Fara í efni

Innflutningur frjóeggja

Óheimilt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Matvælastofnun getur þó heimilað innflutning dýra og erfðaefnis með ströngum skilyrðum, sem felur m.a. í sér opinbert heilbrigðisvottorð og einangrun. 

Sækja skal um leyfi til Matvælastofnunar til innflutnings frjóeggja sbr. lög nr. 54/1990 um innflutning dýra. Matvælastofnun aflar umsagnar erfðanefndar landbúnaðarins og metur umsóknina með tilliti til smitsjúkdómahættu. 

Eingöngu hefur verið heimilaður innflutningur frjóeggja frá stofnfuglabúum sem samþykkt eru af og skráð hjá lögbæru yfirvaldi í viðkomandi landi í samræmi við lið a)  (i) í 6. grein tilskipunar 2009/158/EC.

Einangrunarstöð þar sem útungun og uppeldi í að minnsta kosti 6 vikur fer fram, skal tekin út af Matvælastofnun áður en innflutningsleyfi er gefið út. Hún skal uppfylla kröfur varðandi smitvarnir og dýravelferð.

Leggja skal fram heilbrigðisvottorð gefið út af dýralæknayfirvöldum í útflutningslandi þar sem staðfest er að fuglarnir hafi ekki klínísk einkenni tiltekinna smitsjúkdóma, að ekki séu í gildi takmarkanir á búinu vegna smitsjúkdóma sér í lagi vegna fuglaflensu og að búið sé undir eftirliti yfirvalda .

Vottorðið skal samþykkt af Matvælastofnun áður en frjóeggin eru send til landsins. Eingöngu er heimilt að flytja frjóegg til landsins með flugi. Innflutningseftirlit fer fram við komu til landsins og að því loknu skulu eggin flutt rakleiðis í einangrunarstöð.

Í fyrsta lagi 6 vikum eftir útungun er skimað fyrir mótefnum gegn smitsjúkdómum. Greinist mótefni ekki og komi ekki upp smitsjúkdómur, er einangrun aflétt.

Með heimild Matvælastofnunar eru regluglega flutt inn frjóegg til endurnýjunar á stofnfuglum í alifuglarækt:

  • Frjóegg fyrir kjúklingarækt koma venjulega frá Svíþjóð og eru af holdastofni Aviagen Ross 308.
  • Frjóegg fyrir kalkúnaræk koma frá Bretlandi og eru af kalkúnastofninum Aviagen B.U.T. Premium.
  • Frjóegg fyrir varphænsnarækt koma venjulega frá Noregi og eru af varphænsnastofni Lohmann LSL-Classic (Lohmann Selected Leghorn, hvítar varphænur) og Lohmann LB (Lohmann Brown, brúnar varphænur).
Uppfært 14.02.2023
Getum við bætt efni síðunnar?