Fræ
Matvælastofnun hefur eftirlit með innflutningi og útflutningi á fræjum með hliðsjón af gæðaeiginleikum eins og hreinleika og spírunarhæfni. Ísland hefur innleitt reglur Evrópusambandsins um fræ nytjajurta og viðurkenningu yrkja og Matvælastofnun sér um að framfylgja þeim. Þótt smit vissra sjúkdóma geti borist með fræjum er sú hætta einkum fyrir hendi þegar um annars konar sáðvöru er að ræða s.s. útsæðiskartöflur, græðlinga og smáplöntur.
Innflutningur sáðvöru fellur undir reglugerð um eftirlit með sáðvöru með síðari breytingum. Sáðvara er skilgreind í reglugerðinni sem "Allt nytjajurtafræ sem ætlað er til garðræktar, túnræktar, grasflatagerðar, grænfóðurræktar, kornræktar, landgræðslu, iðnaðar eða til frekari fræræktar og er undir opinberu gæðaeftirliti".
Innflytjanda ber að tilkynna Matvælastofnun um innflutning á sáðvöru. Eftirfarandi gögn þurfa að berast til Matvælastofnunar til samþykkis áður en innflutningsleyfi er veitt:
- Tilkynning um innflutning á Þjónustugátt stofnunarinnar
- Gæðavottorð (Analysis certificate) um m.a. hreinleika og spírunarhæfni
- Vörureikningur