Fara í efni

Kattakvef

Caliciveira er algeng orsök öndunarfærasýkinga í köttum sem veldur kattakvefi (e. feline calicivirus). Sjúkdómurinn er bráðsmitandi og algengur þar sem margir kettir koma saman, t.d. í kattaathvörfum og á heimilum með marga ketti. Kattakvef er einn þeirra sjúkdóma þeirra sem fellur undir hið sk. feline respiratory disease complex (fjölþátta öndunarfærasýking) en um er að ræða sjúkdóma sem valda nefslímubólgu, kinnholubólgu, augnslímhúðarbólgu og sáramyndun í munni. Meginsmitefnin eru kattaherpesveira (feline viral rhinotracheitis, FHV-1) og  caliciveira en Chlamydia felis, Mycoplasma felis, Chlamydia psittaci og aðrar mycoplasmategundir koma einnig við sögu.

Orsök: Vesivirus / Feline calicivirus

Meðgöngutími: 2-6 dagar

Einkenni: Útferð úr nefi og augum og sáramyndun í munni, á tungu, gómi, vörum eða trýni. Útferð er fyrst glær en getur orðið gulleit og þykk þegar líður á veikindin. Sárum í munni fylgja aukin munnvatnsmyndun og slef. Mikil eymsli geta fylgt sárunum. Önnur ósértæk einkenni eru lystarleysi, slappleiki, hækkaður líkamshiti og stækkaðir eitlar. Algeng er að kettirnir hnerri og píri augun. Veikindin geta varað í 2-3 vikur.

Smitleið: Bráðsmitandi og berst hratt á milli katta sem umgangast. Veiran berst beint eða óbeint með útferð úr nefi, augum og munni. Með hnerra getur veiran borist marga metra. Veiran getur lifað í umhverfinu í viku og jafnvel lengur við aðstæður þar sem er svalt og rakt. Eftir að veikindin eru gengin yfir geta kettir verið smitberar í nokkra mánuði en nokkur prósent katta verða smitberar alla ævi.

Útbreiðsla: Kattakvef finnst í köttum allan heim, einnig á Íslandi þar sem ætla má að það hafi verið landlægt í áratugi. Bólusett hefur verið við sjúkdómnum á Íslandi frá því um 1986.

Greining: Veirugreining (stroksýni af augnslímhúð, nefi eða munni).

Meðhöndlun: Alla jafna er ekki þörf á meðhöndlun, nema ef um er að ræða ónæmisbælda einstaklinga eða tækifærissýkingar sem valda alvarlegri öndunarfæraeinkennum, sérstaklega hjá kettlingum.

Uppfært 14.01.2020
Getum við bætt efni síðunnar?