Aukaafurðir dýra - skráning á starfsemi
Allir þeir sem stunda viðskipti með aukaafurðir dýra og eru með lögheimili á Íslandi eiga að vera skráðir hjá Matvælastofnun.
Viðskipti, innflutningur og útflutningur
Kröfurnar um viðskipti í aukaafurðareglugerðinni gilda bæði fyrir:
- Viðskipti innan EES
- Útflutning/innflutning til eða frá landi utan EES.
Aðildaríki ESB og EES geta sett höft á innflutning vissra afurða.
Viðauki XIV í reglugerð um aukaafurðir dýra fjallar um innflutning frá löndum utan EES.
Skráning starfsstöðvar hjá Matvælastofnun
Í þjónustugátt Matvælastofnunnar er að finna rafræna umsókn 1.07 Skráning/Umsókn um vinnslu og/eða geymslu á aukaafurðum dýra.
Allar skráðar og samþykktar starfsstöðvar birtast á lista yfir starfsstöðvar á heimasíðu Matvælastofnunnar.
Aukaafurðir dýra – ABP
Samkvæmt 10. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli skulu matvælafyrirtæki haga starfsemi sinn í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt. Stjórnandi matvælafyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjónvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma skv. 8. gr. b. laga nr. 93/1995, um matvæli.
Reglur um almenna hollustuhætti er að finna í reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli og reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu.
Markmið löggjafar um hollustuhætti matvæla er að fyrirbyggja, sem frekast er unnt, framleiðslu á matvælum sem eru óhrein, spillt eða óörugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu og veita neytendum öfluga vernd með tilliti til öryggis matvæla. Samkvæmt 8. gr. a. laga nr. 93/1995, um matvæli er óheimilt að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu.
Í IX. kafla viðauka II í reglugerð nr. 852/2004/EB segir að matvælaframleiðendur skuli ekki taka við innihaldsefnum eða hráefnum, öðrum en lifandi dýrum, eða öðrum efnum, sem eru notuð við vinnslu varanna, ef vitað er að þau séu eða ætla má að þau séu menguð sníklum, sýklum eða eiturefnum, niðurbrotsefnum eða framandi efnum í þeim mæli að fullunna varan verði óhæf til neyslu þótt stjórnandi matvælafyrirtækisins hafi beitt eðlilegum, hollustusamlegum flokkunaraðferðum og/eða undirbúnings- eða vinnsluaðferðum.
Jafnframt segir að hráefni og öll innihaldsefni, sem eru geymd í matvælafyrirtæki, skulu geymd við viðeigandi skilyrði sem varna því að þau spillist eða mengist, sem og að á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar skulu matvælin varin gegn mengun sem líklegt er að geri þau óhæf til neyslu, skaðleg heilsu eða svo menguð að ekki er eðlilegt að telja þau hæf til neyslu í því ástandi.
Þá segir að hráefni, innihaldsefni og hálfunnar og fullunnar vörur, sem líklegt er að stuðli að fjölgun sjúkdómsvaldandi örvera eða myndun eiturefna skulu ekki geymd við hitastig sem getur haft heilbrigðisáhættu í för með sér. Kæling matvæla skal vera órofin.
Í reglugerð nr. 853/2004/EB segir varðandi lagarafurðir að við aðgerðir á borð við hausun og slægingu skuli fylgja reglum um hollustuhætti. Ef unnt er, í tæknilegu og viðskiptalegu tilliti, að slægja afurðirnar skal það gert eins skjótt og unnt er eftir veiði og löndun þeirra. Ef fiskur er hausaður og/eða slægður um borð skal það gert skv. reglum um hollustuhætti og sem fyrst eftir veiði og skulu afurðir strax þvegnar vandlega með drykkjarhæfu vatni eða hreinu vatni. Þegar svo er skulu innyfli og þeir hlutar af fisknum sem gætu verið heilsuspillandi, skilin frá sem fyrst og haldið aðskildum frá afurðum sem eru ætlaðar til manneldis. Lifur og hrogn, sem ætluð eru til manneldis, skal geyma undir ís. Matvælastofnun hefur litið svo á að þessi meðferð eigi við um meðferð afla/hráefnis bæði um borð í fiskiskipum og við hausun og slægingu á landi.
Ef litið er til skilgreiningar á slógi þá er um að ræða líffæri fiska sem skilin eru frá kviðarholinu þegar fiskur er slægður. Slóg inniheldur lifur, hrogn, svil, gallblöðru, maga og skúflanga. Ljóst er því að nýting slógs skv. framangreindri skilgreiningu er heimil við matvælavinnslu, svo framarlega sem meðferð hráefnisins sé í samræmi við hollustuhætti sem kveðið er á um í lögum um matvæli og reglugerðum settum á grundvelli laganna.
Það verður þó að gera þann fyrirvara á notkun á slógi við matvælavinnslu að matvælafyrirtæki er óheimilt að taka við hráefnum ef vitað er að þau séu eða ætla má að þau séu menguð af sníklum, sýklum eða eiturefnum, niðurbrotsefnum eða framandi efnum í þeim mæli að fullunnin vara verði óhæf til neyslu þótt beitt hafi verið eðlilegum, hollustusamlegum flokkunaraðferðum og/eða undirbúnings- eða vinnsluaðferðum. Ljóst er að innihald meltingavegar fellur hér undir og af þeim sökum verður að gera kröfu um að innihald meltingavegar sé skilið frá ef nýta á aðra hluta slógsins til matvælavinnslu.
Ef slíkur aðskilnaður er ekki gerður hjá viðkomandi matvælafyrirtæki þar sem hráefnið fellur til þarf að flokka það sem aukaafurðir dýra og aðskilja frá öðru hráefni sem nota á við matvælavinnslu og merkja sem aukaafurðir dýra.
Í inngangsorðum reglugerðar (EB) 1069/2009 um aukaafurðir dýra segir að mikilvægt sé að ákveða upphafspunkt á vistferli aukaafurða úr dýrum þar sem kröfurnar í reglugerðinni taka gildi. Þegar hráefnið telst vera orðið aukaafurð úr dýrum má það ekki koma aftur inn í matvælaferlið.
Í 4. gr. reglugerðarinnar segir að um leið og aukaafurðir úr dýrum eða afleiddar afurðir, sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar, verða til hjá rekstraraðilum skulu þeir auðkenna þær og sjá til þess að farið sé með þær í samræmi við þessa reglugerð (upphafspunktur). Í þessu felst skv. 2. mgr. 4. gr. að rekstraraðilar skulu, innan fyrirtækja undir sinni stjórn, sjá til þess á öllum stigum söfnunar, flutnings, meðferðar, meðhöndlunar, ummyndunar, vinnslu, geymslu, setningar á markað, dreifingar, notkunar og förgunar að aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir uppfylli þær kröfur í reglugerð nr. 1069/2009/EB.
Í þessu felst að þó slóg (hluti þess) sé hæft til manneldis þá er ekki heimilt að nýta það sem hráefni til matvælaframleiðslu eftir að búið er að taka tilgreina það sem aukaafurðir dýra. Við slíkan upphafspunkt gildir regluverkið um aukaafurðir dýra um hráefnið, þ.m.t. að hráefnið sé merkt sem slíkt og að viðskiptaskjöl séu gefin út í samræmi við 1069/2009/EB þegar hráefnið er sent frá viðkomandi vinnsluaðila til 3ja aðila.
Fyrir liggja fordæmi þar sem reynt hefur á heimildir Matvælastofnunar til að stöðva nýtingu á slógi sem innihélt innihald meltingavegar við matvælaframleiðslu. Í úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 10. janúar 2013 staðfesti ráðuneytið ákvörðun stofnunarinnar varðandi móttöku matvælafyrirtækis á hráefni sem innihélt hryggi, hausa og slóg (innyfli með innihaldi meltingavegar) samblandað í kari.
Matvælastofnun byggði ákvörðun sína á að slíkt hráefni væri óhæft til manneldis og slíkt hráefni sem félli úr matvælakeðjunni yrði ekki talið hæft til manneldis að nýju – engu breytti þótt endanleg afurð kynni að vera án hættulegra örvera. Ráðuneytið féllst á röksemdir stofnunarinnar með svohljóðandi rökstuðningi; „Ráðuneytið telur að notkun hráefnisins, þar sem blandað er saman hrygg, haus og innyflum í fiskikari og það flutt með því móti, uppfylli ekki kröfur laga. Líkindi séu fyrir því að slík matvæli spillist. Þegar innihald meltingavegar fisks blandast við þann hluta, sem ætlað er til manneldis, þá spillir það matvælunum bæði með meltingarensímum og miklu magni örvera. Það flýtir einnig mjög fyrir niðurbroti sem flýtir rotnun og þar með skemmdum. Meðhöndlun af þessu tagi veldur því að varan, sem unnin er úr hráefninu, er mun líklegri til þess að valda matareitrunum vegna örvera sem berast í flök og hausa við meðhöndlun og vinnslu.“
Matvælafyrirtæki er því óheimilt að nýta hráefni sem hefur mengast af innihaldi meltingavegar eða þar sem líkindi eru fyrir að slík mengun hafi átt sér stað.
Með vísan til framangreinds er gengið út frá því að innihald meltingavegar hafi ekki verið skilið frá öðru hráefni/öðrum líffærum í slógi sem hæft er til matvælavinnslu eða að hráefnið sé mengað af innihaldi meltingavegar.
Þeim starfsstöðvum einum er heimilt að taka við aukaafurðum dýra til frekari vinnslu sem hafa til þess starfsleyfi skv. 13. gr. laga nr. 25/1993 og eru á lista Matvælastofnunar yfir samþykktar starfsstöðvar til slíkrar vinnslu.
Starfsstöðvar sem einungis eru með leyfi til matvælaframleiðslu skv. lögum nr. 93/1995 er því óheimilt að taka við aukaafurðum dýra til frekari vinnslu, þ.m.t. slóg með innihaldi meltingavegar, hráefni sem mengast hefur af innihaldi meltingavegar og öðru hráefni sem aðrir framleiðendur hafa skilgreint sem aukaafurðir dýra.