Fara í efni

Kína - útflutningur matvæla

Fyrir framleiðendur:

Kínversk yfirvöld setja ströng skilyrði fyrir erlenda framleiðendur matvæla sem ætla að flytja afurðir sínar til Kína. 
Allir erlendir framleiðendur matvæla þurfa að skrá sig í CIFER (China Import Food Enterprises Registration) undir Single Window gáttinni áður en þeir hefja útflutning til Kína.
Matvælastofnun hefur milligöngu um skráningu framleiðenda af ákveðnum afurðum.

Listi yfir samþykkta erlenda framleiðendur

Fyrir útflytjendur:

Erlendur útflytjendur matvæla þurfa einnig að skrá sig sem slíkir hjá kínverskum yfirvöldum. Nánar um þá skráningu hér neðar á síðunni.
Matvælastofnun hefur ekki milligöngu um þessa skráningu.

Ábyrgð

Matvælastofnun leggur áherslu á ábyrgð framleiðenda að kynna sér vel það regluverk sem gildir í Kína varðandi erlenda framleiðendur og matvæli. Það er á ábyrgð framleiðenda að uppfylla allar kröfur. Á þessari síðu má nálgast ýmsar upplýsingar varðandi kröfur Kínverja og skráningarferlið.

Matvælastofnun er það stjórnvald á Íslandi sem ber ákveðna ábyrgð á eftirliti með þeim sem hyggjast flytja matvæli til Kína.
GACC (General Administration of Customs of the People's Republic of China) er það stjórnvald í Kína sem fer með umsjón með málaflokknum.

Flokkar matvæla

Framleiðendum er bent á að nota upplýsingar úr kínversku tollskránni til að ákvarða í hvaða afurðarflokk þeirra afurðir falla. Eftirfarandi flokkun er notuð til ákvörðunar um hvers konar skráning í CIFER sé nauðsynleg. Sjá nánar í Tilskipun 248.

Mikil áhætta

Matvælastofnun hefur milligöngu um skráningu Í CIFER

Samningur um afurð er forsenda útflutnings

Meðal áhætta

Matvælastofnun hefur milligöngu um skráningu í CIFER

Athugið hvort samningur um afurð sé forsenda útflutnings

Lítil áhætta

Fyrirtæki sjá sjálf um skráningu í CIFER

Kjöt og kjötafurðir
Lagarafurðir (sjávar og ferksvatns-afurðir)
Mjólkurafurðir
Hreiður

Garnir

Býafurðir
Egg og eggjaafurðir
Olíur og fitur
Fyllt brauðmeti
Korn
Malað korn og malt
Ferskt og þurrkað grænmeti og þurrkaðar baunir
Óristaðar kaffibaunir kakóbaunir
Bragðbætar (condiment)
Hnetur og fræ
Matvæli fyrir sérstaka hópa (special dietary purpose)
Functional foods (heilsufæði)

Vörur sem eru ekki flokkaðar með mikla eða meðal áhættu eru álitnar með litla áhættu. Framleiðendur þeirra afurða sækja sjálfir um leyfi til útflutnings til Kína í CIFER Single Window.

Framleiðendur þurfa auk þess að vera með viðskiptaaðila (innflytjanda) í Kína og þau tengsl þarf að skrá sérstaklega. Matvælastofnun kemur ekki að þessari skráningu.

Samþykktar afurðir og samningar

Listi yfir samþykktar afurðir (lagarafurðir)

Aðeins má flytja til Kína afurðir af þeim tegundum sem tilgreindar eru í lista yfir samþykktar afurðir. Listinn er í höndum kínverskra yfirvalda og byggist á sögu um viðskipti með afurðir og/eða umsóknum Íslands um viðbætur á listann.
Á árinu 2025 var nýr samningur um villtar sjávarafurðir undirritaður, um heimild til útflutnings af öllum afurðum úr jurta- og dýraríkinu sem teljast hæfar til manneldis og eru veiddar, uppskornar eða þeim safnað á íslensku hafsvæði.

Samningar

Framleiðendur skulu kanna hvort milliríkjasamningur sé nauðsynlegur grundvöllur fyrir útflutningi afurða þeirra til Kína. Samningar sem þegar eru í gildi milli Íslands og Kína eru um:

Villtar sjávarafurðir
Eldisafurðir
Lambakjöt
Fiskimjöl og lýsi
Ull

Umsókn - nýskráning

Starfsleyfi á Íslandi

  • Fyrirtæki sem hafa ekki starfsleyfi til framleiðslu á Íslandi byrja á því að sækja um starfsleyfi í þjónustugátt MAST eða hjá heilbrigðiseftirlitinu í sínu umdæmi.

Útflutningsleyfi til Kína

  • Framleiðendur með starfsleyfi á Íslandi sækja um skráningu til leyfis til útflutnings til Kína hjá Matvælastofnun  - Umsókn 4.36 í þjónustugátt Matvælastofnunar

Umsókn í Single Window

  • Matvælastofnun veitir framleiðanda aðgang að CIFER Single Window skráningarkerfinu. Aðeins einn aðgangur er búinn til fyrir hvert starfsstöðvarnúmer.
  • Framleiðendur skrá inn ýmsar upplýsingar um fyrirtækið og hlaða inn gögnum sem óskað er eftir s.s. teikningum, starfsleyfi, yfirlýsingu o.fl.
  • Allar upplýsingar og gögn þurfa að vera á ensku eða kínversku.
  • Matvælastofnun þarf að samþykkja umsókn í CIFER áður en umsóknin er send til GACC í Kína til yfirferðar

Gátlisti

  • Framleiðendur skulu fara yfir  gátlista sem vísar í viðeigandi reglur í Kína. Þessum gátlista þarf að svara og hann skal undirritaður af ábyrgðarmanni fyrirtækisins. Matvælastofnun staðfestir upplýsingarnar og áframsendir gátlistann til yfirvalda Kína þegar umsóknin telst fullunnin.
  • Framleiðendur þurfa að kynna sér vel þær kröfur sem eru gerðar eru í Kína til erlendra framleiðenda.

Úttekt

  • Matvælastofnun gerir úttekt á fyrirtækinu skv. kínverskum kröfum með áðurnefndan gátlista til grundvallar. Niðurstaða úttektarinnar ákvarðar hvort Matvælastofnun mæli með skráningu fyrirtækisins við kínversk yfirvöld eða hvort þurfi að gera lagfæringar áður. Þegar fyrirtækið telst uppfylla allar kröfur og allar upplýsingar eru til staðar í umsókninni er umsóknin send til kínverskra yfirvalda, með fylgigögnum.
  • Allur tilfallandi kostnaður af úttektinni greiðist af umsækjanda.

Myndbandsúttekt

  • Í einhverjum tilfellum munu kínversk yfirvöld óska eftir myndbandsúttekt á umsækjendum.
  • Umsækjandi þarf þá að standa straum af kostnaði t.d. vegna tækjaleigu eða annars svo hægt sé að framkvæma myndbandsúttektina á viðeigandi hátt.

Umsókn samþykkt - leyfi veitt

  • Þegar kínversk yfirvöld hafa samþykkt fyrirtækið fær fyrirtækið kínverskt skráningarnúmer og kemst á lista yfir samþykkta erlenda framleiðendur

Umsókn um breytingu

  • Þegar þarf að breyta þarf skráðum upplýsingum í CIFER þarf að sækja um breytingu á leyfi (modification application).
  • Athugið að í ákveðnum tilfellum dugar ekki að sækja um breytingu heldur gæti þurft að sækja um nýskráningu, s.s. ef vinnsla er flutt í nýtt húsnæði eða við aðrar meiriháttar breytingar.

Umsókn um endurnýjun

  • Skráning erlendra framleiðenda í CIFER gildir í fimm ár í senn. Þremur til sex mánuðum áður en leyfið rennur út þurfa framleiðendur að sækja um endurnýjun á leyfinu sínu.
  • Upplýsingar um gildistíma skráninga má t.d. nálgast á ciferquery.singlewindow.cn 
  • Með endurnýjunarumsókn þarf að fylgja ný  yfirlýsing frá framleiðanda (e. declaration of conformity for continued registration, hægt að nálgast inn í CIFER) og útfylltur og undirritaður gátlisti.

Merkingar

Framleiðendum er bent á að kynna sér vel þær kröfur sem gerðar eru um merkingar í Kína.

Tilskipun 249 fer m.a. yfir þær kröfur sem eru gerðar til merkinga ákveðinna afurðaflokka, bæði innri og ytri umbúða.

Lög og reglugerðir

Gott að hafa í huga

Þegar farið er inn á CIFER birtist heimasíðan á kínversku, en hægt er að velja tungumál með hnappi í efra hægra horninu. Gott er þó að þýða heimasíðuna yfir á ensku, t.d. með Google translate tóli.

Inni í CIFER kerfinu er nýjasta útgáfa af handbók með leiðbeiningum ávallt aðgengileg.

Skráning útflytjenda 

Í september 2024 tilkynnti kínverska tollgæslan (GACC) uppfærslu á skráningarkerfi fyrir erlenda útflytjendur og kínverska innflytjendur matvæla til Kína. Annarsvegar er um að ræða nýtt 18-stafa skráningarnúmer fyrir fyrirtæki og hins vegar nýja vefslóð fyrir nýskráningu:

18-stafa skráningarnúmer fyrir tollafgreiðslu í Kína: Allir erlendir útflytjendur og kínverskir innflytjendur skulu nota 18-stafa númer við tollafgreiðslu innfluttra matvæla til Kína. Þeir sem eru þegar skráðir geta fundið nýju 18-stafa skráningarnúmerin sín á vef kínversku tollgæslunnar hér

Listinn yfir íslenska útflytjendur matvæla til Kína birtist á þessari slóð þegar númerið „322“ er slegið inn í reitinn „Land/Svæði“ og smellt er á síðasta hnappinn til hægri við reitinn „Skráningarnúmer“.

Tveir nýir skráningartenglar: Þeir sem hafa ekki skráð sig geta sótt um skráningarnúmer á netinu á annarri hvorri af tveimur vefsíðum kínversku tollgæslunnar: singlewindow.cn eða online.customs.gov.cn

Hvorugur þessara tengla er á ensku. Kínverskur innflytjandi eða umboðsmaður útflytjandans verður einnig að skrá sig, og er því farsælast að íslenski útflytjandinn biðji viðkomandi aðila um aðstoð við skráninguna.

Fyrra skráningarkerfið er ekki lengur í gildi (ire.customs.gov.cn)

Uppfært 06.01.2026
Getum við bætt efni síðunnar?