Fara í efni

Útflutningur á kjöti til Rússlands heimilaður

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Frá og með 1. júlí s.l. hafa nokkur íslensk sláturhús leyfi til að flytja kinda- og hrosskjöt til Rússlands. Undirbúningur að samkomulagi þess efnis hefur staðið yfir lengi. Ítarlegur spurningalisti barst íslenskum stjórnvöldum frá rússnesku matvælastofnuninni og var MAST falið að svara þarlendum yfirvöldum spurningum um dýraheilbrigði og matvælaöryggi hér á landi. Skrifað var undir viljayfirlýsingu á matvælasýningunni Grüne Woche í Berlín í janúar síðastliðnum og hefur síðan þá verið unnið að frágangi vottorða sem fylgja þurfa sendingum og hafa nú verið samþykkt.

Rússneska matvælastofnunin, Rosselkhoznadzor,  hefur birt á heimasíðu sinni lista yfir fyrirtæki sem hafa útflutningsleyfi á Rússlandsmarkað.

Rússnesk yfirvöld leggja mikla áherslu á að rússneskar reglur varðandi slátrun og meðferð sláturafurða séu aðgengilegar á skiljanlegu máli fyrir stjórnendur og eftirlitsmenn í hverju sláturhúsi sem hefur útflutningsleyfi fyrir kjöt á Rússlandsmarkað.

Á heimasíðu Evrópusambandsins má finna á ensku nokkrar helstu rússneskar reglur varðandi slátrun og meðferð sláturafurða.

Stjórnendur þeirra sláturhúsa sem eru á lista vegna slátrunar á Rússlandsmarkað og viðkomandi héraðs- og eftirlitsdýralæknar þurfa að kynna sér þessar reglur og framfylgja þeim.

Sláturleyfishafar þurfa að útbúa skjal í innra eftirlitskerfi sláturhússins þar sem lýst er hvernig sláturhúsið hyggst uppfylla sérstakar  rússneskar kröfur, t.d. hvernig tryggt sé að einungis kjöt sem ætlað er á Rússlandsmarkað fari þangað. Í því samhengi skal sérstaklega bent á kröfur varðandi tríkínurannsóknir á hrossakjöti og rannsóknir vegna salmonellu og öðrum örverum á kjötskrokkum.

Eftirlitsdýralæknarnir þurfa að hafa skýrt verklag um hvernig haga skal eftirliti með að unnið sé eftir þessum reglum.

Rússneskir eftirlitsmenn geta komið í eftirlitsheimsókn hvenær sem er og þá þarf að vera unnt að sýna fram á að stjórnendur sláturhúsa og eftirlitsaðilar hafi kynnt sér reglurnar og vinni eftir þeim. Í aðildarlöndum Evrópusambandsins hafa sláturhús verið tekin út af lista ef þessar kröfur hafa ekki verið uppfylltar.

Kjartan Hreinsson sérgreinadýralæknir búfjárafurða mun heimsækja sláturhúsin á næstu vikum og mun þá gefast tækifæri til að ræða nánar um þessar reglur og framkvæmd þeirra.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?