Fara í efni

Slefsýki í lömbum

Slefsýki er sjúkdómur í meltingarfærum lamba á fyrstu lífdögum þeirra, sem orsakast af smiti með E. coli bakteríum. Sjúkdómurinn er algengari á sauðfjárbúum þar sem þéttleiki er mikill á sauðburði og þar af leiðandi aukið smitálag. Allt að þriðjungur lamba getur veikst og dánartíðni hjá þeim sem veikjast er mjög há. Sjúkdómurinn kemur fyrst og fremst til vegna þess að lömbin fá ekki nógu snemma broddmjólk og/eða ekki í nægilegu magni. Þess vegna er sjúkdómurinn algengari í lömbum undan gemlingum, í tví- og þrílembingum og í lömbum undan þunnum eða annars lélegum ám sem mjólka lítið. Einnig hefur komið fram sú kenning að ær skili mismunandi magni af mótefni gegn kólí-sýkingum í móðurmjólkinni og getur það haft áhrif á hvaða lömb fá sjúkdóminn. Þetta gæti opnað á þann möguleika að ræktunarstarf gagnist í baráttunni gegn slefsýki í lömbum. Yfirleitt veikjast lömbin á fyrstu 12 til 72 klukkustundum lífs síns. Meðhöndlun er vandmeðfarin því framvinda sjúkdómsins er hröð, þess vegna eru fyrirbyggjandi aðgerðir mikilvægar.

Lömbin smitast þegar þau sjúga óhreina spena og eru haldin á óhreinum undirburði og þannig berast gram neikvæðar bakteríur í gegnum munn, þ.á.m. E. coli. Við skort á mótefnum í meltingarfærum, sem lömb fá í ríkum mæli í gegnum broddmjólk, geta bakteríurnar lifað af og fjölgað sér mjög hratt í meltingarfærunum. Bakteríurnar losa eiturefni, svokölluð inneitur (e. endotoxin), sem berast út í blóðið og valda þá dæmigerðum einkennum slefsýki.

Einkenni slefsýki eru að lömbin verða slöpp, köld, dauf, hengja haus og eyru lafa. Þau hætta að sjúga og kyngja, og slefa þess vegna áberandi. Veik lömb eru oft uppþembd og kviðmikil sem getur gefið falska vísbendingu um að þau séu södd, en þegar þau eru tekin upp og hrist varlega heyrist dæmigert hljóð úr gas- og vökvafylltri vinstur. Sum eru með niðurgang, önnur með eðlilegan saur eða hafa engar hægðir vegna þess að meltingarfærin eru hætt að starfa. Lömbin deyja venjulega innan sólahrings eftir að einkenni koma fram.

Sjúkdómsgreining byggist oftast á einkennum, sögu um sjúkdóminn á búinu og einkennum sem koma í ljós við krufningu, svo sem bólgur í meltingarfærum, vökva og þembu í vinstur og aðrar breytingar tengdar eiturefnum í blóði. Mismunagreiningar (aðrir sjúkdómar með svipuð einkenni) geta verið liðabólgur, naflabólgur, svelti (fara ekki á spena) og aðrar sýkingar í meltingarfærum.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Mikilvægast er að tryggja að lömbin fái nægjanlegan brodd eins snemma og hægt er, sem er almenn forvörn gegn sýkingum í nýfæddum lömbum. Þau þurfa að fá brodd innan tveggja klukkustunda eftir burð. Broddur inniheldur nauðsynleg mótefni gegn bakteríum á sérhverju búi fyrir sig. Bætiefni sem gjarnan eru gefin nýfæddum lömbum hafa ekki sömu ónæmisverndandi áhrif og broddur og koma því aldrei í staðinn fyrir hann. Lömbum þarf að líða vel því þannig drekka þau betur, því ætti ekki að marka lömb á fyrsta sólahringi. Einn liður í því að fyrirbyggja smit er að tryggja að spenar ánna séu hreinir þegar lömbin fara á spena. Óhreina spena er hægt að þvo t.d. með því að nota einnota þvottaklúta.

Aðstæður eru mjög ólíkar á búum, þess vegna er mikilvægt að ráðfæra sig við dýralækni búsins um fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru viðeigandi hverju sinni. Burðarstíur, ærnar sjálfar og öll tæki og tól þurfa að vera eins hrein og hægt er til að koma í veg fyrir að sjúkdómsvaldandi bakteríur berist í nýfædd lömb. Á markaði eru til sótthreinsandi efni til notkunar í gripahúsum, ýmist til að leysa upp í vatni (t.d. Virkon) eða sem notuð eru beint á duftformi (t.d. Staldren eða kalk).

Lélegur húsakostur, þrengsli og raki auka smitálag og því skal tryggja gott rými og góða loftræstingu í fjárhúsum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem veðurfar getur haft mikið að segja. Raki getur aukist í húsum þegar veður er ekki hagstætt með mikilli vætutíð eða stórviðri og erfiðara er að setja féð út. Þegar mjög heitt er í veðri getur það haft þau áhrif að smitálag aukist til muna. Mikilvægt er að rýmka á húsum jafnóðum, ef árferði leyfir, til að draga úr þrengslum og smitálagi sem af þeim leiðir. Halda skal undirlagi þurru og hreinu og reglulega skal skipt um undirburð. Handþvottur er mikilvægur og skal handþvottaaðstaða vera til staðar, helst með heitu vatni og hreinu handklæði/einnota þurrkum.

Ekki eru til bóluefni sérstaklega gegn E. coli sjúkdómum í sauðfé. Vorið 2022 munu nokkrir dýralæknar kanna virkni kólí-bóluefna, sem ætluð eru fyrir svín, í sauðfé.

Meðhöndlun

Nauðsynlegt er að meðhöndla veik lömb sem allra fyrst, en batahorfur minnka um leið og einkenni eins og slef koma fram. Hafa skal samband við dýralækni búsins þegar sjúkdómsins verður vart til að fá ráðleggingar og leiðbeiningar um meðhöndlun. Eins og kom fram hér að ofan þá er einungis leyfilegt að nýfæddum lömbum séu gefin sýklalyf eftir að slefsýki hefur komið upp í hópnum það vorið, þ.e. verndarmeðferð.

Um sýklalyfjaónæmi

Vaxandi ónæmi baktería gegn sýklalyfjum er áhyggjuefni og varðar alla. Mesta hætta á myndun sýklalyfjaónæmis er með óábyrgri notkun sýklalyfja, of mikilli eða rangri notkun. Takmarka þarf notkun þeirra eins og kostur er, því öll notkun sýklalyfja getur valdið sýklalyfjaónæmi. Mikilvægt er að koma í veg fyrir ofnotkun eða ranga notkun sýklalyfja, bæði í mönnum og dýrum, því bakteríur með ónæmi gegn sýklalyfjum geta borist milli manna, dýra og umhverfis. Reglugerð Evrópusambandsins um dýralyf, nr. 2019/6/EB, hefur verið innleidd með íslenskum dýralyfjalögum frá og með 15.febrúar 2022. Í þessum lögum er fyrirbyggjandi sýklalyfjanotkun í búfé bönnuð. Í undantekningartilfellum er leyfð svokölluð verndarmeðferð sýklalyfja þegar upp hefur komið hópsýking, sjá nánar um verndarmeðferð hér að neðan.

Sýklalyfjanotkun í sauðfjárbúskap

Í dag háttar svo til að einstök dýr eru verðlítil í almennum sauðfjárbúskap, því er oft ekki hagstætt fyrir sauðfjárbónda að greiða fyrir dýrar rannsóknir eða meðhöndlun dýralæknis ef upp koma sjúkdómar. Samkvæmt löggjöf er dýralæknum óheimilt að ávísa eða afhenda lyf nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu auk þess sem þeir verða sjálfir að hefja meðhöndlun með sýklalyfjum, en er svo heimilt að afhenda sýklalyf til framhaldsmeðhöndlunar. Á þessu er undantekning, dýralæknar geta fengið sérstaka undanþágu hjá yfirdýralækni, þannig að þeim verði heimilt að afhenda sýklalyf án þess að hefja meðhöndlunina. Yfirdýralæknir gefur eingöngu undanþáguna með því skilyrði að dýralæknirinn og viðkomandi bóndi geri með sér sérstakan samning, í þeim samningi er m.a. kveðið á um að viðkomandi bóndi skuli hafa samráð við dýralækninn áður en hann hefur meðhöndlun með sýklalyfjum. Ábyrgðin hvílir því áfram á dýralækninum um ábyrga notkun sýklalyfja, hann leggur því allt sitt traust á að viðkomandi bóndi haldi við hann samninginn og sé í góðu sambandi við hann um notkun.

Mikilvægt er að dýralæknar ávísi og/eða afhendi eins þröngvirk sýklalyf og kostur er. Einungis ætti að grípa til breiðvirkari sýklalyfja ef þröngvirk sýklalyf virka ekki og þá aðeins að undangenginni mælingu á næmi sýklanna nema þess sé ekki kostur. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um meðhöndlunartíma og skammtastærð, en auknar líkur eru á myndun sýklalyfjaónæmis í bakteríum ef of litlir skammtar eru gefnir í of stuttan tíma.

Ábyrg og markviss notkun sýklalyfja felur í sér að nota þau eingöngu í sjúk dýr og þá til að lækna. Í einstaka tilfellum gefur dýralæknir sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingar, t.d. eftir skurðaðgerðir. Sýklalyf eru stöku sinnum gefin heilum hópi dýra þegar einstök dýr innan hópsins hafa greinst með smitandi sjúkdóm og mikil hætta er á að önnur dýr geti smitast. Slík notkun kallast á ensku „metaphylactic use“, á íslensku verndarmeðferð.

Á undanförnum árum hefur verið mikið um að sýklalyf séu notuð fyrirbyggjandi gegn slefsýki í öll nýfædd lömb á mörgum búum ár hvert, með því að gefa svokallaðar „lambatöflur“. Með nýjum reglum er slík fyrirbyggjandi meðhöndlun bönnuð. Þess í stað ætti að einbeita sér að aðgerðum sem minnka líkur á að smit berist í nýfædd lömb og aðeins gefa þeim sýklalyf eftir að sjúkdómsgreining liggur fyrir í hópnum það vorið. Þessu eru gerð nánari skil hér að neðan. Fyrirbyggjandi notkun sýklalyfja felur í sér hættu á auknu sýklalyfjaónæmi eins og að ofan er rakið, því ofnotkun og röng notkun á sýklalyfjum eykur líkur á myndun ónæmis hjá bakteríum. Aðeins næst að draga úr útbreiddri notkun lambataflna í nýfædd lömb hér á landi með sameiginlegu átaki dýralækna og sauðfjárbænda. Stefna ætti að því að nota sýklalyf sem minnst og eingöngu þegar nauðsynlegt er eftir að sjúkdómurinn er kominn upp, og þegar fyrirbyggjandi aðgerðir hafa ekki borið árangur. Þess vegna er hér að ofan sérstaklega fjallað um slefsýki í lömbum og meðhöndlun sjúkdómsins, með sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja að smit berist í nýfædd lömb.

Ítarefni

Leiðbeiningar um ábyrga notkun sýklalyfja við slefsýki í lömbum - MAST 2022

Uppfært 05.04.2022
Getum við bætt efni síðunnar?