Fara í efni

Almennar upplýsingar um merkingar

Kynntu þér rétt þinn til upplýsinga um þann mat sem þú neytir:

Þessum upplýsingum átt þú rétt á

Spjald um merkingu matvæla

Spjald um merkingu matvæla

Ofnæmis- og óþolsvaldar

Skylt er að merkja helstu ofnæmis- og óþolsvalda í innihaldslista matvæla.  Ef matvæli er seld ópökkuð er seljanda skylt að veita upplýsingar um ofnæmis- og óþolsvalda en það má vera munnlega.

Innihaldslisti

 • Innihaldsefni eru í röð eftir minnkandi magni.
 • Ef heiti vöru, myndir eða texti draga fram ákveðin innihaldsefni þá verður magn þeirra (%) að koma fram. Það sama á við ef neytendur tengja ákveðin innihaldsefni við heitið.
 • Aukefni eru merkt með flokksheiti sem lýsir tilgangi með notkun og E-númeri eða heiti aukefnis.
 • Ofnæmis- og óþolsvaldar verða að vera merktir með skýrum hætti og aðgreindir t.d. með feitletrun. Þegar matvæli eru seld án umbúða á kaupandi rétt á upplýsingum um ofnæmis- og óþolsvalda. Hann á einnig rétt á öðrum upplýsingum sem venjulega koma fram á umbúðunum.

Næringarmerking

 • Næringarmerking (Næringaryfirlýsing / Næringargildismerking) sýnir magn orku og ákveðinna næringarefna í 100 g eða 100 ml af matvöru. Til viðbótar má gefa orku og næringarefna þeirra upp í skammti. Fyrir óforpökkuð matvæli er þó leyfilegt að gefa þau upp í skammti eingöngu.
 • Frá því í desember 2016 hefur verið skylt að hafa næringaryfirlýsingu á flestum forpökkuðum matvælum.  Hins vegar er ekki skylt að gefa upp næringargildi fyrir matvæli sem eru óforpökkuð.
 • Dæmi um töflu:

Næringaryfirlýsing

Eftirfarandi atriði, eitt eða fleiri (en engin önnur) mega koma fram til viðbótar:

 • Einómettaðar fitusýrur
 • Fjölómettaðar fitusýrur
 • Fjölalkóhól
 • Sterkja
 • Trefjar
 • Vítamín og steinefni sem eru í marktæku magni

Ekki er leyfilegt að merkja omega-3 fitusýrur í næringaryfirlýsingu.

Ítarefni

Upprunamerkingar

Eingöngu skylt að merkja uppruna ferskra matjurta, hunangs og óunnins kjöts af nautgripum, svínum, sauðfé, geitum og alifuglum. Upprunaland þarf einnig að koma fram ef skortur á slíkum upplýsingum gæti annars villt um fyrir neytendum.

Matjurtir

Í 8. grein reglugerðar um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda eru taldar upp þær fersku matjurtir sem á að upprunamerkja.

Einnig er skylt að merkja vörutegundir úr ferskum matjurtum þar sem matjurtum er blandað saman og/eða þær skornar niður með upplýsingum um upprunaland. 

Þegar ferskum matjurtum er dreift án umbúða eða pakkað af seljanda á sölustað skal seljandi vörunnar veita kaupanda upplýsingar um upprunaland vörunnar með sýnilegum hætti, þar sem varan liggur frammi.

Kjöt

Merkja skal uppruna á kældu og frystu kjöti af nautgripum, svínum, sauðfé, geitum og alifuglum.  Ef kjötið hefur verið unnið, t.d. blandað með kryddum eða aukefnum er ekki skylt að gefa upp uppruna.

Hunang

Samkvæmt reglugerð um hunang skal merkja uppruna þess.

Villandi ef upplýsingar vanta

Merkja skal matvæli með upplýsingum um rétt upprunaland eða upprunastað ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum hvað varðar uppruna matvælanna. Þetta á einkum við ef upplýsingar sem fylgja matvælunum eða merkingin í heild gefur í skyn að matvælin séu upprunnin í öðru landi eða á öðrum stað.  Málið snýst um hvort það sé villandi fyrir neytendur ef upplýsingar vantar. Það eitt að upplýsingar komi ekki fram getur ekki talist villandi. Ef rangur uppruni er gefinn í skyn t.d. með myndum eða fána þá er það villandi og merkja þarf hver uppruninn er. 

Uppruni megininnihaldsefnis, ef annar uppruni er á matvælum

Þegar upprunaland eða upprunastaður matvæla er gefinn upp, en uppruni megininnihaldsefnisins er ekki sá sami þá skal einnig gefa upp upprunaland eða upprunastað megininnihaldsefnis eða gefa upp að uppruni þess sé annar. 

Geymsluþol

Pökkuð matvæli eiga að vera merkt með dagsetningu geymsluþols. Þó eru til undantekningar frá því. Seljandi á að geta veitt kaupanda upplýsingar um geymsluþol matvara sem ekki eru forpakkaðar.

Hver er munurinn á „best fyrir“ og  „síðasta notkunardag“?

Lágmarksgeymsluþol („best fyrir“)

 • Segir til um hve lengi matvara heldur eiginleikum sínum. Margt getur takmarkað þann tíma t.d. þornun, rakadrægni, þránun, seigja, bragð- og litarbreytingar. Einnig skemmdir af völdum örvera þannig að matur súrnar, fúlnar, myglar o.s.frv.
 • Merkingin gefur til kynna þann tíma sem matvörurnar standast þær gæðakröfur sem ábyrgðaraðili/framleiðandi vörunnar gerir til þeirra.
 • Oftast hættulaust að borða þótt geymsluþolið sé komið fram yfir dagsetninguna.
 • Eiga að vera merkt með dagsetningu geymsluþols. Þó eru til undantekningar frá því.
 • Seljandi á að geta veitt kaupanda upplýsingar um geymsluþol matvara sem ekki eru forpakkaðar ef geymsluþol á við ákveðinn dag (gildir til loka þess dags) eða „Best fyrir lok“ ef geymsluþol miðast við mánuð eða ár

Síðasti notkunardagur

 • Síðasti notkunardagur, þá er merkt á undan dagsetningunni: „Síðasti notkunardagur“ EÐA „Notist eigi síðar en“.
 • Síðasti notkunardagur er notaður á matvörur sem eru mjög viðkvæmar fyrir örveruvexti þannig að sjúkdómsvaldandi örverur geta fjölgað sér á geymslutímanum og varan þannig orðið hættuleg heilsu, sé hún notuð eftir síðasta notkunardag. Það sem skiptir máli er að varan getur valdið hættu, þó að hún virðist vera í lagi hvað útlit, lykt og bragð varðar.
 • Mikilvægt er að neyta ekki vöru sem komin er fram yfir síðasta notkunardag.

Geymsluskilyrði

Ef veita þarf leiðbeiningar til a tryggja örugga geymslu og notkun matvöru, á að vera leiðbeinandi texti á umbúðum. Ef geymsluþol matvöru er háð því hvernig hún sé geymd við ákveðin skilyrði, á að gefa leiðbeiningar um þau geymsluskilyrði. Til dæmis á það við um vöru sem á að geyma 0-4°C til þess að hún haldi eiginleikum sínum allan geymsluþolstímann. Sama á við um frystivöru (-18). Önnur dæmi eru t.d. vörur sem þarf að geyma á þurrum, svölum eða dimmum stað.

Með matvörum sem merktar eru með „Síðasta notkunardegi“ (eða "Notist eigi síður en") eiga alltaf að fylgja leiðbeiningar um geymsluskilyrði.

Eftir opnun umbúða

Fylgja skal leiðbeiningum um geymsluþol eftir opnun og geymsluleiðbeiningar til að tryggja örugga notkun. 

Rétt meðhöndlun

Nauðsynlegt getur verið að fylgja leiðbeinandi texta til að tryggja örugga meðhöndlun matvöru. Það gildir sérstaklega um vörur sem þarf að gegnumhita fyrir neyslu, vegna hættu á sjúkdómsvaldandi örverum. Einnig vörur sem nauðsynlegt er að gæta sérstaks hreinlætis við meðhöndlun vegna hættu á krossmengun. 

Yfirlýsing um nettómagn

Yfirlýsing um nettómagn er ekki lögboðin þegar um er að ræða matvæli:

 • sem tapa umtalsverðu rúmmáli eða massa og eru seld í stykkjatali eða vigtuð í viðurvist kaupanda,
 • þegar nettómagn þeirra er undir 5 g eða 5 ml; hins vegar gildir þetta ákvæði ekki um krydd og kryddjurtir eða
 • sem venjulega eru seld í stykkjatali, eða því tilskildu að fjöldi stykkja sé auðsýnilegur og auðskiljanlegur utan frá eða, ef svo er ekki, tilgreindur á merkingunni. 

Þegar föst matvæli eru seld í legi skal tilgreina nettóþyngd matvælanna eftir að lögurinn hefur verið fjarlægður. Ef matvæli hafa verið húðuð (íshúð) skal uppgefin nettóþyngd matvæla vera án húðunar.

Uppfært 14.02.2024
Getum við bætt efni síðunnar?