Fara í efni

Hættulega efnið dínítrófenól er enn til sölu sem fitubrennsluefni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun varar við notkun á efninu 2,4-dínítrófenól (e. Dinitrophenol, kallað DNP) sem er enn verið að nota í fæðubótarefni í megrunartilgangi (svokallað „fat burner“). Efnið hefur valdið að minnsta kosti 13 dauðsföllum í Bretlandi síðan 2015 og vitað er um eitt dauðsfall í Þýskalandi. Yfirvöld í Bretlandi hafa upplýst í gegnum RASFF (evrópska viðvörunarkerfið fyrir matvæli og fóður) að netsala efnisins, sem er bannað að selja til manneldis, hefur aukist að undanförnu og er það verulegt áhyggjuefni.

Efnið 2,4-dínítrófenól eða DNP er mjög eitrað. Það er notað m.a. við framleiðslu á viðarvörn, litarefnum, varnarefnum og sprengjuefni og er því á markaði í þeim tilgangi. Lengi hefur verið vitað að efnið DNP stuðlar að þyngdartapi hjá fólki og er það selt á netinu í þeim tilgangi, sem fæðubótarefni, undir mörgum mismunandi heitum. Það er hins vegar ólöglegt að selja DNP til manneldis vegna alvarlegra aukaverkana sem því fylgja og geta leitt til dauða.

DNP hefur áhrif á efnaskipti líkamans á þann hátt að í stað þess að orka sé nýtt af frumum líkamans eða varðveitt þar, þá breytist hún í varma. Við þetta hækkar líkamshiti og getur hann hækkað það mikið að það dragi einstaklinginn til dauða. Fyrstu einkenni eitrunar eru svitamyndun, vöðvaverkir, hraður púls, hár hiti og öndunarerfiðleikar. Einstaklingar bregðast mjög mismunandi við efninu og erfitt er að spá fyrir um hvernig hver og einn bregst við og hvaða skammtur er öruggur. Sumir geta fengið alvarlegar aukaverkanir með inntöku lítils magns af efninu. Það er því engin örugg skammtastærð!

Þrátt fyrir hættuna hefur DNP náð vinsældum meðal fólks sem stundar vaxtarækt og einnig er vitað að efnið er notað af einstaklingum, sem þjást af átröskun og/eða hafa áhyggjur af þyngdaraukningu. Þeir sem kynna og selja efnið gera í mörgum tilvikum lítið úr skaðlegum áhrifum DNP.

Samkvæmt 8. gr. matvælalaga er óheimilt að markaðssetja matvæli sem eru ekki örugg til neyslu þ.e. heilsuspillandi. Matvæli/fæðubótarefni sem innihalda DNP er því óheimilt að flytja inn og markaðssetja á Íslandi. Það sama gildir í Evrópu og í flestum löndum í heiminum. Þrátt fyrir að efnið sé bannað og hættulegt til inntöku hafa bresk yfirvöld tilkynnt að efnið hafi, á undanförnum mánuðum, verið selt til a.m.k. 13 einstaklinga í Bretlandi og á Írlandi. Þar sem efnið er selt á internetinu er ekki útilokað að íslenskir neytendur hafi keypt vörur sem innihalda efnið.

Ráðleggingar til neytenda

Matvælastofnun hvetur neytendur til að kaupa ekki vörur sem innihalda dínítrófenól eða neyta þeirra, þar sem þær geta verið mjög hættulegar heilsu fólks. Einkennandi litur á DNP er sterkgulur. Leitið strax til læknis ef þið hafið tekið inn efnið og einkenni koma fram. Athugið að engin skammtastærð er örugg!

Matvælastofnun beinir því einnig til neytenda að vera varkárir og að skoða með gagnrýnum augum þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og leita sér nánari upplýsinga um vöruna og innihaldsefni hennar.

Þá er því beint til neytenda að senda ábendingu til Matvælastofnunar eða heilbrigðiseftirlits viðkomandi svæðis,ef þeir hafa upplýsingar um vörur sem innihalda dínítrófenól og seldar hér á landi eða á netsíðum.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?