Fara í efni

Útflutningur katta

Ef flytja á kött úr landi skal kynna sér reglur viðkomandi móttökuríkis. Skilyrðin geta verið mjög ólík hvað varðar bólusetningar, sýnatökur, vottorð og fleira. Mælt er með því að afla upplýsinga á opinberum vefsíðum viðkomandi ríkis, þ.e. dýralæknayfirvalda í viðkomandi landi og hefja undirbúning í samráði við dýralækni tímanlega. 

Evrópusambandið, Noregur, Sviss - köttur fluttur með fylgd

 • Samræmdar kröfur gilda um innflutning hunda og katta til landa innan Evrópusambandsins, Noregs og Sviss. 
 • Ólíkar reglur gilda um flutning katta eftir því hvort þeir ferðast í fylgd með eiganda/útflytjanda eða eru fluttir án fylgdar t.d. með frakt.
 • Kötturinn skal vera örmerktur og bólusettur gegn hundaæði. Í fyrsta lagi 3 vikum (21 degi) eftir bólusetningu skal heilbrigðisvottorð vegna útflutnings gefið út af dýralækni. 
 • Vottorðið skal svo yfirfarið og áritað af opinberum dýralækni (Matvælastofnun). 

Nánari upplýsingar

Evrópusambandið, Noregur, Sviss - köttur fluttur án fylgdar

 • Samræmdar kröfur gilda um innflutning hunda og katta til landa innan Evrópusambandsins, Noregs og Sviss. 
 • Ólíkar reglur gilda um flutning katta eftir því hvort þeir ferðast í fylgd með eiganda (útflytjanda) eða eru fluttir án fylgdar t.d. með frakt.
 • Kötturinn skal vera örmerktur og bólusettur gegn hundaæði en flytja má köttinn út í fyrsta lagi 21 degi eftir bólusetningu. 
 • Innan við 48 tímum fyrir brottför skal kötturinn heilbrigðisskoðaður af dýralækni og heilbrigðisvottorð gefið út. 
 • 24-48 tímum fyrir brottför skal leggja fram eftirfarandi gögn til Matvælastofnunar, Dalshrauni 1B, Hafnarfirði: 1) heilbrigðisvottorð þar sem fram kemur staðfesting á heilbrigðisskoðun, hundaæðisbólusetningu og ormahreinsun (ef við á) auk upplýsinga um sendanda og viðtakanda kattar og farmbréfsnúmer; 2) heilsufarsbók þar sem fram koma upplýsingar um örmerki og bólusetningu gegn hundaæði.
 • Endanlegt heilbrigðisvottorð er gefið út af Matvælastofnun í Traces (tölvukerfi til skráningar á innflutningi dýra og dýraafurða til ESB). 
 • Frumrit vottorðsins skal fylgja kettinum við útflutning. 
 • ATH! Útflutningur með þessum hætti getur ekki átt sér stað á mánudagsmorgni þar sem heilbrigðisskoðun skal fara fram í síðasta lagi 48 klst fyrir útflutning og nauðsynlegt er að skila gögnum til MAST tímanlega. Útgáfa heilbrigðisvottorðs kostar 1904 kr.

Nánari upplýsingar

 • Örmerki: dýrið skal vera örmerkt áður en það er bólusett.
 • Hundaæðisbólusetning: lágmarksaldur hunda og katta fyrir bólusetningu gegn hundaæði er 12 vikur. Bólusetning skal fara fram a.m.k. 21 degi fyrir innflutning (að mesta lagi ári fyrir). Hafið samband við dýralækni í tæka tíð til þess að panta bóluefni (sérpanta þarf hundaæðisbóluefni fyrir hvert og eitt dýr). 

Bandaríkin 

 Vegna útflutnings á ketti til Bandaríkjanna þarf dýralæknir að gefa út heilbrigðis- og upprunavottorð þar sem eftirfarandi er staðfest:

- Að kötturinn hafi engin einkenni smitsjúkdóms.
- Að kötturinn hafi verið á Íslandi í a.m.k. 6 mánuði (eða frá fæðingu sé um yngra dýr að ræða)

Æskilegt er að vottorðið sé gefið út í mesta lagi 10 dögum fyrir brottför. Ekki er krafa um að vottorðið skuli áritað af dýralæknayfirvöldum.

ATH! Ekki er krafa um bólusetningu katta gegn hundaæði vegna flutnings frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þó gera sum fylki kröfu um hundaæðisbólusetningu og mælt er með því að innflytjendur kanni skilyrði innflutnings á ákvörðunarstað.

Upplýsingar um innflutning gæludýra á vef CDC í Bandaríkjunum

Önnur lönd

Tenglar á vefsíður dýralæknayfirvalda þar sem finna má upplýsingar um innflutningsskilyrði gæludýra.

Uppfært 14.05.2020
Getum við bætt efni síðunnar?