Fara í efni

Sýklalyfjaónæmi

Sýklalyf eru notuð til að meðhöndla sýkingar af völdum baktería í mönnum og dýrum. Ef sýklalyf missa virkni sína þá getur reynst erfitt að meðhöndla sýkingar í mönnum og dýrum, auk þess geta sýklalyfjaónæmar bakteríur síðan borist á milli manna, dýra og umhverfis, með beinum eða óbeinum hætti. Röng og óhófleg notkun á sýklalyfjum getur leitt til þess að bakteríur myndi ónæmi gegn þeim sýklalyfjum sem virkuðu áður á þær. Óhófleg notkun getur stafað af of mikilli ávísun sýklalyfja meðal lækna og dýralækna og aðgengi almennings að sýklalyfjum án lyfseðils, svo dæmi séu nefnd. Notkun sýklalyfja til meðhöndlunar á veirusýkingum og notkun sýklalyfja sem vaxtarhvetjandi efni fyrir búfé eru dæmi um ranga notkun sýklalyfja. Sýklalyfjanotkun í dýrum er með lægsta móti hérlendis í samanburði við önnur Evrópulönd en þrátt fyrir það er svigrúm til þess að gera enn betur. 

Allir hafa hlutverki að gegna í baráttunni við sýklalyfjaónæmi og berum við öll ábyrgð á því að leggja okkar af mörkum í þeirri baráttu. Bændur spila þar stórt hlutverk enda bera þeir ábyrgð á heilbrigði og velferð dýra sinna og það er lykilatriði er kemur að sýklalyfjanotkun í dýrum. 

Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hefur gefið út mikið upplýsingaefni vegna sýklalyfjaónæmis sem er m.a. beint að einstaka hópum hagsmunaaðila. Þar má nefna fræðsluefni ætlað bændum sem Matvælastofnun hefur gefið út á íslensku. Þar koma fram helstu upplýsingar um sýklalyfjaónæmi er varða bændur og hvað þeir geta innleitt í sínum störfum til að draga úr notkun á sýklalyfjum. Meðal annars koma þar fram hinar fimm „einungis“-reglur þar sem þessi atriði eru dregin saman á hnitmiðaðan hátt. Fræðsluefnið er hægt að nálgast hér og er hægt að prenta út og hafa í gripahúsum til áminningar. 

Á eftirfarandi veggspjöldum eru dregnar fram upplýsingar um sýklalyfjaónæmi og hvað bændur og dýraeigendur geta gert í baráttunni við sýklalyfjaónæmi. Smelltu á veggspjöldin til að kynna þér málið:

Veggspjald um sýklalyfjaónæmi           Veggspjald um sýklalyfjaónæmi

 

Ítarefni

Uppfært 09.04.2021
Getum við bætt efni síðunnar?