Fara í efni

Koffínríkir orkudrykkir

Hámark heildar magn koffíns í orkudrykkjum eða í drykkjavörum sem innihalda koffín er 320mg/l (32mg/100ml) samkvæmt reglugerð nr. 453/2014. Sú reglugerð hefur verið innleið sem breyting á reglugerð nr. 327/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1925/2006 um íblöndun vítamína og steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli. Samkvæmt reglugerð nr. 453/2014 skal sækja um leyfi hjá Matvælastofnun fyrir framleiðslu, markaðssetningu eða innflutningi drykkjarvara sem innihalda koffín umfram ofangreind hámarksgildi. 

Matvælastofnun skal taka gjald fyrir móttöku umsóknar, mat á umsókn og leyfisveitingu.  Umsókn telst ekki hafa verið lögð fram fyrr en allar tilskildar upplýsingar og greiðsla hafa verið lögð fram.

Í umsókn skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

 1. Nafn umsóknaraðila, heimilisfang, símanúmer og netfang
 2. Nafn og heimilisfang framleiðanda. Ef framleiðandi er ekki skráður á Íslandi skulu einnig koma fram upplýsingar í samræmi við 3. tl.
 3. Nafn og heimilisfang innflutningsaðila sem er ábyrgur fyrir upphaflegri markaðssetningu vöru á Íslandi
 4. Vöruheiti
 5. Form/uppruni íblandaðs koffíns í vöru
 6. Magn íblandaðs koffíns í vöru
 7. Neyslueiningar - þ.e. töflur, hylki o.s.frv. ef um fæðubótarefni er að ræða
 8. Ráðlagður daglegur neysluskammtur ef um fæðubótarefni er að ræða
 9. Heildarmagn koffíns í vöru (náttúrulegt koffíninnihald auk viðbætts koffíns)
 10. Tilgreining innihaldsefna vöru (öll innihaldsefni)
 11.  Lýsing á merkingum og notkunarleiðbeiningum sem eru á umbúðum eða fylgja vöru (t.d. sýnishorn af umbúðum)
 12. Orkuinnihald vöru, mælt í kJ og kkal
 13. Hvort umsóknaraðili hafi upplýsingar um að vara hafi þegar verið markaðssett með löglegum hætti í öðru EES-ríki, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 764/2008 frá 9. júlí 2008 um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki og um niðurfellingu á ákvörðun 3052/95/EB.

Forskoðun

Eigi síðar en 1 viku eftir að umsókn berst Matvælastofnun sendir stofnunin umsækjanda greiðsluseðil vegna forskoðunar sem umsækjandi hefur 2 vikur til að greiða. Eftir að gengið hefur verið frá greiðslu fer fram forskoðun á vörunni, en í henni felst:  

 1. Hvort öll nauðsynleg gögn fylgja (sbr. upptalningu í að ofan)
 2. Hversu umfangsmikil vinna þarf að fara fram innan Matvælastofnunar vegna mats á umsókn
 3. Hvort og til hvaða sérfræðiaðila skal leita til að fá umsögn

Berist greiðsla fyrir forskoðun ekki innan 2 vikna frá útsendingu greiðsluseðils mun stofnunin líta svo á að fallið hafi verið frá umsókninni. Málið verður þá fellt niður án frekari skoðunar/aðgerða. 

Matvælastofnun lýkur forskoðun innan 10 virka daga frá því að greiðsla fyrir hana barst. 

Mat á vöru

Þegar forskoðun er lokið og  fyrir liggur til hvaða sérfræðiaðila Matvælastofnun þarf að leita vegna umsagnar, hvort öll gögn hafi borist og hve mikla vinnu Matvælastofnun áætlar að þurfa sjálf að leggja fram vegna matsins er sendur út annar greiðsluseðill fyrir mat á umsókninni/vörunni, sem umsækjandi þarf að greiða innan 2 vikna.  

Þegar að seinni greiðslan hefur borist Matvælastofnun hefst eiginlegt mat á  því hvort veita skuli leyfi fyrir markaðssetningu vörunnar.

Berist greiðsla vegna mats á umsókn ekki  innan 2 vikna frá því að greiðsluseðillinn er sendur út verður litið svo á að fallið sé frá umsókninni. Málið verður þá fellt niður án frekari skoðunar/aðgerða.

ATH. Umsókn telst því aðeins hafa verið lögð fram þegar greiðslur fyrir forskoðun og mati hafa borist stofnuninni sem og öll umbeðin gögn. 

Ákvörðun um leyfi eða synjun leyfis

Niðurstaða um fyrirhugaða ákvörðum Matvælastofnunar um leyfi eða synjun leyfis verður kynnt umsækjanda, eigi síðar en 5 mánuðum eftir að leyfisumsókn telst hafa verið lögð fram. Ef stofnunin synjar um leyfi er umsækjanda veittur 2 vikna frestur til andmæla.  Berist andmæli gefur Matvælastofnun sér 10 virka daga til að taka afstöðu til þeirra og tilkynna um endanlega ákvörðun. Berist ekki andmæli verður endanleg ákvörðun send umsækjanda innan 10 virkra daga frá því að andmælafrestur rann út.  Endanleg ákvörðun um leyfi eða synjun leyfis mun því liggja fyrir eigi síðar en 6 mánuðum frá því að umsókn telst hafa verið lögð fram

Áhættumat yfirvalds annars ríkis liggur fyrir

Í þeim tilfellum þar sem áhættumat yfirvalds annars ríkis á EES svæðinu vegna viðkomandi vöru hefur verið lagt fram með umsókn skal niðurstaða um fyrirhugaða ákvörðum Matvælastofnun um leyfi eða synjun leyfis kynnt umsækjanda eigi síðar en 2 mánuðum eftir að leyfisumsókn telst hafa verið lögð fram. Ef stofnunin synjar um leyfi er umsækjanda veittur 2 vikna frestur til andmæla. 

Umsókn telst hafa verið lögð fram þegar greiðsla fyrir forskoðun barst og öll gögn lágu fyrir að því gefnu að greiðsla fyrir mat á vöru hafi einnig borist. 

Berist andmæli gefur Matvælastofnun sér 10 virka daga til að taka afstöðu til þeirra og tilkynna um endanlega ákvörðun. Berist ekki andmæli verður endanleg ákvörðun send umsækjanda innan 2 vikna frá því að andmælafrestur rann út.  Endanleg ákvörðun um leyfi eða synjun leyfis mun því í slíkum tilfellum liggja fyrir eigi síðar en 3 mánuðum frá því að umsókn telst hafa verið lögð fram.

Kostnaður við umsóknir

Umsækjendur greiða allan kostnað við forskoðun og mat á umsóknum. Greitt er í samræmi við gjaldskrá. Ef ekki er greitt telst umsókn ekki hafa verið lögð fram. Hér að neðan má sjá kostnaðarliði vegna umsókna. Kostnaður fer eftir því hvort og til hve margra utanaðkomandi aðila þarf að leita vegna umsókna og hvort samskonar vara hefur verið metin áður.

Hér má sjá kostnaðarliði vegna umsóknar um leyfi vegna koffíns umfram hámarksgildi:

Aðgerð

Kostnaður

Athugasemd

Forskoðun og umsýsla  (2 klst)

19.635 kr.

Alltaf framkvæmt.

Áhættumat framkvæmt hjá Matvælastofnun  (8 klst)

78.540 kr.

Allt áhættumat framkvæmt hjá Matvælastofnun.  Umsagna ekki leitað hjá öðrum.

Áhættumat framkvæmt hjá Matvælastofnun - samskonar vara áður skoðuð (4 klst)

39.270 kr.

Einungis framkvæmt þegar samskonar/svipuð vara hefur áður verið metin.  Þá ekki leitað nýrra umsagna eða áhættumat gert frá grunni.

Áhættumat og mat á umsögn(um) ytri aðila (4 klst).

39.270 kr.

Einungis þegar leitað er umsagna ytri aðila.

Mat/skoðun á áhættumati frá stjórnvaldi annars ríkis (4 klst)

39.270 kr.

Ef slíkt áhættumat er lagt fram með umsókn.

Ritun rökstuðnings vegna ákvörðunar  (2 klst)

19.635 kr.

Alltaf framkvæmt.

Umsögn frá Rannsóknarstofu H.Í. í Næringarfræðum (8 klst)

98.400 kr.

Forskoðun ákvarðar hvort framkvæma þurfi þessa aðgerð.

Umsögn frá Embætti landlæknis (8 klst)

80.000 kr.

Forskoðun ákvarðar hvort framkvæma þurfi þessa aðgerð.

Umsögn frá Rannsóknarstofu H.Í. í lyfja- og eiturefnafræðum (8 klst)

115.864 kr.

Forskoðun ákvarðar hvort framkvæma þurfi þessa aðgerð.

 

 

Uppfært 03.10.2022
Getum við bætt efni síðunnar?