Fara í efni

Sérleyfismarkaðir

Kröfur sem gerðar eru um vottun vegna afurða sem fluttar eru til ríkja utan EES byggjast á skilyrðum sem viðkomandi móttökuríki gerir. Í sumum tilfellum hafa farið fram sérstakar viðræður á milli dýralæknayfirvalda á Íslandi og móttökuríkja og jafnvel úttektir hér á landi áður en skilyrði og vottorðaform eru útfærð.

Búfjárafurðir til Rússlands

Þann 1. júlí 2010 fengu fyrstu íslensku sláturhúsin leyfi til að flytja kinda- og hrosskjöt til Rússlands. 
 
Rússenska matvælastofnunin, Rosselkhoznadzor,  hefur birt á heimasíðu sinni lista yfir fyrirtæki sem hafa útflutningsleyfi á Rússlandsmarkað
 
Rússnesk yfirvöld leggja mikla áherslu á að rússneskar reglur varðandi slátrun og meðferð sláturafurða séu aðgengilegar á skiljanlegu máli fyrir stjórnendur og eftirlitsmenn í hverju sláturhúsi sem hefur útflutningsleyfi fyrir kjöt á Rússlandsmarkað. Á heimasíðu Evrópusambandsins má finna á ensku nokkrar helstu rússneskar reglur varðandi slátrun og meðferð sláturafurða
 
Stjórnendur þeirra sláturhúsa sem eru á lista vegna slátrunar á Rússlandsmarkað og viðkomandi héraðs- og eftirlitsdýralæknar þurfa að kynna sér þessar reglur og framfylgja þeim. 
 
Sláturleyfishafar þurfa að útbúa skjal í innra eftirlitskerfi sláturhússins þar sem lýst er hvernig sláturhúsið hyggst uppfylla sérstakar  rússneskar kröfur, t.d. hvernig tryggt sé að einungis kjöt sem ætlað er á Rússlandsmarkað fari þangað. Í því samhengi skal sérstaklega bent á kröfur varðandi tríkínurannsóknir á hrossakjöti og rannsóknir vegna salmonellu og annarra örvera á kjötskrokkum. 
 
Eftirlitsdýralæknarnir þurfa að hafa skýrt verklag um hvernig haga skal eftirliti með að unnið sé eftir þessum reglum. 
 
Rússneskir eftirlitsmenn geta komið í eftirlitsheimsókn hvenær sem er og þá þarf að vera unnt að sýna fram á að stjórnendur sláturhúsa og eftirlitsaðilar hafi kynnt sér reglurnar og vinni eftir þeim. Séu kröfur ekki uppfylltar má búast við að sláturhús verði tekin af lista

Ítarefni

Sjávarafurðir til Evrasíusambandsins (EAEU)

Evrasíusambandið er tollabandalags Rússlands, Hvítarússlands, Kasakstans, Kirgistans og Armeníu (e. Eurasian Economic Union - EAEU):

Löggjöf Tollabandalagsins

Fyrirtæki með leyfi

Gátlisti og leiðbeiningar

Sjávarafurðir til Kína

Leiðbeiningar um skráningu fiskvinnslna, viðskiptaaðila og fiskafurða fyrir Kínamarkað

Skráningar skiptast í þrennt:

 1. Skráning fyrirtækja sem framleiða fiskafurðir sem ætlaðar eru fyrir Kínamarkað.
 2. Skráning viðskiptaaðila, þ.e. útflytjenda („exporters / traders“) á Íslandi og innflytjenda („importers“) í Kína.
 3. Skráning fiskafurða miðað við fisktegundir og vinnsluaðferð vegna útflutnings til Kína. 

1. Skráning fiskvinnslna

Framleiðslufyrirtæki sem framleiða fiskafurðir sem fluttar eru til Kína, þurfa að vera skráðar hjá yfirvöldum í Kína.  Matvælastofnun (MAST) hefur milligöngu um skráningu.  Umsókn um skráningu er send MAST í gegnum þjónustugátt.

Vakin er athygli á að ekki er heimilt að flytja út nema frá þeim fiskvinnslum sem eru á lista. 

2. Skráning viðskiptaaðila

Viðskiptaaðilar sem koma að Kínaviðskiptum, (þ.e. útflytjendur á Íslandi og innflytjendur í Kína), skulu vera skráðir hjá innflutningsyfirvöldum í Kína. Skráning þessi er í gegnum kínverska heimasíðu og er þeim sem ætla að skráð sig bent á að fá aðstoð hjá viðskiptafélaga í Kína eða öðrum þar sem hluti skráningar kann að vera á kínversku. Nauðsynlegt er að varðveita númer sem verður til við þessa skráningu, þar sem það gildir hver sem viðtakandinn er af vörunni.

3. Skráning fiskafurða 

Í gildi er listi yfir þær afurðategundir sem flytja má út frá Íslandi til Kína (listinn er í vinnslu).  Umsóknir um nýjar afurðategundir fara í sérstak áhættumat í Kína.  Hluti af slíku mati er síðan úttekt hér á landi af hálfu kínverskra yfirvalda. Kostnaður vegna slíkrar úttektar skal greiðast af viðkomandi hagsmunaaðilum.

Það skal tekið fram að ekki er ætlast til að fyrirtæki skrái sig og vörur sínar til vonar og vara, eða í því falli að til viðskipta kunni að koma á næstu árum. Það getur leitt til vandkvæða, því kínversk yfirvöld munu sannreyna upplýsingar þessar.

Ennfremur er mikilvægt að allar skráningar séu réttar  og nákvæmar.

Búfjárafurðir til Hong Kong

Eldisfiskafurðir til Ástralíu

Áströlsk yfirvöld hafa gert úttekt á sjúkdómastöðu eldisfisk (laxfiska) á Íslandi og telja hana ásættanlega og hafa heimilað innflutning á eldisfiskafurðum frá Íslandi til Ástralíu að uppfylltum ákveðnum kröfum. Íslensk yfirvöld þurfa að ábyrgjast að eftirfarandi kröfur Ástralíu sem eiga við um innflutning á laxfiskaafurðum til Ástralíu séu uppfylltar:

 1. Íslensk yfirvöld skulu strax tilkynna áströlskum yfirvöldum ef upp kemur sjúkdómur í eldisfiski eða í villtum fiski sem leiða til þess að ástralskar reglur banni innflutning afurða frá Íslandi.
 2. Íslensk yfirvöld skulu tilkynna áströlskum yfirvöldum fyrirfram nöfn, heimilisföng og samþykkisnúmer viðkomandi starfsstöðva. Íslensk yfirvöld skulu hafa reglubundið eftirlit með þessum starfsstöðvum og tilkynna áströlskum yfirvöldum strax ef þau uppfylla ekki lengur kröfur og hætta þá að senda frá þeim afurðir til Ástralíu.
 3. Uppfylla þarf almennar og sértækar kröfur Ástalíu um sjúkdómastöðu í villtum fiski og í eldisfiski á Íslandi.
 4. Uppfylla þarf almennar kröfur um hollustuhætti og ástralskar sérkröfur, en þær varða fyrst og fremst sjúkdómastöðu í laxfiskum í og við Ísland, einungis má vinna og flytja út til Ástralíu afurðir laxfiska frá samþykktum löndum og rekjanleiki afurða þarf að vera algjörlega tryggður.
 5. Áströlsk yfirvöld áskilja sér rétt til að gera úttekt á starfstöðvum á Íslandi og sem leyfi hafa til útflutnings til Ástralíu.
 6. Öllum sendingum til Ástralíu þarf að fylgja opinbert heilbrigðisvottorð, sem einungis má gefa út séu allar kröfur Ástralíu varðandi dýraheilbrigði uppfylltar.

Búfjárafurðir til Japan

Japönsk yfirvöld hafa gert úttekt á dýrasjúkdómastöðu Íslands og telja hana ásættanlega og hafa heimilað innflutning á kjöti og kjötafurðum frá Íslandi til Japan. Íslensk yfirvöld þurfa að tilnefna fyrirtæki sem þau ábyrgjast að uppfylli kröfur sem eiga við um kjöt. Yfirlit (á vef japanskra yfirvalda) yfir starfsstöðvar sem hafa útflutningsleyfi til Japan.

 1. Íslensk yfirvöld skulu tilkynna japönskum yfirvöldum fyrirfram nafn, heimilisfang, samþykkisnúmer og afköst viðkomandi starfsstöðva. Íslensk yfirvöld skulu hafa reglubundið eftirlit með þessum starfsstöðvum og tilkynna japönskum yfirvöld strax ef þau uppfylla ekki lengur kröfur og hætta þá að senda frá þeim afurðir til Japan. Heimilt er að flytja út frá Íslandi til Japan kjöt af sláturdýrum frá öðrum löndum enda séu þá uppfyllt ákvæði þar að lútandi í ofangreindum reglum.
 2. Sérstakar viðbótarkröfur fyrir svínakjöt, einkum varðandi svínapest.
 3. Sérstakar viðbótarkröfur varðandi garnir sem notaðar eru við framleiðslu á unnum kjötvörum. Einungis má nota garnir frá löndum sem uppfylla japanskar kröfur.
 4. Uppfylla þarf almennar kröfur um hollustuhætti og um heilbrigðisskoðun á sláturdýrum og afurðum.
 5. Japönsk yfirvöld áskilja sér rétt til að gera úttekt á starfstöðvum á Íslandi og sem leyfi hafa til útflutnings til Japan.

Sjávarafurðir til Víetnam

Fyrirtæki sem óska eftir að flytja fisk og fiskafurðir til Víetnam þurfa að láta skrá sig hjá þarlendum yfirvöldum. Víetnömsk reglugerð nr. 25/2010 fjallar um kröfur vegna innflutnings á matvælum úr dýraríkinu. Öllum sendingum til Víetnam þarf að fylgja opinbert heilbrigðisvottorð.

Frystir fiskhausar til Suður-Kóreu

Fyrirtæki sem óska eftir að flytja frysta fiskhausa (Frozen edible fish heads: HS 0303) og fryst fiskinnyfli (Frozen edible fish intestines: HS0303, HS 0306 eða HS 0307) til manneldis til S-Kóreu þurfa að láta skrá sig hjá þarlendum yfirvöldum. Öllum sendingum til S-Kóreu þarf að fylgja opinbert heilbrigðisvottorð.

Uppfært 12.11.2020
Getum við bætt efni síðunnar?