Fara í efni

Samið við Rússnesk stjórnvöld um útflutning á kjöti og fiski

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á matvælasýningunni Grüne Woche í Berlín 16. janúar sl. undirrituðu Jón Gíslason forstjóri Matvælastofnunar (MAST) og Sergey A. Dankvert forstjóri rússnesku matvæla- og dýraheilbrigðisstofnunarinnar (Rosselkhoznadzor) samninga vegna útflutnings á kjöti og fiski til Rússlands. Það er mikill áfangi og hagsmunamál fyrir íslenska framleiðendur að samningur hefur náðst um útflutning á kjöti og í honum felst viðurkenning á öryggi landbúnaðarafurða og opinberu eftirliti hér á landi. Samningur um fisk kemur í stað eldra samkomulags sem starfað hefur verið eftir, en sem nú nær einnig yfir fiskimjöl og eldisfisk.


Jón Gíslason og Sergey A. Dankvert
  Samkvæmt gerðum samningum mun MAST bera ábyrgð á opinberu eftirliti með íslenskum framleiðslu- og útflutningsfyrirtækjum og útbúa lista yfir þau fyrirtæki sem viðurkennd eru til útflutnings. Útflutningur getur hafist þegar rússnesk stjórnvöld hafa veitt formlegt samþykki fyrir listum sem MAST gefur út og þeim opinberu vottorðum sem skulu fylgja vörunum. Samþykki fyrir listum og vottorðum vegna sjávarafurða liggur fyrir, en unnið er að  frágangi mála vegna útflutnings á kjöti og fiskimjöli. Sjö sláturhús hafa þegar verið sett á lista hjá MAST vegna útflutnings á hrossa- og lambakjöti.

Samningarnir gera ráð fyrir að sérfræðingar frá Rosselkhoznadzor komi til Íslands eftir að útflutningur hefst til að staðfesta að framleiðendur og útflytjendur uppfylli skilyrði samkvæmt rússneskum heilbrigðiskröfum. Komi í ljós að svo er ekki getur útflutningsheimild hlutaðeigandi fyrirtækis fallið úr gildi þar til MAST hefur staðfest að úrbætur hafi verið gerðar. Rússneskir sérfræðingar hafa komið til landsins vegna eftirlits með fyrirtækjum í sjávarútvegi og von er á sambærilegu eftirliti með sláturhúsum og vinnslum sem þeim tengjast.

Aðdragandi að samningum við rússnesk stjórnvöld er nokkur og hefur MAST m.a. útbúið ítarleg gögn fyrir Rosselkhoznadzor um stöðu dýraheilbrigðis og matvælaöryggis á Íslandi. Að málinu hafa einnig komið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti, sendiráð landanna bæði hér og í Moskvu og hagsmunaaðilar sem hafa áhuga á viðskiptum við Rússland á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar.


Getum við bætt efni síðunnar?