Fara í efni

Dínítrófenól í megrunarvörum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun varar við notkun fæðubótarefna/megrunarvara sem innihalda efnið 2,4-dínítrófenól (e. 2,4-dintirophenol eða DNP). Efnið er notað í vörur/fæðubótarefni í megrunartilgangi. Það hefur valdið alvarlegum aukaverkunum hjá notendum og valdið mörgum dauðsföllum.

Dínítrófenól hefur áhrif á efnaskipti líkamans á þann hátt að í stað þess að orku sé breytt og hún geymd í frumum eða notuð af frumum líkamans þá breytist hún í varma. Við þetta hækkar líkamshitinn. Líkamshitinn getur hækkað það mikið að það verði banvænt. 

Einstaklingar bregðast mjög mismunandi við efninu og erfitt er að spá fyrir um hvernig hver og einn bregst við og hvaða skammtur er öruggur. Sumir geta fengið alvarlegar aukaverkanir með inntöku lítils magns af efninu. Fyrstu einkenni eitrunar er svitamyndun, vöðvaverkir, hraður púls, hár hiti og öndunarerfiðleikar. Ekki eru til nein mótefni við dínítrófenóli og eru sjúklingar sem neytt hafa efnisins því í hættu á dauða, þrátt fyrir háþróaðar læknismeðferðir.

Uppúr 1930 var efnið markaðssett sem megrunarlyf en var fljótlega tekið af markaði vegna alvarlegra aukaverkana. Efnið var strax þá talið mjög hættulegt og því ekki hæft til neyslu fyrir fólk. Síðasta áratug hefur hins vegar borið á notkun efnisins og aukaverkana af því á ný.

Skv. 11. gr. matvælalaga er innflutningur og dreifing matvæla þ.m.t. fæðubótarefna sem innihalda lyf eða lyfjavirk efni, óheimil.  Auk þess er skv.8. gr. matvælalaga óheimilt að markaðssetja matvæli sem eru ekki örugg til neyslu þ.e. heilsuspillandi. Matvæli/fæðubótarefni sem innihalda dínítrófenól eru því ólögleg til innflutnings og markaðssetningar.  

Fæðubótarefni eru matvæli sem almennt eru í frjálsu flæði til landsins og því fyrst og fremst undir markaðseftirliti.  Eftirlit með fæðubótarefnum á markað er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Innflutningseftirlit er í höndum Matvælastofnunar og síðustu ár hefur innflutningseftirlit með fæðubótarefnum verið talsvert aukið.  

Samkvæmt reglugerð um fæðubótarefni er innlendum framleiðanda/innflytjanda skylt að tilkynna innflutning/markaðssetningu nýrra fæðubótarefna til Matvælastofnunar. Vörur sem innihalda dínítrófenól, svo vitað sé, hafa ekki verið tilkynntar til Matvælastofnunar og hefur stofnunin því ekki upplýsingar að slíkar vörur séu á almennum markaði hér á landi.  

Vörur sem innihalda dínítrófenóli eru hinsvegar til sölu á internetinu og því ekki útilokað að íslenskir neytendur hafi keypt vöru sem inniheldur efnið. Þá eru einnig dæmi um það að seldar séu vörur með efninu án þess að tilvist þess í vörunni sé tilgreind á umbúðum.  Nýlegt dæmi um slíkt er varan „Pure Caffeine 200“, en sú vara var efnagreind í Þýskalandi og niðurstaðan var að hún innihélt um 300 mg af 2,4-dínítrófenól án þess að þess væri getið á umbúðum vörunnar. Þar með er hættan orðin sérstaklega mikil þar sem neytandinn veit ekki að hann er að neyta efnisins.

Ráðleggingar til neytenda

Matvælastofnun hvetur fólk til að kaupa ekki vörur sem innihalda dínítrófenól eða neyta þeirra þar sem þær geta verið mjög hættulegar heilsu fólks

Leitið strax læknis ef þið hafið tekið inn efnið og einkenni koma fram.

Matvælastofnun beinir því einnig til neytenda að vera varkárir þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og leita sér nánari upplýsinga um vörur sem þeir kaupa og innihald þeirra. Leitið ykkar einnig upplýsing um hvers vegna varan er eingöngu seld á internetinu en ekki í almennum verslunum.

Þá er því beint til neytenda að hafa samband við Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélags ef þeir hafa upplýsingar um vörur sem innihalda dínítrófenól á innlendum markaði.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?