Fara í efni

Fuglainflúensa

Fuglainflúensa (fuglaflensa) á Íslandi

Frá því í lok júni 2024 er ekkert viðbúnaðarstig vegna fuglainflúensu í gildi. Óvissustig sem tók gildi í desember 2023 hefur verið aflétt. Litlar líkur eru á smiti í villtum fuglum.

Í alifuglum greindist skæð fuglainflúensa síðast í apríl 2022. Verndarsvæði sem voru skilgreind í kringum sýkta búið voru í gildi til 20. júní 2022. Engin verndar- eða eftirlitssvæði eru nú í gildi. Verndar- og eftirlitssvæði eru birt í landupplýsingakerfi MAST og sjást með því að velja Sjúkdómar - Fuglaflensa alifuglar. 

Niðurstöður sýna úr veikum eða dauðum villtum fuglum má finna í mælaborði MAST.

Hnappur mælaborð sýni úr villtum fuglum grár

 

Hvað á að gera ef alifuglar eða aðrir fuglar í haldi sýna einkenni fuglainflúensu eða finnast dauðir? 

Grunsamleg veikindi og óeðlileg aukin dauðsföll í alifuglum og öðrum fuglum í haldi skal tilkynna án tafar til Matvælastofnunar. Best er að tilkynna með því að hringja í skiptiborð MAST í síma 530 4800 eða í héraðsdýralækni í umdæminu. Utan opnunartíma skal hafa samband við sjálfstætt starfandi dýralækni á vakt.

Hvað á að gera ef villtur fugl finnst veikur eða dauður?

Þegar villtur fugl finnst veikur eða dauður, skal tilkynna hann til MAST, nema ef augljóst er að hann hafi drepist af slysförum. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, en líka er hægt að hringja í síma 530 4800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Æskilegt er að fá myndir og upplýsingar um fuglategund, fjölda fugla og fundarstað með hnitum.

Hræ skal látið liggja nema ef það er þannig staðsett að nauðsynlegt sé að fjarlægja það. Ef það er gert skal hræið sett í plastpoka, án þess að það sé snert með berum höndum, lokað fyrir pokann og hann síðan settur í almennt rusl. Ef viðkomandi sveitarfélag býður uppá förgunarleið fyrir lífrænan úrgang má setja hræið í niðurbrjótanlegum poka í söfnunarílát fyrir slíkan úrgang.

Finnist veikur fugl í neyð í nærumhverfi manna skal:

 • gæta þess að koma ekki mjög nálægt eða handleika fuglinn nema með góðum einstaklings sóttvörnum svo sem með því að nota einnota hanska og veiruhelda grímu
 • tilkynna strax um hann til viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélaginu er skylt að bregðast við út frá dýravelferðarsjónarmiðum í samræmi við lög um velferð dýra (nr. 55/2013). Sveitarfélög eru ábyrgð fyrir því að koma villtum dýrum í neyð til aðstoðar eða sjá til þess að þau séu aflífuð. Helst er mælt með að sveitarfélag kalli til dýralæknir til aflífunar á sjáanlega veikum dýrum eða að dýrin verði aflífuð með öðrum mannúðlegum hætti, sem ekki eykur áhættu á dreifingu á smitefni (skot, höfuðhögg eða blóðgun gæti aukið smitdreifingu). Ef sveitarfélagsskrifstofur eru lokaðar getur almenningur beint erindinu til lögreglu. Boð eftir dýralækni til hjálpar villtu dýri í neyð þarf að koma frá sveitarfélagi eða lögreglu, nema ef viðkomandi ætlar sjálfur að greiða fyrir útkallið.

Hvað gerir MAST við tilkynningu um veikan eða dauðan villtan fugl?

Allar ábendingar eru skráðar. MAST metur síðan hvort taka skuli sýni eða ekki til vöktunar á fuglainflúensu. Matið byggist m.a. á því um hvaða fuglategund er að ræða og hvar fuglinn finnst. Ekki er ástæða að taka sýni úr öllum fuglum sem finnast en mikilvægt er samt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningar.

Upplýsingar um sýni sem tekin eru og niðurstöður úr þeim má sjá í mælaborð MAST um niðurstöður sýna úr villtum fuglum

Allar greiningar á skæðri fuglainflúensu eru tilkynntar til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar WOAH og eru skráðar í evrópska gagnagrunninn um dýrasjúkdóma ADIS (Animal disease information system). Til viðbótar skilur MAST reglulega skýrslu til Matvælaöryggisstofnunarinnar Evrópu (EFSA) um vöktun á fuglainflúensu og niðurstöður vöktunnar. EFSA gefur úr ársfjórðungslegar skýrslur um fuglainflúensu í Evrópu.

Almennt um fuglainflúensu

Fuglainflúensa er bráðsmitandi smitsjúkdómur í fuglum, sem getur einnig stöku sinnum komið upp í spendýrum og mönnum. Sjúkdómurinn er tilkynningaskyldur samkvæmt lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og samkvæmt reglugerð nr. 52/2014 um tilkynningar- og skráningaskylda dýrasjúkdóma. Orsakavaldur eru margar gerðir af inflúensu A veirum, sem hafa þróast þannig að þær smita fyrst og fremst fugla. Þessar veirur finnast í einkennalausum villtum fuglum um allan heim. Þegar alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berst í alifugla sýkist oft stór hluti fuglanna og margir drepast. Fuglainflúensuveirur eru skyldar öðrum inflúensuveirum sem eru aðlagaðar sinni tegund, t.d. mönnum, hundum eða svínum. Inflúensuveirur hafa sérstaka hæfileika til að breytast, t.d. með því að skiptast á erfðaefni við aðrar gerðir inflúensuveira.

Fuglainflúensuveirur eru flokkaðar eftir mótefnavökum á yfirborði þeirra, sem eru auðkenndir með bókstöfunum H og N. Veirurnar eru líka flokkaðar eftir því hversu alvarlegri sýkingu þær valda í fuglum. Veirur sem valda alvarlegum einkennum og hárri tíðni dauðsfalla í smituðum fuglahópi kallast skæð fuglainflúensa (e. highly pathogenic avian influenza, HPAI). Fuglainflúensuveirur sem valda yfirleitt litlum einkennum kallast væg fuglainflúensa (e. low pathogenic avian influenza, LPAI). Eftir stökkbreytingu hafa einstaka fuglainflúensuveirur, t.d. af gerðunum H5N1 og H7N9, öðlast eiginleika til að geta sýkt önnur dýr og fólk. Smitun verður aðallega við snertingu við fugla eða fugladrit, ekki við neyslu afurða.

Sjúkdómseinkenni og staðfesting smits

Meðgöngutími er 1-5 daga fyrir hænsnfugla og kalkúna.

Sjúkdómseinkenni vægrar fuglainflúensu í alifuglum eru venjulega væg. Sýktir alifuglar geta sýnt einkenni í öndunarfærum, þeir hósta og hnerra. Í varphænum og stofnfuglum getur varpið minnkað. Sýkingartíðni og tíðni dauðsfalla eru oft lágar nema sýktir fuglar séu einnig haldnir öðrum sjúkdómum.

Almenn sjúkdómseinkenni skæðrar fuglainflúensu í alifuglum geta verið:

 • Slappleiki
 • Úfinn fiðurhamur
 • Bólginn haus,. blámi á húð
 • Öndunarerfiðleikar, hósti, hnerri
 • Niðurgangur
 • Blæðingar í húð á fótum eða kambi og sepum
 • Aukin dauðsföll, aukning um meira en 2% á síðustu 14 dögum

Viðmið fyrir kjúklinga og varphænur haldin í atvinnuskyni geta verið:

 • Minnkun á vatnsnotkun um 10% á þremur dögum
 • Minnkun á fóðurnotkun um 5% á þremur dögum
 • Í varpfuglum getur verið aukning á óeðlilegum eggjum með afmyndaða skurn eða á eggjum án skurnar um meira en 3%.

Einkenni skæðrar fuglainflúensu eru misjöfn eftir tegundum alifugla. Endur og gæsir til dæmis sýkjast sjaldnar og geta verið mjög væg einkenni.

Nauðsynlegt er að staðfesta smit í fuglahópi sem sýnir grunsamleg einkenni með sýnatökum og rannsókn sýna á öryggisrannsóknarstofunni á Keldum.

Vöktun Matvælastofnunar

Alifuglar og aðrir fuglar í haldi manna

Vöktun á fuglainflúensu í alifuglum hér á landi fer fram með því að skima reglubundið fyrir fuglainflúensuveirum í einkennalausum fuglahópum og með stöðugri vöktun eigenda alifugla á sjúkdómseinkenni í þeim.

Matvælastofnun fylgist einnig grannt með útbreiðslu fuglainflúensu í heiminum, sér í lagi í löndum þar sem farfuglar landsins hafa vetursetu. Upplýsingar um greiningar og útbreiðslu smits er m.a. að finna á vef Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar WOAH, tilvísunarrannsóknarstofu ESB fyrir fuglainflúensu (IZSVe), á mælaborði Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) og á vef Animal and Plant Health Agency í Bretlandi.

Í skýrslu Eftirlitsniðurstöður - Skimanir vegna smitsjúkdóma í dýrum má finna upplýsingar um niðurstöður reglubundinnar vöktunar á fuglainflúensu í alifuglum hér á landi.

Í landupplýsingakerfi MAST má finna upplýsingar um greiningar í alifuglum ásamt gildandi  verndar- og eftirlitssvæði.

Villtir fuglar

Þegar aukin hætta er á að alvarleg afbrigði fuglainflúensuveiru berist til landsins með farfuglum er mikilvægt að vakta sjúkdóminn í villtum fuglum. Almenningur getur tekið virkan þátt í vöktuninni með því að tilkynna um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum nema ljóst sé að fuglinn hafi drepist af slysförum. Áhættumatshópur um fuglainflúensu tekur ákvörðun um sýnatökur, sjá nánar í kafla um áhættumat.

Niðurstöður skimunar á alvarlegu afbrigði fuglainflúensu í villtum fuglum má finna í mælaborð Matvælastofnunar:

Áhættumat

Áhættumatshópur um fuglainflúensu

Allt frá árinu 2017 hefur hópur sérfræðinga fundað reglulega um fuglainflúensu. Fyrst í stað var megin viðfangsefni hópsins að meta líkur á að skæð afbrigði fuglainflúensuveira bærust til landsins og hvernig best væri að vakta tilvist þeirra í villtum fuglum. Frá árinu 2022, þegar skæðar fuglainflúensuveirur fóru að greinast reglulega í villtum fuglum á landinu, hefur hlutverk hópsins snúist meira um að meta líkur á útbreiðslu veiranna og hættu á að þær berist í alifugla. Hópurinn metur einnig þörf á sýnatökum og sérstökum sóttvarnaaðgerðum á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir hverju sinni. Auk þess er hópurinn í stöðugum samskiptum og samstarfi við erlendar stofnanir og rannsóknarhópa. Sérgreinadýralæknir alifugla hjá Matvælastofnun er formaður hópsins.

 • Í hópnum eru:
  • Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir alifugla á Matvælastofnun
  • Auður Lilja Arnþórsdóttir, sérgreinadýralæknir smitsjúkdóma og faraldsfræði á Matvælastofnun
  • Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
  • Stefán Ragnar Jónsson, veirufræðingur á Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
  • Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Áhættumat

Við mat á líkum á að alvarleg afbrigði fuglainflúensuveira berist hingað til lands er litið til ýmissa þátta svo sem hvort alvarlegt afbrigði fuglainflúensu hafi greinst í fuglum í löndum sem farfuglarnir koma frá og ef svo er þá hversu mikið er um sýkingar, hvaða fuglategund og afbrigði veirunnar er að ræða, til hvaða aðgerða hefur verið gripið í löndunum o.s.frv.

Líkur á að fuglainflúensuveirur berist í alifugla og aðra fugla í haldi hér á landi er metnar á grundvelli þess hvort alvarleg afbrigði fuglainflúensuveira séu til staðar í villtum fuglum hér á landi, og ef svo er þá hvar á landinu, í hvaða fuglategundum og hversu útbreidd þau eru. Jafnframt er litið til gæða sóttvarna á þeim stöðum sem fuglar eru haldnir.

Viðbúnaðarstig

Matvælastofnun hefur skilgreint þrjú viðbúnaðarstig vegna fuglainflúensu, sem byggjast á því hversu mikil hætta er talin á að fuglainflúensuveirur berist í alifugla, aðra fugla í haldi, spendýr eða fólk. Áhættumatshópur um fuglainflúensu metur áhættuna reglulega á grundvelli ýmissa fyrirliggjandi þátta.

  • Óvissustig: Miðlungs líkur eru á að alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berist í alifugla, aðra fugla í haldi, spendýr eða fólk í landinu
  • Hættustig: Miklar líkur eru á að alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berist í alifugla, aðra fugla í haldi, spendýr eða fólk í landinu
  • Neyðarstig: Grunur er um fuglainflúensu eða hún staðfest í alifuglum, öðrum fuglum í haldi, spendýrum eða fólki í landinu

Óvissustig

Staða

Miðlungs líkur eru á að alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berist í alifugla, aðra fugla í haldi, spendýr eða fólk í landinu, samkvæmt mati áhættumatshóps um fuglainflúensu.

Viðbrögð

Matvælastofnun:

Vekur athygli á áhættunni með fréttatilkynningu og hvetur fuglaeigendur til að auka sóttvarnir.

Fuglaeigendur:

 • Forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla
 • Gæta þess að fóður og drykkjarvatn sé ekki aðgengilegt villtum fuglum
 • Halda fuglahúsum vel við
 • Tilkynna til Matvælastofnunar um aukin og grunsamleg veikindi og dauðsföll í alifuglum og öðrum fuglum í haldi
 • Eigendur alifuglabúa með 250 fugla eða fleiri eiga auk þess ávallt að uppfylla skilyrði um smitvarnir, sem tilgreind eru í reglugerð 88/2022 um velferð alifugla

Almenningur:

Tilkynnir um fund á veikum og dauðum villtum fuglum til Matvælastofnunar, nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla

Hættustig

Staða

Miklar líkur eru á að alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berist í alifugla, aðra fugla í haldi, spendýr eða fólk í landinu, samkvæmt mati áhættumatshóps um fuglainflúensu.

Viðbrögð

Matvælastofnun

 • Leggur til við ráðherra að fyrirskipaðar verði tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglainflúensa berist í alifugla, aðra fugla í haldi, spendýr eða fólk, annað hvort á tilteknum svæðum eða á öllu landinu
 • Skipuleggur og framkvæmir aukið eftirlit og sýnatökur.

Fuglaeigendur

 • Fylgja fyrirmælum Matvælastofnunar og þeim reglum sem settar hafa verið með auglýsingu í Stjórnartíðindum.
 • Tilkynna til Mast um aukin og grunsamleg veikindi og dauðsföll í alifuglum og öðrum fuglum í haldi
 • Helstu varúðarráðstafanir á þessu stigi eru sem hér segir:
  • Að fuglarnir séu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum
  • Að góður aðskilnaður sé milli alifugla og villtra fugla
  • Að hús og gerði séu fuglaheld
  • Að ekkert sé í umhverfi fuglahúsa sem laði að villta fugla
  • Að hattar séu settir á allar lóðréttar loftræstitúður á fuglahúsum, nema þar sem um er að ræða útblásturstúður vélrænnar loftræstingar
  • Að fuglanet sé sett fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum
  • Að öllum óviðkomandi sé bannaður aðgangur að fuglahúsum
  • Að allir sem sinna fuglunum noti hlífðarfatnað, og þvoi og sótthreinsi hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna
  • Að endur og gæsir séu aðskildar frá hænsnfuglum
  • Að fóður og drykkjarvatn fuglanna sé ekki aðgengilegt villtum fuglum
  • Að drykkjarvatnsból séu vel frágengin þannig að ekki berist í þau yfirborðsvatn og fugladrit
  • Að ekki séu haldnar sýningar og aðrar samkomur með fugla
  • Að fuglar séu ekki fluttir milli staða nema vitað sé að heilsufar fugla á báðum stöðum sé gott
  • Að allir flutningar á fuglum séu skráðir, hvenær flutningur fór fram og hvert og hvaðan þeir voru fluttir
  • Að öllum úrgangi úr fuglahúsum sé fargað þannig að ekki stafi smithætta af honum

Almenningur

 • Tilkynnir um fund á veikum og dauðum villtum fuglum til Matvælastofnunar, nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla

Neyðarstig

Staða

Grunur er um fuglainflúensu eða hún staðfest í alifuglum, öðrum fuglum í haldi eða spendýrum.

Viðbrögð

Matvælastofnun

 • Vinnur eftir viðbragðsáætlun Matvælastofnunar vegna alvarlegra dýrasjúkdóma
 • Leggur til við ráðherra að fyrirskipaðar verði tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja útbreiðslu, annað hvort á tilteknum svæðum eða á öllu landinu (hafi það ekki þegar verið gert)
 • Leggur til við ráðherra að fyrirskipaðar verði aðgerðir til útrýmingar sjúkdómsins. Helstu aðgerðir eru sem hér segir:
  • Aðgerðir á smituðu búi
   • Allir alifuglar og aðrir fuglar í haldi eru aflífaðir á mannúðlegan hátt
   • Hræjum, úrgangi og búnaði sem ekki er hægt að sótthreinsa, er fargað á tryggilegan hátt
   • Nákvæm þrif og sótthreinsun á smituðu búi eru framkvæmd
   • Minnst 21 dagur þarf að líða áður en nýir fuglar eru settir inn á búið
  • Almennar aðgerðir
   • Smit er rakið
   • Áhættubú og bann-, verndar- og eftirlitssvæði eru skilgreind
  • Aðgerðir á áhættubúum og svæðum
   • Vöktun er aukin
   • Sóttvarnir eru auknar, svo sem:
    • Einangrun fugla
    • Takmörkun á flutningi alifugla, mögulega smitaðra bifreiða og fólks

Fuglaeigendur

 • Fylgja fyrirmælum Matvælastofnunar um sóttvarnir og aðrar ráðstafanir til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins
 • Veita aðstoð við þær sóttvarnaaðgerðir sem fyrirskipaðar eru
 • Útvega upplýsingar vegna rakningar smits
 • Aðstoða við aflífun þegar það á við
 • Sjá um þrif og sótthreinsun samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar
 • Aðstoða við að fjarlægja úrgang og koma honum á urðunarstað

Almenningur

 • Tilkynnir um fund á veikum og dauðum villtum fuglum til Matvælastofnunar, nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla
 • Fylgja fyrirmælum Matvælastofnunar um sóttvarnir á tilteknum svæðum

Velferð alifugla í hænsnakofum/bakgörðum

Það þarf að huga að velferð alifugla, meðan þeir þurfa að vera haldnir innandyra, svo þeir séu rólegir og þeim líði vel.

 • Fylgstu vel með heilbrigði fuglanna
 • Tryggðu þeim nóg pláss og nægilegan aðgang að fóðri og fersku og hreinu vatni
 • Tryggðu þeim aðgang að hreinum og þurrum undirburði
 • Gættu vel að loftræstingu
 • Gefðu þeim möguleika á að hafa eitthvað að gera, til að minnka hættu á fjaðraplokki. Þú getur gert það með því að bera undir nýjan undirburð og með því að setja í húsið hálmbagga og setprik. Þú getur dreift fóðri og fræi á gólfið til að örva fuglana að krafsa og róta í undirburðinum.
 • Tryggðu fuglunum dagsbirtu. Það skal ekki halda þeim í myrkri eða stöðugri birtu. Þar sem ekki er hægt að tryggja þeim dagsbirtu, skal lýsingin vera eins og sólargangurinn.

Leiðbeiningar um veiðar á villtum fuglum

Við núverandi aðstæður er ekki talin ástæða til að banna fuglaveiðar hér á landi vegna smithættu í fólk. Það afbrigði fuglainflúensuveirunnar sem nú er mest um í Evrópu og víðar veldur almennt ekki sýkingum í fólki. Einstaka smit hafa komið upp en þá hjá einstaklingum sem hafa verið í miklu návígi við sjúka fugla án þess að gæta sóttvarna. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því mjög litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum. Engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglainflúensu við neyslu matvæla.

Rétt er að taka fram að það afbrigði fuglainflúensunnar sem finnst í fuglum í dag er ekki sama afbrigði og var í gangi fyrir tæpum 20 árum og olli alvarlegum veikindum í fólki.

Veiðar og verkun fugla

Mögulegt smit berst fyrst og fremst með saur, dropasmiti eða ryki í öndunarfæri fólks. Þau tilfelli sem hafa greinst í fólki er hægt að rekja til aðstæðna þar sem það hefur orðið útsett fyrir miklu veirumagni í ryki eða loftdropum.

Veiðimenn ættu að gera eftirfarandi varúðarráðstafanir til að draga úr hættu á mögulegu smiti:

 • Ávallt skal gæta smitvarna við handfjötlun á veikum og sjálfdauðum fuglum og tilkynna þá til Matvælastofnunar.
 • Ekki skal veiða fugla og nýta til matar sem haga sér óeðlilega eða eru sjáanlega veikir/slappir. Ef fuglinn sýnir óeðlilega hegðun getur það verið merki um að dýrið sé veikt. Þó skal það tekið fram að heilbrigðir fuglar geta líka verið smitaðir af fuglainflúensu.
 • Ávallt skal gæta sóttvarna við meðhöndlun og verkun fuglanna.
  • Mikilvægt er að sápuþvo hendur í volgu vatni. Hægt er að nota handspritt (70%) eftir að sjáanleg óhreinindi á höndum hafa verið fjarlægð.
  • Nota hanska og grímu.
  • Verka fuglana í vel loftræstu umhverfi og forðast skal að anda að sér ryki, fjöðrum og loftdropum. Ef fuglarnir eru verkaðir innandyra og/eða í illa loftræstu umhverfi ætti að nota veiruhelda grímu (FFP3 grímu). Gott væri að skola fuglana fyrir reytingu (sem sagt rykbinda) til að minnka rykmengun eða velja frekar að hamfletta þá. Ef unnið er utandyra, ætti að hafa vindinn í bakið.
  • Forðast beina snertingu við blóð, saur og aðra líkamsvessa frá fuglunum.
  • Verkandi ætti ekki að snerta augu eða andlit á meðan meðhöndlun fuglanna fer fram. Gott er að nota öryggisgleraugu ef hætta er á skvettum eða til að forðast að nudda.
  • Ekki borða, drekka eða reykja á sama tíma.
  • Halda börnum og gæludýrum frá efnum og svæðum sem gætu verið menguð.
  • Fjarlægja og þvo strax fatnað, skófatnað og annan búnað sem getur verið mengaður af blóði, saur eða öðrum líkamsvessum frá fuglunum.
  • Mikilvægt að þrífa og sótthreinsa áhöld og umhverfi vel eftir verkun.
  • Þeim hlutum fuglanna sem ekki á að nýta til matar má henda í plastpoka með heimilissorpinu. Ef viðkomandi sveitarfélag býður uppá förgunarleið fyrir lífrænan úrgang má setja hræið í niðurbrjótanlegum poka í söfnunarílát fyrir slíkan úrgang.

Dæmi eru um það erlendis að villt spendýr (t.d. minkar og refir) hafi greinst með fuglainflúensu (H5N1) og því ættu veiðimenn villtra spendýra einnig að gæta sóttvarna við meðhöndlun þeirra.

Neysla fuglakjöts

Engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglainflúensu við neyslu matvæla, aðeins við mikið návígi við sjúka fugla. Fólk þarf þó ætíð að líta svo á að hrátt fuglakjöt geti verið mengað af sjúkdómsvaldandi örverum og meðhöndla skal kjötið með tilliti til þessa.

 • Gæta skal fyllsta hreinlætis við matreiðslu.
  • Halda hráu kjöti og líffærum aðskildum frá öðrum matvælum til að forðast krossmengun.
  • Þvo oft hendur, þar á meðal fyrir og eftir meðhöndlun á hráu fuglakjöti.
  • Hreinsa vandlega menguð áhöld og vinnufleti með heitu sápuvatni og nota síðan sótthreinsiefni.
 • Huga skal að því að kjötið sé nægilega eldað.
  • Eldun, eins og steiking, drepur veiruna, að því gefnu að kjarnhiti kjötsins sé yfir 70 °C.
  • Með köldum eða hálfheitum reykingum er hitastigið það lágt að ekki er öruggt að örverur drepist. Sama gildir um grafið kjöt.

Matvælastofnun vill brýna fyrir veiðimönnum að gæta sérstaklega að því að bera ekki smit frá villtum fuglum yfir í aðra fugla, s.s. bakgarðshænsni og alifuglabú.

Leiðbeiningar fyrir æðarbændur

Tilfelli í Evrópu

Tilvísunarrannsóknastofa ESB fyrir fuglainflúensu (IZSVe) birtir reglulega yfirlit yfir greiningar sem tilkynntar eru til ESB í gegnum skráningarkerfið ADIS. Í yfirliti frá 9. maí 2022 kemur fram að greiningar á hinu skæða afbrigði H5N1 hafa verið tilkynntar í 3156 villtum fuglum síðan í október 2021. Aðeins eitt sýni er tilgreint að hafi verið úr æðarfugli en tekið skal fram að í mörgum tilfellum er ekki skráð nákvæmlega um hvaða andartegund er að ræða.

Yfirlit yfir tilfelli í villtum fuglum á Bretlandseyjum af þessu skæða afbrigði fuglainflúensuveirunnar má finna á heimasíðu DEFRA. Þar eru fimm tilfelli í æðarfugli skráð, öll frá tímabilinu 24.4.-1.5.2022, fjögur á Hjaltlandseyjum og eitt í Moray á Skotlandi.

Til viðbótar er vakin athygli á rannsóknum frá 2016 þar sem mótefni voru mæld í heilbrigðum æðarfuglum á þremur varpsvæðum í Danmörku. Í því úrtaki reyndust 12% æðarfugla vera með mótefni gegn H5 eða H7 fuglainflúensuveirum (Lam o.fl., 2020). En það skal tekið fram að meinvirkni veiranna er ekki tiltekið, þ.e.a.s. ekki er vitað hvort um hefur verið að ræða hið skæða afbrigði veirunnar sem nú geisar.

Sóttvarnir

Forvarnir gegn smitsjúkdómum felast fyrst og fremst í að gæta fyllsta hreinlætis í umgengni við æðarfuglinn. Þessar leiðbeiningar fjalla um smitvarnir við daglega umhirðu í æðarvarpi, bæði fyrir fólk og æðarfugla.

Sóttvarnir fyrir fólk

 1. Smithætta á fuglainflúensu fyrir fólk er almennt talin lítil. Þrátt fyrir það er ávallt rétt að gæta almenns persónulegs hreinlætis við daglega umhirðu,  sem m.a. felur í sér góðan handþvott eftir umgengi við fuglana, sbr. upplýsingasíðu Mast um fuglainflúensu.
 2. Ef vart verður við veikindi eða aukin dauðsföll í æðarfuglum eða öðrum villtum fuglum er mælt með að nota að minnsta kosti veiruhelda grímu og einnota hanska.

Sóttvarnir fyrir æðarfugla

 1. Tryggja skal að óhreinindi berist ekki milli æðarvarps og búfjár, þeim báðum til varnar. Því er aðgæsla brýn þegar æðarbændur umgangast jafnframt annað búfé, sér í lagi alifugla.
 2. Varúðarráðstafanir geta m.a. falist í að nota sérstaka galla eða önnur hlífðarföt, stígvél og einnota hanska. Jafnframt er ráðlagt að nota sérstaka poka, áhöld og tæki í æðarvarpinu. Að öðrum kosti getur þvottur og sótthreinsun á fötum og búnaði tryggt hreinlæti .
 3. Þörf er sérstakrar aðgæslu þegar um er að ræða gestkomandi í varpi, bæði innlenda og erlenda gesti eða  farandverkafólk og við heimsóknir á milli æðarvarpa, ekki síst frá varplandi þar sem sýking hefur komið upp.
 4. Veiðimenn sem sinna vargeyðingu og fara á milli varpa verða að sýna sérstaka aðgæslu.
 5. Hundar (og önnur spendýr) geta borið smit á milli staða, meðal annars með því að bera sýkt hræ með sér.
 6. Aðilar sem taka að sér hreinsun dúns þurfa að gæta sérstaklega að því að sótthreinsa poka eða senda ekki poka á milli æðarvarpa.

Viðbrögð við grun

 1. Tilkynna skal tafarlaust til Matvælastofnunar ef veikur eða dauður villtur fugl finnst, óháð tegund.
 2. Fjarlægja dauða fugla. Afar mikilvægt er að gæta þess að dreifa ekki smiti. Hræ á helst að setja í tvöfalda sterka plastpoka til að koma í veg fyrir leka. Þegar Matvælastofnun hefur metið þörf á sýnatöku og úrskurðað að ekki skuli tekin sýni, skal koma hræjum á þar til gerða staði sveitarfélagsins. Þá er mikilvægt að hræið sé í plastpoka til að draga úr líkum á að ránfuglar og hræætur komist á hræið á sorphaugnum. Gæta skal persónulegra sóttvarna þegar hræ er tekið upp með því að setja hræið í plastpoka, án þess að það sé snert með berum höndum.
 3. Við eftirlit á varpsvæðum er hægt að minnka smithættu fyrir æðarfuglana með því að byrja eftirlit á svæði með heilbrigðum fuglum og enda þar sem vart hefur orðið við dauðsföll eða veikindi. Forðast skal að ganga til baka nema að undangenginni hreinsun fatnaðar, skófatnaðar, handa og áhalda.
 4. Með því að fjarlægja hræ minnka líkur á að aðrir fuglar smitist og beri smit á önnur svæði. Ránfuglar virðast vera líklegri en æðarfuglar til að veikjast af fuglainflúensu, þar sem greiningar fuglainflúensuveira H5N1 í dauðum ránfuglum veturinn 2021/22 hafa verið mun algengari en í æðarfuglum.
 5. Aðgerðir eins og að fæla fugla frá sýktum svæðum og/eða drepa fugla eru mjög umdeildar og þarf að meta sérstaklega áður en til þeirra er gripið. Með því að fæla fugla frá sýktum svæðum leita þeir annarra varpstaða og auka þannig hættu á smitdreifingu. Þetta skal ekki gert nema í samráði við og að fengnu samþykki Náttúrufræðistofnunar.

Fleiri spurningar og svör

Hvað er skæð fuglainflúensa? 

Orsök skæðrar fuglainflúensu (Highly Pathogenic Avian Influenza eða HPAI) er inflúensuveira sem fyrst og fremst berst fugla á milli. Þegar talað er um skæða fuglainflúensu er átt við að afbrigðið af veirunni er mjög sjúkdómsvaldandi fyrir fugla og veldur mögulega hárri dauðatíðni meðal þeirra, þ.e. hefur mikla meinvirkni (e. highly pathogenic) .  

Getur fólk fengið fuglainflúensu? 

Það afbrigði af fuglainflúensuveirunni sem nú er mest um í Evrópu og víðar veldur almennt ekki sýkingum í fólki. Einstaka smit hafa komið upp en þá hjá einstaklingum sem hafa verið í miklu návígi við sjúka fugla án þess að gæta sóttvarna. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því mjög litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum. Dauða fugla er hægt að handleika með því að nota einnota hanska og setja í plastpoka eða með því að stinga hendi í plastpoka og taka fugl upp með pokanum, draga pokann yfir og loka. Forðast ætti að koma of nálægt veikum lifandi fuglum nema vera með einnota hanska og veiruhelda grímu, sjá leiðbeiningar undir liðnum um hvað eigi að gera ef veikur villtur fugl finnst.

Rétt er að taka fram að það afbrigði fuglainflúensunnar sem er að finnast í fuglum í dag er ekki sama afbrigði og var í gangi fyrir tæpum 20 árum og olli alvarlegum veikindum í fólki.

Hvernig dreifist veiran? 

Villtir fuglar eiga mikinn þátt í útbreiðslu fuglainflúensuveirunnar sem nú er mest um í Evrópu og víðar.  Hún hefur greinst í fjölmörgum tegundum af villtum fuglum. Veiran berst frá fuglunum með driti og frá öndunarvegi með dropasmiti. Alifuglar sem eru úti eru í mestri hættu á að smitast en veiran getur líka borist með fólki, fóðri, tækjum og tólum í fugla sem eru innandyra. 

Má fóðra villta fugla? 

Já þeir sem ekki eiga sjálfir fugla, en gefa villtum fuglum reglulega fóður geta haldið því áfram, en ættu að forðast beina snertingu við fuglana og drit frá þeim.  Mikilvægt er að þvo hendur með sápu og vatni eftir snertingu við fóðurbretti og annað sambærilegt.  Fuglaeigendur ættu hins vegar að gæta þess að ekkert í nærumhverfi fuglanna dragi að villta fugla.

Getur fólk smitast af fuglainflúensu við neyslu fuglakjöts og eggja? 

Engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglainflúensu við neyslu matvæla, aðeins við mikið návígi við sjúka fugla. 

Fólk þarf þó ætíð að líta svo á að hrátt kjöt og hrá egg geti verið menguð af sjúkdómsvaldandi örverum. Ávallt ber því að meðhöndla hrátt kjöt og hrá egg m.t.t. þessa og gæta fyllsta hreinlætis við matreiðslu, koma í veg fyrir krosssmit í matvæli sem eru tilbúin til neyslu og huga að því að kjötið og eggin séu nægilega vel elduð/hituð.

Geta kettir eða önnur gæludýr smitast af fuglainflúensu?

Litlar líkur eru smiti í gæludýrum frá villtum fuglum. Það afbrigði fuglainflúensuveirunnar sem nú er útbreiddast í Evrópu og víðar smitast aðallega á milli fugla.

Ítarefni