verið ástæða til frekari rannsókna á sermisgerðum sem eru til staðar á búunum. Þá getur verið mikilvægt er að fá vitneskju um sermisgerðirnar og lyfjanæmi þeirra, því sumar eru meinvirkari en aðrar. Vitneskja um sermisgerðirnar eru einnig mikilvægar þegar rekja þarf smitið og getur þá þurft að greina erfðaefni þeirra í því samhengi.

Afrísk svínapest

Þeir sem fara til Evrópu eða annarra heimshluta á villisvínaveiðar þurfa að gæta ýtrustu smitvarna til að koma í veg fyrir að bera afríska svínapest milli landa. Pestin er í hraðri útbreiðslu og mikil ógn stafar af henni fyrir svínarækt í heiminum. Smit getur borist með matvælum, fatnaði og ýmsum tækjum og tólum.

Veiran sem veldur afrískri svínapest getur m.a. borist með sýktum svínum og sæði, hráu kjöti af sýktum dýrum, farartækjum, búnaði, fatnaði o.fl. Veiðimenn eru meðal þeirra sem þurfa sérstaklega að gæta sín á að dreifa ekki veirunni.

Afrísk svínapest er bráðsmitandi drepsótt í svínum og hefur dreifst með villtum svínum um Asíu, Afríku og Evrópu. Ekki er til nein meðhöndlun við sjúkdómnum og ekki er hægt að verjast honum með bólusetningum. Veiran sem veldur sjúkdómnum er ekki hættuleg fyrir fólk eða önnur dýr en veldur svínum þjáningum og dauða. Tjón fyrir landbúnað þar sem sjúkdómurinn kemur upp er gífurlegt.

Tilmæli til þeirra sem fara á villisvínaveiðar eru:

 • Kynnið ykkur vel þær smitvarnareglur sem gilda í veiðilandinu.
 • Þrífið og sótthreinsið tæki og skó áður en veiðilandið er yfirgefið.
 • Þvoið notaðan fatnað í veiðilandinu. Sé það ekki mögulegt skal setja hann í poka og þvo í þvottavél án tafar þegar heim er komið eða fara með í hreinsun.
 • Farið ekki á svínabú að nauðsynjalausu, hvorki innanlands né erlendis.
 • Kynnið ykkur vel þær reglur sem gilda um innflutning á kjöti og veiðiminjar. Þær má finna á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is.

Tilmæli til svínabænda eru:

 • Hafið stranga stjórn á aðgangi og umgangi gesta og starfsfólks á búinu.
 • Fóðrið ekki svín með matarúrgangi.
 • Þrífið og sótthreinsið öll tæki og tól sem farið er með inn á búið.

Afrísk svínapest og veiðiferðir erlendis

Ítarefni

Uppfært 07.02.2020
Getum við bætt efni síðunnar?