Fara í efni

Aukefni

Aukefni eru efni sem aukið er í matvæli til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, áferð eða aðra eiginleika matvæla. Í innihaldslýsingum sjáum við að efnin eru ýmist auðkennd með efnaheitum eða E númerum. E númerin eru bæði til að einfalda innihaldslýsingar og eiga að auðvelda fólki að varast tiltekin efni, s.s. ofnæmisvalda. Bókstafurinn E stendur fyrir Evrópu, númerin eru hins vegar alþjóðleg. Aukefni í matvæli eru heimiluð á evrópskum vettvangi fyrir öll aðildarríki EB og EFTA ríkin þrjú, Ísland, Lichtenstein og Noreg. Það er gert til að einfalda viðskipti milli landa. Notkun aukefna í Evrópu er endurskoðuð hvenær sem rökstuddur grunur kemur upp um óæskileg áhrif þeirra á neytendur.

Einungis er leyfilegt að nota þau aukefni sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur metið og viðurkennt að séu ekki skaðleg heilsu fólks

Hvaða aukefni má nota?

Aukefni sem leyfilegt er að nota í einhver matvæli eru sett á lista í viðauka við aukefnareglugerð (reglugerð ESB nr. 1333/2008).

Þó efni sé á lista yfir leyfileg aukefni er ekki þar með sagt að það megi nota það í hvaða matvæli sem er eða í hvaða magni sem er.  Á listum í viðaukum II og III í aukefnareglugerð er matvælum skipt upp í 18 flokka og þeim síðan í undirflokka. Undir hverjum flokki eru listuð þau aukefni sem heimilt er að nota í þann matvælaflokk og tilgreint í hvaða magni má nota þau og hvaða önnur skilyrði eru fyrir notkuninni. Aukefnalistinn er svokallaður jákvæður listi, svo að þau efni sem ekki eru á listanum eru ekki leyfð í þann matvælaflokk. 

Aukefni sem notuð eru í matvæli verða að vera ætluð í matvæli þ.e. „food grade“ og þau verða að uppfylla kröfur sem fram koma í reglugerð nr. 397/2013 um gildistöku reglugerðar EB nr. 231/2012 um nákvæmar skilgreiningar á aukefnum í matvælum. Nánari upplýsingar er að finna í neðangreindum leiðbeiningum og ítarefni.

Matvælafyrirtæki bera sjálf ábyrgð á að kynna sér og fara eftir reglum um notkun aukefna.  Nánari upplýsingar um reglur má finna í leiðbeiningum um aukefni og í ítarefni.

Matvælaflokkar

Í aukefnareglugerð er matvælum skipt upp í 18 flokka og þeim síðan í undirflokka. Undir hverjum flokki eru listuð þau aukefni sem heimilt er að nota í þann matvælaflokk og tilgreint í hvaða magni má nota þau og hvaða önnur skilyrði eru fyrir notkuninni. Aukefnalistinn er svokallaður jákvæður listi, svo að þau efni sem ekki eru á listanum eru ekki leyfð í þann matvælaflokk. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út leiðbeiningar sem lýsa matvælaflokkunum

Unnar kjötvörur og kjötafurðir - hver er munurinn?

Matvælaflokkur 08 í aukefnareglugerð er fyrir kjöt.  Í þessum flokki eru nokkrir undirflokkar sem sumum er auðvelt að rugla saman.  Til skýringa:

Flokkur 08.2, Unnar kjötvörur (e. meat preparations):  Nýtt/ferskt kjöt, þar með talið kjöt sem hefur verið bitað niður, sem matvælum, kryddi eða aukefnum hefur verið bætt í eða sem hefur verið sett í vinnslu sem nægir ekki til að breyta innri byggingu vöðvaþráða í kjötinu og eyða þannig einkennum þess sem nýs kjöts. 

Dæmi: Kjöthakk sem er blandað með öðrum hráefnum t.d. kryddi, kryddaðir hamborgarar, hamborgarahryggur, ferskar pylsur og  steiktur matur sem er ekki soðinn inn í kjarna vörunnar  

Flokkur 08.3, Kjötafurðir (e. meat products): Unnar afurðir sem fást með vinnslu kjöts eða með frekari vinnslu slíkra unninna afurða þannig að sjá má, þegar yfirborðið er rist, að afurðin hefur ekki lengur einkenni nýs kjöts. Vinnsla getur verið hitun, reyking, þroskun, þurrkun, marinering og fleira. 

Dæmi: Soðið kjöt, brauðskinka, vínarpylsur, kjötfars, kjötbúðingur, salami, pepperoni og þurrkað kjöt.  

Nánari upplýsingar um aukefnareglugerðir

Reglugerð Evrópusambandsins nr.  nr. 1333/2008 , aukefnareglugerðin, tók gildi á Íslandi með íslenskri reglugerð 978/2011.

Aukefnaeglugerðin var upphaflega birt án viðauka II og III sem innihalda lista yfir það hvaða aukefni eru leyfileg í hvaða matvælaflokka. Viðaukar II og III voru birtir í heild með reglugerðum ESB nr. 1129/2011 og 1130/2011 sem eru breytingar á upphaflegu gerðinni (ESB nr. 1333/2008).  Á hverju ári eru svo gerðar fjölmargar breytingar á reglunum, ýmist til útvíkkunar á leyfilegri notkun tiltekinna efna, takmörkunar á öðrum sem og nýjum efnum er bætt við eða önnur tekin út.  Allar þessar breytingar á listunum eru gefnar út í reglugerðum sem eru breytingar á upphaflegu gerðinni. Hér fyrir neðan má sjá töflu með yfirliti yfir það hvaða upplýsingar eru í hverjum viðauka og í hvaða reglugerð hann var birtur fyrst.  

Yfirlit yfir viðauka við aukefnareglugerð, í hvaða reglugerð EB reglugerð þeir eru fyrst birtir og hvaða íslenska reglugerð innleiðir þá hér á landi:

Viðauki

Efni

Reglugerð nr.

EB reglugerð nr.

I

Virkniflokkar (flokksheiti)

978/2011

EB/1333/2008
(án viðauka II og III)

II

Aukefni í matvæli
- listar yfir aukefni sem eru
samþykkt til notkunar í hina ýmsu matvælaflokka
og skilyrði fyrir notkun þeirra.

921/2012
(er breyting á 978/2011)

EB/1129/2011
(breyting á 1333/2008)

III

Aukefni í aukefni, ensím, bragðefni
-
listar yfir aukefni sem eru
samþykkt til notkunar í
aukefni, bragðefni, ensím og næringarefni
og skilyrði fyrir notkun þeirra.

921/2012
(er breyting á 978/2011)

EB/1130/2011
(breyting á 1333/2008)

IV

Ákveðin hefðbundin matvæli  sem tiltekin ríki
mega banna notkun vissra aukefna

978/2011

EB/1333/2008

V

Litarefni - viðbótarmerkingar

978/2011

EB/1333/2008

 

Fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á aukefnareglugerðinni sem eru einnig innleiddar hér á landi.

Á Íslandi er ekki gefin út uppfærð útgáfa reglugerðarinnar, en ESB gefur reglulega út uppfærða útgáfu (consolidated version) þar sem breytingareglugerðir hafa verið felldar inní.  Mælt er með því að notfæra sér þessa uppfærðu útgáfu.

Einnig er mjög gagnlegt að skoða síður Evrópusambandsins um aukefni og nota gagnagrunn EB sem þar er. Allar breytingar á reglugerðum koma inní gagnagrunninn.

 

Flokkar aukefna

Bindiefni

Bindiefni er flokksheiti sem lengi hefur verið notað sem samheiti fyrir efnasambönd sem hafa ýmis áhrif á stöðugleika matvæla og þá um leið útlit þeirra. Með nýjum reglum um aukefni var flokknum bindiefni skipt upp í marga aukefnaflokka sem skýra betur hver tilgangur með notkun efnanna er. Hins vegar er hætt við að neytendur eigi erfitt með að skilja sum þessara heita þar sem þau eru ýmist ný af nálinni eða tengd tæknilegum þáttum í matvælaframleiðslu. Nú er litið á bindiefni (stabilizer) sem þau efni sem koma í veg fyrir að efnisþættir í vöru eins og smjörlíki skilji sig eða að botnfall myndist í kakómjólk.

Bragðaukandi efni

Bragðaukandi efni hafa ásamt bragðefnum áhrif á bragð og í vissum tilvikum einnig lykt matvæla. Bragðaukandi efni teljast til aukefna.  Bragðefni teljast hins vegar ekki til aukefna samkvæmt reglum á EES. Þau hafa því ekki E-númer og koma ekki fram í aukefnalista. Bragðaukandi efni hafa ekki sterkt einkennandi bragð. Þau hafa hins vegar þann eiginleika að geta dregið fram eða aukið bragðeinkenni matvæla. Efni þessi eru því stundum notuð eins og krydd og er þriðja kryddið best þekkta dæmið þar um. Þriðja kryddið er natríumglútamat, einnig þekkt sem MSG eða E 621. 

Litarefni

E 100 - 199

Litarefnum er bætt í matvæli til að gera þau girnilegri, bæta upp litartap sem verður við vinnslu eða minnka  náttúrulegan breytileika t.d. mun á sumarsmjöri og vetrasmjöri. Einnig eru litarefni notuð til að skreyta og til að gefa vöru ákveðið útlit svo hún skeri sig frá öðrum.

Ýmis litarefni eru upprunnin í náttúrunni, til dæmis E 100 Kúrkúmín, en guli liturinn er dregin út úr rótum túrmeriks og hreinsaður. Önnur eru tilbúin úr efnum sem ekki teljast til matvæla. Meðal þeirra eru azo-litarefnin.

E númer Efni
E 100 Kúrkúmín
E 101 Ríbóflavín
E 102 Tartrasín *  **
E 104 Kínólíngult   **
E 110 Sólsetursgult FCF / appelsínugult S  *  **
E 120 Kókíníl, karmínsýra, karmín
E 122 Asórúbín, karmósín  *  **
E 123 Amarant  *
E 124 Ponseau 4R, kókínílrautt  *  **
E 127 Erýtrósín
E 129 Allúrarautt AC *  **
E 131 Patentblátt V
E 132 Indígótín,indígókarmín
E 133 Skærblátt FCF
E 140 Klórófýll og klórófýllín
E 141 Klórófýll-og klórófýllínkoparflókar
E 142 Grænt S
E 150a Karamellubrúnt
E 150b Basískt, súlfítað karamellubrúnt
E 150c Karamellubrúnt, ammóníað
E 150d Ammóníað, súlfítað karamellubrúnt,
E 151 Gljáandisvart PN  *
E 153 Viðarkolsvart
E 155 Brúnt HT  *
E 160a Karótín
E 160b Annattó, bixín, norbixín
E 160c Paprikukjarni, kapsantín, kapsórúbín
E 160d Lýkópen
E 160e ẞ-apó-8´-karótenal (C30)
E 161b Lútín
E 161g Kantaxantín
E 162 Rauðrófulitur (betanín)
E 163 Antósýanín
E 170 Kalsíumkarbónat
E 171 Títandíoxíð
E 172 Járnoxíð og járnhydroxíð
E 173 Ál
E 174 Silfur
E 175 Gull
E 180 Lítólrúbín BK  *

*  Azo litarefni ** Merkja þarf umbúðir matvæla sem innihalda litarefnið með „heiti eða E númer litarefnis eða litarefna“ getur/geta haft neikvæð áhrif á athafnasemi og eftirtekt barna. 

Reglugerð EB nr. 1333/2008 (innleidd með 978/2011) segir til um hvaða litarefni má nota í hvaða matvæli og í hvaða magni.  Listar yfir það eru birtir í viðaukum við reglugerðina. Sumir telja litarefni óþörf og villandi fyrir neytendur og hafa áhyggjur af öryggi efnanna. Öðrum þykir jógúrtið betra ef það er aðeins bleikara, og vilja hafa drykkinn sinn ögn skærari. Þessi ólíku viðhorf og mikil umræða hafa orðið til þess að verið er að endurskoða öryggi litarefna og notkun þeirra.

Sérfræðihópur Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um aukefni (ANS Panel) endurskoðar öryggi litarefna sem leyfð eru til notkunar í matvæli í Evrópusambandinu (ESB) og EFTA ríkjum. Fyrsta álit hópsins var birt í 11.nóvember 2009 og fjallaði um 6 litarefni sem umdeild hafa verið. Evrópusambandið setur reglugerð um hvaða litarefni og önnur aukefni er leyfilegt að nota og takmarkar notkun þeirra eftir því sem  niðurstöður Matvælaöryggisstofnunarinnar segja til um.

Niðurstöður svokallaðrar Southampton rannsóknar varð til þess að settar voru reglur um viðvörunarmerkingu á matvæli sem innihalda eitt eða fleiri af litarefnum sem merkt eru með ** í töflunni hér að ofan. Frekari upplýsingar má finna undir tengli bresku matvælastofnunarinnar.

Lyftiefni

Lyftiefni eru efni eða efnablöndur sem gefa frá sér loft og auka þannig rúmmál deigs.
Margir þekkja vöruheiti eins og Natrón og Hjartarsalt, en færri vita að þar er um að ræða efni sem flokkast sem aukefni, þ.e. E 500 (ii) (Natrón) og E 503 (i) (Hjartarsalt)

Rotvarnarefni 

E 200 - 299

Rotvarnarefni eru notuð til að bæta geymsluþol matvæla þar sem aðrar aðferðir eins og kæling duga ekki til. Salt hefur lengi verið notað til að auka geymsluþol og sykur er notaður í sama tilgangi, en þessi efni teljast til hráefna í matvælum og eru notuð í hlutfallslega miklu magni. Hitun og gerilsneyðing eru aðferðir sem notaðar eru til að auka geymsluþol matvæla eins og mjólkurafurða, en þessum aðferðum er hægt að beita á ýmsar aðrar vörutegundir. Aðrar þekktar geymsluaðferðir eru súrsun, reyking og þurrkun matvæla, en þær hafa minna vægi í dag en áður var. Rotvarnarefni þarf ekki að nota í miklu magni og þau hafa flest ekki áhrif á bragð eða útlit matvæla. Notkun þeirra hefur því aukist með meiri fjölbreytni í matvælaframleiðslu og breyttum geymslu- og dreifingaraðferðum. Meðal rotvarnarefna sem geta valdið óþoli eru nokkur sem algengt er að finna í matvælum og má þar nefna bensósýru og bensóöt (E210-219), sorbínsýru og sölt (E 200-203) og brennisteinsdisoxíð og súlfít (E220-228).

E númer Efni
E 200 Sorbínsýra
E 202 Kalíumsorbat
E 203 Kalsíumsorbat
E 210 Bensósýra
E 211 Natríumbensóat
E 212 Kalíumbensóat
E 213 Kalsíumbensóat
E 214 Etýl-p-hýdroxýbensóat
E 215 Natríumetýl-p-hýdroxýbensóat
E 218 Metýl-p-hýdroxýbensóat
E 219 Natríummetýl-p-hýdroxýbensóat
E 220 Brennisteinsdíoxíð
E 221 Natríumsúlfít
E 222 Natríumvetnissúlfít
E 223 Natríummetabísúlfít
E 224 Kalíummetabísúlfít
E 226 Kalsíumsúlfít
E 227 Kalsíumvetnissúlfít
E 228 Kalíumvetnissúlfít
E 234 Nísín
E 235 Natamýsín
E 239 Hexametýlentetramín
E 242 Dimetýldíkarbónat
E 243 Etýlláróýlargínat
E 249 Kalíumnítrít
E 250 Natríumnítrít
E 251 Natríumnítrat
E 252 Kalíumnítrat
E 260 Ediksýra
E 261 Kalíumasetöt
E 262 Natríumasetöt
E 263 Kalsíumasetat
E 270 Mjólkursýra
E 280 Própíónsýra
E 281 Natríumprópíónat
E 282 Kalsíumprópíónat
E 283 Kalíumprópíónat
E 284 Bórsýra
E 285 Natríumtetrabórat (bórax)
E 290 Koltvísýringur
E 296 Eplasýra
E 297 Fúmarsýra

 

Reglugerð EB nr. 1333/2008 (innleidd með 978/2011) segir til um hvaða rotvarnarefni má nota í hvaða matvæli og í hvaða magni. Listar yfir það eru birtir í viðaukum við reglugerðina.

Ítarefni

Sýrustillar og Sýrur

Sýrustillar hafa áhrif á sýrustig við framleiðslu matvæla og það sama gildir að sjálfsögðu um ýmsar sýrur, en þær flokkast ýmist með rotvarnarefnum, þráavarnarefnum eða öðrum aukefnaflokkum vegna þeirra fjölþættu áhrifa sem sýrur geta haft.

Sætuefni 

E 420 - 421 og 950 - 969

Sætuefni eru af nokkrum tegundum. Þau eru ýmist efnafræðilega smíðuð eða finnast í náttúrunni. Sætuefni með númer frá E 950-962 og E 969 hafa mikinn sætustyrk og gefa enga eða mjög litla orku í matvælum.  Ein undantekning er E 953 sem ásamt E 420, E 421 og sætuefnum með númer E 964-968 mynda flokk efna sem oft er kallaður sykuralkóhólar, fjölalkóhól eða pólýólar. Þau efni hafa oftast minni sætustyrk en sykur og gefa einnig orku, og eru notuð í stað sykurs í sykurlaust tyggigúmmí, sælgætistöflur og aðrar vörur til að draga úr hættu á tannskemmdum. Sum þessara efna eru líka notuð í öðrum tilgangi en að vera sætuefni.

E númer Efni
E 420 Sorbítól 
E 421 Mannítól 
E 950 Asesúlfam-K
E 951 Aspartam
E 952 Sýklamat
E 953 Ísómalt
E 954 Sakkarín
E 955 Súkralósi
E 957 Támatín
E 959 Neóhesperidín DC
E 960 Stevíólglýkósíð
E 961 Neótam
E 962 Aspartam- og asesúlfamsalt
E 964 Pólýglýsítólsíróp
E 965 Maltítól
E 966 Laktitól
E 967 Xýlitól
E 968 Erýtrítól
E 969 Advantam

 

Reglugerð EB nr. 1333/2008 (innleidd með 978/2011) segir til um hvaða sætuefnimá nota í hvaða matvæli og í hvaða magni. Listar yfir það eru birtir í viðaukum við reglugerðina. 
Ítarefni.

Ýruefni

Ýruefni (emulsifier) eru notuð þegar blanda þarf saman vatni og fitu eins og við framleiðslu á majonesi og þykkingarefni (thickener) eru efni sem binda vökva og þykkja þannig vörur eins og sultur, hlaup og marmelaði.

Þráarvarnarefni 

Þráavarnarefni (antioxidant) draga úr hættu á að fita og olíur þráni fyrir áhrif súrefnis. Efnin geta einnig hindrað litarbreytingar í afhýddum eða skornum ávöxtum og grænmeti. Þannig má koma í veg fyrir brúnan lit í hrásalati eða afhýddu epli með því að setja sítrónusýru (E 330) í vöruna. Það sama á við um litabreytingar í  ýmsum drykkjarvörum. Í þennan flokk falla ýmis efni meðal annara askorbinsýra  eða c-vítamín (E-300) og E-vítamín tocoferól (E-306-309). Af þráavarnarefnum sem geta valdið óþoli ber helst að nefna BHA og BHT sem hafa númerin E 320 og E 321. Þá má geta þess að ýmsar sýrur og sýrustillar hafa númer á bilinu E 300-399.

Ítarefni

Reglugerðir og leiðbeiningar

E númer 

Evrópusambandið

CODEX

 

Uppfært 23.11.2023
Getum við bætt efni síðunnar?