Fara í efni

Viðarumbúðir

Meðal plöntuafurða sem Matvælastofnun hefur eftirlit með eru viðarumbúðir s.s. vörubretti og trékassar o.fl. Með reglugerð landbúnaðarráðuneytisins nr. 343/2004 um viðarumbúðir vara við útflutning innleiddi Ísland hinn alþjóðlega staðal, ISPM15, til að tryggja að útflutningur okkar á ýmsum vörum yrði ekki fyrir skakkaföllum vegna viðarumbúðanna. 

Forsaga

Það er algengt að gerðar séu kröfur til timburs í milliríkjaviðskiptum til að draga úr líkum á að með því berist plöntuskaðvaldar. Hins vegar hafa menn lengi litið fram hjá þeim viði sem notaður er til að bera, styðja við og verja alls kyns vörur í flutningi þeirra á áfangastað þótt sá viður sé engan veginn hættulaus. Mest er hættan þegar nýr og ferskur viður er notaður í umbúðir og skaðvaldar sem voru í trjánum á vaxtarstaðnum berast áfram með viðnum. Árið 1996 fannst í fyrsta sinn bjalla nokkur af ætt trjábukka (Cerambycidae) á trjám í New York í Bandaríkjunum. Ber hún enska heitið Asian longhorned beetle (Anoplophora glabripennis) og veldur skaða á ýmsum tegundum harðviðartrjáa. Telja Bandaríkjamenn að meindýr þetta hafi borist með viðarumbúðum frá Asíu. Einnig má nefna sem dæmi furuþráðorminn  (Bursaphelenchus xylophilus) sem finnst í N-Ameríku, Japan, Kína og víðar í Asíu en hefur enn ekki náð fótfestu í Evrópu, ef Portúgal er undanskilið, og gæti hæglega borist með viðarumbúðum.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) gaf í mars 2002 út leiðbeinandi reglur um viðarumbúðir (ISPM 15) sem eiga að stuðla að því að draga úr hættunni á að með þeim berist skaðvaldar, Guidelines for regulating wood packaging material in international trade-International standards for phytosanitary measures nr. 15. Þar er mælt með að trjáviðurinn sé svældur með metýlbrómíð gasi eða hitaður og síðan merktur á ákveðinn hátt til að staðfesta að tilskilin meðhöndlun hafi átt sér stað. Plöntueftirlitsaðilum í hverju landi er falið að annast vottun á fyrirtækjum sem smíða og meðhöndla tréumbúðir fyrir útflutning. Eins og er lítur út fyrir að þessi alþjóðlegi staðall verði almennt gildandi í alþjóðaviðskiptum. Undanskilinn er ýmis konar unninn viður sem til er orðinn við límingu, hitun eða pressun eins og krossviður og spónarplötur. Einnig eru undanskildar viðarafurðir eins og sag, tréhálmur, hefilspænir og kurl undir 6 mm á þykkt.

Kínverjar settu reglur um viðarumbúðir er tóku gildi haustið 2002, Kanadamenn  í janúar 2004 og Ástralir 1. september 2004. Reglur Evrópusambandsins tóku gildi 1. mars 2005 og frá og með 16. september 2005 boðuðu Bandaríkin, Kanada og Mexíkó að reglum um viðarumbúðir yrði framfylgt mjög ákveðið. Flest ríki virðast ætla að taka upp ISPM 15 staðalinn, þ.e.a.s. gerð er krafa um að umbúðirnar séu rétt merktar til staðfestingar á því að umbúðirnar sjálfar eða sá viður sem notaður var til framleiðslu þeirra hafi verið hitaður nægjanlega til að hitinn í innsta kjarna nái 56°C og haldist þannig í 30 mínútur. Frá 1. janúar 2006 tóku aftur gildi nýjar reglur í Kína. Þá var tekinn upp ISPM 15 staðallinn og fallið frá kröfu um heilbrigðisvottorð (phytosanitary certificate). Því nægir að brettin séu rétt merkt en hins vegar krefjast Kínverjar að tilkynnt sé fyrirfram til réttra eftirlitsaðila ef viðarumbúðir eru í sendingunni og skal óskað eftir skoðun. Sé það ekki gert er hætt við að refsað sé fyrir.

Til að tryggja að íslenskir útflytjendur geti uppfyllt þær kröfur sem innflutningslöndin gera til viðarumbúða og að útflutningsvörur okkar komist þannig vandræðalaust á áfangastað setti landbúnaðarráðuneytið þ. 6. apríl 2004 reglugerð um viðarumbúðir, reglugerð nr. 343 um viðarumbúðir vara við útflutning. Þar er plöntueftirliti Matvælastofnunar falið að annast vottun fyrirtækja til hitunar á viðarumbúðum eða viði til umbúðagerðar. Plöntueftirlitinu er einnig falið að hafa eftirlit með að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Kröfur og vottun

Til aðila er hlotið hafa vottun vegna viðarumbúða

Hér skal bent á nokkur mikilvæg atriði vegna reglna um viðarumbúðir. Flest viðskiptalönd okkar eru að taka upp alþjóðlegan staðal, ISPM 15 (International standards for phytosanitary measures), er gerður var á vegum FAO (Landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna). Samkvæmt þessum staðli á að meðhöndla trjávið sem notaður er í viðarumbúðir með hita, metýlbrómíð gasi eða á annan hátt sem drepur skaðvalda, einkum skordýr og þráðorma, er borist geta með viðnum. Eini raunhæfi kosturinn hér á landi er hitameðhöndlun og því er eingöngu fjallað um hana. Staðallinn leggur það á herðar hins opinbera plöntueftirlitsaðila í hverju landi að framfylgja reglunum og því kom það í hlut plöntueftirlits Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem frá 1.1.2005 breyttist í plöntueftirlit Landbúnaðarháskóla Íslands og frá 1.1.2006 í plöntueftirlit Landbúnaðarstofnunar og loks frá 1.1.2008 í plöntueftirlit Matvælastofnunar, að annast þetta.

Skilgreining á viðarumbúðum

Með viðarumbúðum er átt við trékassa, vörubretti og hvers kyns trjávið sem notaður er til þess að bera, styðja við eða verja vörur í flutningi þeirra á áfangastað. Þessar reglur eiga þó ekki við umbúðir sem að öllu leyti eru gerðar úr unnum viði. Með unnum viði er átt við trjávið sem mótaður er með límingu, hitun og pressun s.s. krossvið, spónarplötur o.fl. Heflaður viður telst ekki unninn og gilda þar sömu reglur og um óheflaðann við.

Vottun

Um er að ræða tvenns konar vottun:

  • Vottun til aðila sem geta útvegað trjávið sem hitaður hefur verið á fullnægjandi hátt og þannig tilbúinn til umbúðagerðar. Viðurinn getur verið hitaður hér á landi eða fluttur inn frá timburframleiðanda erlendis sem hlotið hefur vottun hjá þarlendum yfirvöldum. Við þurrkun viðarins er hitinn hafður nægjanlegur til að uppfylla kröfur staðalsins. Þessum aðilum ber að sjá til þess að þegar viðurinn er seldur til umbúðagerðar þá komi skýrt fram á vörureikningum að um hitaðann við sé að ræða.
  • Vottun til aðila sem smíða umbúðir úr viði sem hefur verið hitaður eða sem hita tilbúnar umbúðir. Þessum aðilum ber að merkja umbúðirnar á réttan hátt til staðfestingar á að rétt hitun hafi átt sér stað. Við vottunina fá menn heimild til að nota einkennismerki staðalsins og fá úthlutað einkennisnúmeri.

Trjábörkur

Þar sem mest hætta er talin á að börkurinn geti borið skaðvalda eiga viðarumbúðir til útflutnings að vera lausar við allan börk.

Ormaför

Ef vart verður við kringlótt göt í viðnum, 2-4 mm í þvermál, er það vísbending um að þar hafi bjöllulirfur verið á ferð. Slíkan við ætti ekki að nota í viðarumbúðir til útflutnings.

Hitun

Fullnægjandi hitun er þegar hitinn kemst í minnst 56°C inni í innsta kjarna viðar og sem varir þannig í minnst 30 mínútur. Þegar timburbúnt eru hituð þarf að gæta þess að þessum hita sé náð inni í miðju búnti og í miðjum kubb þegar bretti eru hituð. Með því að staðsetja hitanema á þessum stöðum má tryggja þetta.

Merkið

Merking innfluttra viðarumbúðaTáknið fyrir framan með IPPC er einkennismerki staðalsins. Einungis þeir er vottun hafa hlotið mega nota það. Talan á eftir IS- er einkennisnúmer þess sem merkir. HT stendur fyrir hitameðhöndlun (e. „heat treatment“) og DB fyrir afbarkað eða barkarfrítt (e. „deBarked“). Merkið skal setja á tvær gagnstæðar hliðar umbúðanna með brennimerki, stimplun, málun eða sprautun. Liturinn á að vera vatnsheldur og einhver annar en rauður og rauðgulur. Merkið skal vera vel læsilegt. Brennimerki er besti en dýrasti kosturinn en flestir hafa notað stimpla og vatnshelt blek. Matvælastofnun getur sent merkið í tölvupósti til þeirra er útbúa stimpla eða mót sé þess óskað.

Geymsla

Mikilvægt er að aðgreina vel hitaðann og óhitaðann við til þess að menn villist ekki á um hvort er að ræða. Ekki er hætta á að hitaður viður smitist og er enginn krafa um að hann sé geymdur innandyra.

Eldri merkingar

Þegar viðarumbúðirnar uppfylla sett skilyrði og búið er að setja viðhlítandi merkingu á þær á ekki að þurfa að hita þær aftur nema gert sé við þær með því að setja inn nýjan við. Sá sem gerir við merkt bretti þarf að fjarlægja merkið sem fyrir var og hita aftur og merkja síðan með sínu merki. Ef gert er við með forhituðum viði þarf ekki að hita brettið aftur. Með merki er einungis átt við ofangreint merki en ekki önnur merki sem á umbúðunum kann að vera. Ekki er tilgreint nánar í staðlinum hvernig fjarlægja skuli eldra merkið þegar gert er við en í tillögum að endurskoðun staðalsins er nefnd yfirmálun og slípun.

Kostnaður og eftirlit

Fyrir upphafsvottun er innheimt gjald skv. gjaldskrár Matvælastofnunar. Ekki er á þessari stundu komið á árgjald fyrir vottunina og reynt verður að halda eftirlitskostnaði í lágmarki. Það er á ykkar ábyrgð að umbúðir þær sem þið útvegið útflytjendum uppfylli þær kröfur sem gerðar eru, þ.e.a.s. lausar við börk og göt eftir skordýranag, umbúðirnar smíðaðar úr forhituðum viði eða hitaðar á fullnægjandi hátt og síðan merktar á réttan hátt. Eftirlit Matvælastofnunar felst í því annars vegar að tryggja okkur að þeir sem smíða úr forhituðum viði geti framvísað vörureikningum er sýni kaup á slíkum viði og hins vegar að þeir er hita við eða umbúðir hafi fullnægjandi aðstöðu til hitunar.

Gildistími vottunar

Upphafleg vottun gildir einungis í eitt ár. Áður en vottunin verður endurnýjuð mun reynt að heimsækja alla og meta aðstæður. Reglugerðin gefur möguleika á allt að þriggja ára gildistíma.

Vottuð fyrirtæki

Fyrirtæki sem óska eftir að hljóta vottun til hitunar á viði eða viðarumbúðum skulu sækja um það til Matvælastofnunar á umsóknareyðublaði sem ná má í á heimasíðu stofnunarinnar, www.mast.is. Við vottun er fyrirtækinu úthlutað númeri og það fær heimild til að merkja umbúðirnar með hinu alþjóðlega viðurkennda merki. Á heimasíðunni er einnig listi yfir þau fyrirtæki er vottun hafa hlotið.

Fyrirtæki sem flytur út vörur og notar vottunarskyldar viðarumbúðir skal gæta þess að nota einungis rétt merktar umbúðir. 

Noti menn umbúðir við útflutning frá Íslandi sem meðhöndlaðar hafa verið og merktar í einhverju öðru landi skal útflytjandi tryggja sér að yfirvöld í því landi sem flytja á vörur til geri ekki athugasemdir við þær umbúðir. Ef hins vegar er ætlast til að plöntueftirlitið hér á landi gefi út heilbrigðisvottorð með þessum umbúðum við útflutning er það krafa plöntueftirlitsins að umbúðunum fylgi heilbrigðisvottorð (phytosanitary certificate) við innflutning umbúðanna hingað til lands þar sem plöntueftirlit viðkomandi lands vottar að tilskilin meðhöndlun hafi átt sér stað og getur plöntueftirlitið hér þá gefið út svokallað endurútflutningsvottorð (reexport) með umbúðunum þar sem vottorðið frá upprunalandinu fylgir með sem fylgiskjal.

 

Fyrirtæki sem smíða umbúðir úr hituðum trjáviði eða hita tilbúnar viðarumbúðir skv. reglugerð 343/2004 eiga að merkja viðarumbúðirnar með merkinu: 

 Merking innfluttra viðarumbúða

með númeri fyrirtækis í stað ##.

Uppfært 03.06.2024
Getum við bætt efni síðunnar?