Fara í efni

Kattaeyðniveira

Kattaeyðniveiran (e. Feline immunodeficiency virus) er þekkt bæði hjá köttum og villtum kattardýrum. Veiran veldur ónæmisbælingu og er landlæg um allan heim. Ógeldir högnar sem ganga úti eru í mestri smithættu. Bóluefni gegn veirunni var sett á markað árið 2002 en það veitir ekki vörn gegn öllum stofnum veirunnar. Þegar köttur hefur smitast losnar hann aldrei við veiruna.

Orsök: Lentivirus / Feline immunodeficiency virus

Meðgöngutími: Mjög langur, allt að nokkur ár.

Einkenni: Veiran (líkt og HIV) veldur lækkun á T frumum og bælir þar með ónæmiskerfið og dregur úr viðnámi kattarins við sýkingum og hrörnunarsjúkdómum. Helstu einkenni FIV smitaðra katta er hiti og eitlastækkun stuttu eftir smit en svo því getur liði langur tími þar til ber á öðrum einkennum, frá nokkrum mánuðum og allt upp í fimm ár. En þá fara að koma fram einkenni af völdum ónæmisbælingar, þ.e. ýmsar sýkingar en að lokum verða slíkar sýkingar allsráðandi og kötturinn þrífst illa. Algeng einkenni eru hiti, lystarleysi, þyngdartap, tannholdsbólga og krónískar sýkingar í húð, augum, þvagfærum og efri öndunarfærum. Kettirnir eru oft með slæman feld og krónískan niðurgang og í sumum tilfellum koma fram taugakvillar og atferlisbreytingar. Rannsóknir hafa þó bent til þess að FIV smit hafi ekki marktæk áhrif á lífaldur katta.

Smitleið: Helsta smitleið veirunnar er með biti. Pörun er ekki mikilvæg smitleið né heldur smit í móðurkviði. Ekki er mikil hætta á smiti á milli katta sem eru á sama heimili og deila matardöllum og sandkössum ef ekki er um að ræða slagsmál á milli kattanna. Rannsóknir hafa sýnt að FIV smit á heimilum þar sem margir kettir búa, er óalgengt. Ógeldir högnar sem ganga úti eru í mestri hættu á að smitast þar sem þeir eru líklegri til að lenda í slagsmálum.

Útbreiðsla: Kattaeyðniveiran er landlæg um allan heim en greindist fyrst árið 1987 (hefur líklega verið til staðar hjá húsköttum síðan 1966). Algengi er á bilinu 3-5% (rannsóknir í USA og í Kanada) en töluvert hærra á meðal veikra katta (allt að 43,9%).

Greining: Mótefnamæling eða veirugreining úr blóðsýnum. Á markaði eru sk. snap test fyrir bæði FeLV og FIV sem henta ágætlega þegar skimað er fyrir sjúkdómunum.

Meðhöndlun: FIV-jákvæðir kettir eru sjaldan sjúkdómsgreindir fyrr en einkenni af völdum sjúkdómsbælingar koma fram. Meðferð felst í því meðhöndla sýkingarnar sem koma í kjölfar ónæmisbælingarinnar en það getur reynst erfitt. Mikilvægt er að halda köttunum í þannig umhverfi að lítil hætta sé á sýkingum og álag er sem minnst. Best væri að halda þeim inni og láta þá hafa sem minnst samskipti við aðra ketti (og önnur dýr sem geta borið með sér sýkingar).

Uppfært 14.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?