Fara í efni

Kattaflensa

Kattaflensa (e. Feline rhinotracheitis) er ein algengasta orsök öndunarfærasýkinga í köttum og er einn þeirra sjúkdóma þeirra sem fellur undir hið sk. feline respiratory disease complex.

Orsök: Herpesviridae / Felid alphaherpesvirus 1

Meðgöngutími: 2-5 dagar

Einkenni: Helstu einkenni eru frá efri öndunarfærum og augum; útferð úr nefi og augum (conjunctivitis/keratitis), hnerri, lystarleysi, hiti og slappleiki. Veikindin standa að jafnaði yfir í 4-7 daga en tækifærissýkingar geta viðhaldið einkennum í nokkrar vikur.

Smitleið: Veiran er skilin út í munnvatni og nef- og augnaútferð og berst beint á milli katta eða óbeint með menguðum ílátum, teppum o.þ.h. en veiran er óstöðug og lifir eingöngu í 1-2 daga í umhverfinu. Kettir geta smitað í 3 vikur eftir smit. Eftir smit er veiran til staðar í taugahnoðu þrenndartaugar og kettirnir verða heilbrigðir smitberar. Við ónæmisbælingu (veikindi eða notkun barkstera) hefst smitdreifing á ný og kötturinn getur fengið væg einkenni sjúkdómsins.

Útbreiðsla: Kattaflensa finnst um heim allan, einnig á Íslandi en bólusett hefur verið við sjúkdómnum á Íslandi frá því árið 1986.

Greining: Veirugreining (stroksýni af augnslímhúð, nefi eða munni).

Meðhöndlun: Alla jafna er ekki þörf á meðhöndlun, nema ef um er að ræða ónæmisbælda einstaklinga eða tækifærissýkingar sem valda alvarlegri öndunarfæraeinkennum, sérstaklega hjá kettlingum. Þá felst meðhöndlun í stuðningsmeðferð.

Uppfært 14.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?