Fara í efni

Smitandi lífhimnubólga í köttum

Smitandi lífhimnubólga í köttum (e. Feline infectious peritonitis) er ónæmistengdur sjúkdómur en megin orsakavaldur er kórónaveira kattarins. Smitandi lífhimnubólga er óalgeng en finnst um allan heim, þar á meðal á Íslandi (greindist fyrst hérlendis í júní 1998).

Orsök: Coronaviridae / Feline coronavirus

Meðgöngutími: Frá nokkrum vikum upp í mánuði eða ár.

Einkenni: Í flestum tilfellum veldur smit með kórónaveiru (Fcov) engum eða vægum einkennum (frá meltingar- og/eða öndunarfærum) og kötturinn myndar mótefni og losar sig við veiruna. Hjá litlum hluta katta sem smitast stökkbreytist veiran (FipV) og/eða ónæmissvörunin verður óeðlileg. Í þessu samhengi hefur heilsufar og aðbúnaður/stress áhrif. Veiran berst um líkamann með hvítum blóðkornum og veldur mikilli bólgusvörun m.a. í kvið, nýrum og í heilavef. Þessi óeðlilega ónæmissvörun er skýringin á sjúkdómseinkennunum. Þegar kötturinn hefur þróað með sér sjúkdóminn og áhrifa gætir meðal eins eða fleiri líffærakerfa verður framvindan hröð og nánast alltaf banvæn. Sjúkdómsmyndirnar eru tvær; annars vegar vökvasöfnun í holrúmum líkamans (effusive/wet FIP) og hins vegar bólguhnútar í líffærum (noneffusive/dry FIP). Fyrri sjúkdómsmyndin er mun bráðari en sú seinni og einkennin greinilegri. Kettlingar eða eldri kettir auk þeirra sem eru ónæmisbældir m.a. af völdum FeLV eru í mestri hættu á að fá FIP eftir smit með Fcov.

Smitleið: Veiran smitast á milli katta beint eða óbeint og er algengari þar sem margir kettir eru saman í heimili, einnig á kattahótelum og athvörfum. Algengasta smitleiðin er frá móður til kettlinga. Veiran skilst út í mestu magni í upphafi sýkingar en sumir kettir verða heilbrigðir smitberar. Veiran getur auk þess lifað í umhverfinu í nokkrar vikur.

Útbreiðsla: Kórónaveirur eru mjög útbreiddar. Sjúkdómurinn finnst um allan heim.

Greining: Örugg greining fæst með skoðun vefjasýna (granuloma).

Meðhöndlun: Stuðningsmeðferð getur bætt líðan og lengt líf katta með smitandi lífhimnubólgu en sjúkdómurinn er í flestum tilfellum banvæn. Bóluefni gegn FIP er á markaði erlendis en er ekki í mikilli notkun þar sem það gagnast eingöngu þeim köttum sem hafa aldrei smitast af kórónaveiru. Því þyrfti að gera mótefnamælingu fyrir bólusetningu. Rannsóknir standa yfir á veirulyfjum til meðhöndlunar á FIP.

Uppfært 14.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?