Fara í efni

Sjúkdóma- og lyfjaskráning

Skráning allra sjúkdóma í íslenskum búfénaði

Matvælastofnun undirbýr víðtæka skimun fyrir búfjársjúkdómum hér á landi, með sýnatökum, skráningu og úrvinnslu upplýsinga. Alger forsenda til uppsetningar á slíkum skimunarkerfum er að dýrin sem skoðuð eru séu einstaklingsmerkt, þannig að ferill þeirra sé þekktur allt frá fæðingu til dauða. Skrá skal allar sjúkdómsgreiningar skv. viðaukum 1A, 1B og 2 í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim en um er að ræða 177 sjúkdóma. Þessir sjúkdómar eru ýmist tilkynningarskyldir eða skráningarskyldir á Íslandi, þannig að um hreina lagaskyldu er að ræða.

Grunnur þessara skráninga er síðan notaður til mánaðarlegra tilkynninga til OIE um A og B sjúkdóma á Ísland og árlega um A, B og C sjúkdóma. 

Skráning á lyfjanotkun

Lyfjanotkun í íslenskum landbúnaði er ekkert einkamál bænda eða dýralækna. Mikil umræða hefur verið um aukið lyfjaónæmi bæði í landbúnaði og á meðal fólks og neytendur eiga kröfu á því að hægt sé að votta að dýraafurðir séu ómengaðar af lyfja- og aðskotaefnaleifum. Benda má á að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur sýklalyfjaónæmi vera eitt stærsta heilbrigðisvandamál samtímans. Upplýsingar um notkun dýralyfja, þ.e.a.s. magn eftir lyfjaflokkum, dýrategundum, héruðum, sjúkdómum, hjörðum, einstökum dýrum og dýralæknum þurfa að berast í rafræna gagnagrunna. Með því fást haldgóðar upplýsingar um þennan mikilvæga þátt til að unnt sé með rökum að staðfesta að afurðirnar séu ómengaðar og þar af leiðandi öruggar til neyslu.

Margir bændur þekkja e.t.v. ekki skyldur sínar hvað varðar skráningar á lyfjanotkun og sjúkdómaskráningar fyrir búfé sitt og nálgast má upplýsingar um það á þessari síðu.

Hvað eiga bændur að gera?

Bændur eru ábyrgir fyrir skráningum upplýsinga um öll dýr hjarða sinna í sérstaka hjarðbók. Ef um er að ræða sauðfé, geitur, nautgripi og hross skal nota rafrænu hjarðbækurnar Fjárvís, Heiðrúnu, Huppu og WorldFeng til þess að skrá þær upplýsingar. Hægt er að fá svokallaðan hjarðbókaraðgang að öllum þessum kerfum, búfjáreigendum að kostnaðarlausu. Einnig er það ábyrgð bænda að sjúkdómar í búfé þeirra og hvers kyns lyfjanotkun sé ávallt skráð.

Í reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár segir í 13. gr. um heilsukort

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir að sjúkdómar í búfé hans og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Upplýsingar skulu skráðar á eyðublöð sem Matvælastofnun viðurkennir eða í tölvuskrár. Við flutning dýra milli hjarða skal afrit heilsukorts fylgja dýrinu til móttakanda.

Í reglugerð um hollustuhætti sem varða matvæli er einnig kveðið á um að bændur skulu halda skrár um notkun á dýralyfjum þar sem fram koma dagsetningar lyfjagjafa, biðtími afurðarnýtingar ásamt skrá um sjúkdóma. Ábyrgð á að þessar skráningar séu til staðar hvílir því á bændum og skulu slíkar skráningar vera aðgengilegar við opinbert eftirlit, en Matvælastofnun hefur eftirlit með lyfjanotkun í búfé.

Hvernig eiga bændur að skrá?

Sauðfjárbændur og nautgripabændur geta skráð eigin lyfjanotkun rafrænt í Fjárvís og Huppu.

Á síðasta ári voru lyfjaskráningarnar einfaldaðar í Fjárvís til að samrýmast þeim skráningum sem sauðfjárbændur þekkja úr gæðastýringu.

Skrá lyfjagjafir í FJÁRVÍS:

  • Smella á „Skrá lyfjagjafir“ á forsíðunni í dálknum fyrir vorbók eða haustbók og þá opnast skráningarmynd fyrir lyfjagjöfina sjálfa.

Skrá lyfjagjafir í HUPPU:

  • Smella á „Heilsa“ tengilinn í valmynd vinstra megin og síðan „Lyfjaskápur“.
  • Velja „Skoða lyfjaskáp“ og þá birtast þau lyf sem eru skráð í lyfjaskápinn.
  • Smella á örina lengst til hægri í sömu línu og lyfið sem notað var og velja „Nota“ og þá opnast skráningarmynd fyrir lyfjagjöfina sjálfa.

Bændur þurfa þó ekki að standa einir að allri skráningu á lyfjanotkun í búfé sitt en þeir geta einnig notið aðstoðar sinna dýralækna. Dýralæknum sem meðhöndla nautgripi og hross ber að skrá sjúkdómsgreiningar og lyfjanotkun í gagngrunninn Búfjárheilsu, auk sauðfjár og geitfjár. Bændur bera hins vegar ábyrgð á því að slíkar skráningar séu til staðar og geta þeir fylgst með skráningum fyrir sitt búfé í rafrænum hjarðbókum með því að skoða yfirlit yfir lyfjagjafir í heilsuhluta hjarðbóka eða með því að fletta upp heilsukorti fyrir viðkomandi gripi.

Fyrir aðrar búfjártegundir, þar sem lyfjaskráningar í miðlæga gagnagrunna eru ekki til staðar, þurfa bændur að halda skrá yfir lyfjanotkun annað hvort á pappír eða í tölvuskrám.  Dæmi um heilsukort er að finna hér:

Af hverju eru skráningar á lyfjanotkun mikilvægar?

Mikilvægt er að standa vel að skráningum á lyfjanotkun. Rafrænar skráningar á lyfjanotkun spila lykilhlutverk í matvælaöryggi. Sem dæmi þá eru upplýsingar um gripi í sláturbanni aðgengilegar sláturhúsum og tryggja því að dýraafurðir með lyfjaleifum berist ekki á markað.

Notkun á sýklalyfjum hefur áhrif á sýklalyfjaónæmi þar sem röng notkun og ofnotkun á sýklalyfjum eykur líkur á myndun þess. Söfnun upplýsinga um notkun á sýklalyfjum á landinu er mikilvæg til að halda utan um magn og þróun á notkun sýklalyfja, til að meta áhrif ráðstafana sem gerðar hafa verið, til að kanna tengsl sýklalyfjanotkunar við sýklalyfjaónæmi og til að vera upplýst um ofnotkun sé hún til staðar. Mikilvægt er að hafa þessar upplýsingar til að hafa samanburð á milli ára og meta hvort grípa þurfi til ráðstafana. Slíkar ráðstafanir ættu að miða að því að draga úr notkun sýklalyfja, og þar með úr líkum á myndun sýklalyfjaþols, án þess þó að hafa áhrif á sjálfbæra búfjárrækt með heilbrigðum dýrum. Með þeirri vakningu sem hefur átt sér stað um þá miklu vá sem sýklalyfjaónæmi er þá er lögð meiri áhersla á mikilvægi þess að skráningar á lyfjanotkun séu til staðar hérlendis. Það endurspeglast meðal annars í stefnu ríkisstjórnarinnar til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis þar sem aðgerðaráætlun gerir ráð fyrir að auka skráningar á lyfjanotkun og betrumbæta gangagrunna sem halda utan um þær.

Ítarefni

Uppfært 30.04.2021
Getum við bætt efni síðunnar?