Fara í efni

Alþjóðleg samvinna um COVID-19

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun byggir ráðleggingar sínar varðandi COVID-19 að miklu leyti á upplýsingum Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE). Fjöldi sérfræðinga starfar á vegum OIE og stofnunin vinnur náið með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Hér að neðan eru þrjú stutt myndskeið þar sem Dr. William B. Karesh fjallar um hvað er vitað um kórónaveirur almennt, af hverju þverfagleg samvinna er mikilvæg í tengslum við COVID-19 og hver viðbrögð Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar við sjúkdómnum hafa verið.

Hvað vitum við almennt um kórónaveirur?

Kórónaveiran sem veldur COVID-19 er ein af fjölmörgum veiruafbrigðum sem tilheyra kórónaveirufjölskyldunni. Þessar veirur geta valdið margvíslegum sjúkdómseinkennum bæði í mönnum og dýrum, allt frá vægu kvefi til alvarlegra sjúkdóma sem geta dregið menn og dýr til dauða. Í þessu myndskeiði er fjallað almennt um kórónaveirur.

Af hverju hefur hugtakið „ein heilsa“ þýðingu í alheimsfaraldri?

Í þeim alheimsfaraldri Covid-19 sjúkdómsins sem nú geisar hefur sú nálgun sem kölluð er „ein heilsa“ (e. One Health) sannað gildi sitt. Um er að ræða stefnu sem hefur að markmiði að auka heilbrigði alls lífkerfis heimsins. Hún felur í sér að samhengi milli heilbrigðis allra lífvera er viðurkennt og mið tekið af því m.a. við mótun stefnu og löggjafar.  „Ein heilsa“ byggir á þverfaglegu samstarfi milli þeirra aðila sem starfa á sviði heilbrigðis manna, dýra, plantna og sameiginlegs vistkerfis þeirra. Í þessu myndskeiði er m.a. fjallað um að sem sameinaður hópur eru sérfræðingar í veirufræði, náttúrufræði, vistfræði, heilbrigði dýra og heilbrigði manna mun líklegri til að finna lausnir en þessir faghópar væru hver fyrir sig.

Hver hafa viðbrögð alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar vegna COVID-19 verið?

Um leið og COVID-19 faraldurinn fór að breiðast út og tilgátur komu fram um að uppruni veirunnar væri í leðurblökum, hafði Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (OIE) samband við fólk víða í heiminum sem eru sérfræðingar í kórónaveirum, villtum dýrum og faraldsfræði. Þessi hópur vinnur að og fylgist náið með þróun þekkingar varðandi sjúkdóminn og hefur samskipti daglega til að skiptast á upplýsingum. OIE kemur svo ráðleggingum á framfæri við almenning og aðra sérfræðinga sem byggja á vinnu þessa hóps. Jafnframt er náin samvinna milli þessa sérfræðingahóps og hóps á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem vinnur að mótun áætlunar um rannsóknir og viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómum. Í þessu myndskeiði er fjallað um þetta samstarf og mikilvægi þess.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?