Fara í efni

Kórónaveiran/COVID-19 og dýr

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun berast ýmsar fyrirspurnir varðandi kórónaveiruna (SARS-CoV-2) sem veldur sjúkdómnum COVID-19 og dýr. Hér að neðan er listi yfir helstu spurningar og svör við þeim. Stofnunin bendir jafnframt á vefinn covid.is

Geta húsdýr eða gæludýr veikst af COVID-19?

Talið er að veiran sé upprunnin í dýrum, en er nú aðlöguð að mönnum. Veiran sýkir og dreifist hratt út í mönnum og minkum. 

Vísindamenn víða um heim eru að rannsaka næmi ýmissa dýrategunda fyrir veirunni og virkni hennar í þeim en ekki hefur verið sýnt fram á smit frá húsdýrum eða gæludýrum til manna eða annarra dýra, að undanskildum minkum og í einstaka tilfellum tígrisdýrum og ljónum í dýragörðum. Í nokkrum tilfellum hefur veiran greinst í sýnum sem tekin hafa verið úr dýrum erlendis en engar vísbendingar eru um að þessi dýr hafi borið smit í fólk eða önnur dýr.

Nú sem fyrr skal gæta fyllsta hreinlætis í umgengni við dýr og forðast að kyssa þau eða að láta þau sleikja andlit fólks. Það er góð venja að þvo hendur eftir snertingu við dýr, sérstaklega áður en matvæla er neytt. Einnig er góð regla að þvo hendur fyrir og eftir að matur fyrir gæludýr er framreiddur.

Ætti fólk með COVID-19 að forðast snertingu við dýr?

Einstaklingar sem eru í sóttkví og einangrun ættu að takmarka snertingu sína við búfénað og gæta fyllsta hreinlætis í umgengni við öll dýr. Mælt er með að fólk þvoi hendur fyrir og eftir snertingu við dýr, sérstaklega áður en matvæla er neytt. Einnig er góð regla að þvo hendur fyrir og eftir að matur fyrir dýr er framreiddur. Sýktur einstaklingur ætti að forðast að kyssa dýr og almennt ætti að forðast að leyfa dýrum að sleikja andlit eða hendur sýktra einstaklinga.

Mega einstaklingar sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 vera í snertingu við gæludýrin sín?

Það er engin ástæða fyrir fólk að vera ekki með gæludýrunum sínum og þau geta veitt mikilvægan andlegan stuðning við erfiðar aðstæður. Að þvo hendur eftir snertingu við dýr er góð venja, sérstaklega áður en matvæla er neytt og almennt ætti að forðast að leyfa hundum að sleikja andlit fólks og hendur. Það er í lagi að fara út með hundinn að því gefnu að leiðbeiningum um sóttkví og einangrun sé fylgt. 

Get ég gætt dýra einhvers sem er í sóttkví eða einangrun?

Já, þú getur gætt gæludýra einstaklinga sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 en þú þarft að gæta fyllsta hreinlætis. Forðast skal að kyssa gæludýr, láta þau sleikja andlit eða hendur og ávallt skal þvo hendur eftir snertingu við dýrin, og sérstaklega er það mikilvægt áður en matvæla er neytt.

Mælt er með að dýrum sem búa inni á heimili með fólki sem er í einangrun eða sóttkví sé haldið frá öðrum dýrum, í samræmi við þær reglur sem gilda um fólkið sjálft.

Getur dýr borið kórónaveiruna frá einum einstaklingi til annars án þess að smitast sjálft?

Veiran smitast fyrst og fremst milli fólks. Ekki er þó útilokað að dýr geti borið veirur í feldi, húð og slímhúð í nokkurn tíma eftir snertingu við smitandi mann, en ekki hefur verið sýnt fram á að gæludýr eða húsdýr eigi þátt í að smita fólk. Það er þó alltaf mælt með að fólk þvoi hendur eftir snertingu við dýr, sérstaklega áður en matvæla er neytt. Einnig er góð regla að þvo hendur fyrir og eftir að matur fyrir gæludýr er framreiddur.

Í nokkrum tilfellum hefur veiran greinst í sýnum sem tekin hafa verið úr dýrum erlendis en engar vísbendingar eru um að þessi dýr hafi borið smit í fólk eða önnur dýr.

Ætti að gera sérstakar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að kórónaveiran berist í hjálpar- og leitarhunda?

Engar vísbendingar eru um að hundar geti borið smit í fólk umfram aðra snertifleti sem smitaðir einstaklingar hafa komið við. Þess vegna eru engar forsendur til að mæla með sérstökum smitvarnaráðstöfunum fyrir hjálparhunda eða leitarhunda.

Get ég farið með dýrið mitt á dýralæknastofu?

Allir sem eru frískir og ekki í sóttkví geta farið með dýr til dýralæknis, nema hann gefi fyrirmæli um annað. Fólk ætti þó í öllum tilfellum að bóka tíma fyrirfram og sumir dýralæknar vilja að viðskiptavinir hringi á undan sér.

Fólk sem er í einangrun eða sóttkví má ekki fara með dýr til dýralæknis. Það þarf því að afpanta tíma ef ekki er mjög brýn þörf fyrir dýralæknisþjónustu, eða fá einhvern annan til að fara með dýrið fyrir sig.

Biðstofur ætti að skipuleggja þannig að einstaklingar geti virt þau fjarlægðarmörk sem eru í gildi hverju sinni. Flestir dýralæknar hafa gefið út reglur fyrir sínar stofur sem ber að fylgja. Oftast er mælst til þess að viðskiptavinir þvoi og spritti hendur fyrir og eftir heimsókn, að einungis einn fylgi dýrinu inn eða jafnvel að starfsfólk taki við dýrinu og eigendur bíði fyrir utan. Fólk er hvatt til að kynna sér reglurnar á heimasíðu eða fésbókarsíðu dýralæknastofunnar. Ef eitthvað er óljóst er best að hringja á undan sér, jafnvel er hægt að leysa vandamálið í gegnum síma.

Get ég fengið dýralækni til að koma og sinna skepnunum mínum?

Já. Mikilvægt er að huga ávallt vel að heilsu og velferð dýra en bæði dýraeigendur og dýralæknar þurfa að gæta ýtrustu smitvarna til að verja sig og aðra. Bændur hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og mikilvægt er að dýralæknar smitist ekki til að hægt sé að halda uppi dýralæknaþjónustu í landinu. Heimsókn skal skipuleggja þannig að einstaklingar geti verið í þeirri fjarlægð frá hver öðrum sem stjórnvöld skilgreina, ef nokkur kostur er. Flestir dýralæknar hafa sett verklag um afhendingu lyfja og rekstrarvara, til að minnka smithættu. Dýraeigendur eru hvattir til þess að kynna sér þetta á heimasíðum og fésbókarsíðum dýralækna eða í gegnum síma.

Ættu hunda- og kattahótel, sýningar, keppnir og aðrir staðir þar sem dýr safnast saman að gera sérstakar varúðarráðstafanir?

Ekki er nauðsynlegt að tryggja fjarlægð milli dýra en virða þarf þær takmarkanir sem eru í gildi hérlendis um samkomubann og fjarlægð milli manna, auk þess að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott.

Mælt er með að dýrum sem búa inni á heimili með fólki sem er í einangrun eða sóttkví sé haldið frá öðrum dýrum, í samræmi við þær reglur sem gilda um fólkið sjálft.

Geta villt dýr á Íslandi verið með COVID-19?

Veiran hefur ekki fundist í dýrum á Íslandi, hvorki húsdýrum né villtum dýrum.

Minkar eru móttækilegir fyrir veirunni en litlar líkur eru á smiti yfir í villta minkastofninn þar sem umgengni við menn er í lágmarki.

Ætti fólk sem hefur verið erlendis að takmarka snertingu við dýr þegar það snýr aftur heim?

Einstaklingar með búsetu á Íslandi sem hafa verið erlendis á undangengnum 14 dögum þurfa að fara í sóttkví. Fólk sem er með matvælaframleiðandi dýr á heimili eða í nálægð við heimili, ætti að takmarka snertingu við þau meðan á sóttkví eða einangrun stendur. Jafnframt er minnt á þá almennu reglu að einstaklingur sem hefur verið í snertingu við húsdýr erlendis ætti ekki að umgangast matvælaframleiðandi dýr á Íslandi fyrr en að 48 klukkustundum liðnum.

Má fólk í sóttkví, eða greint með COVID-19, vinna við mjaltir og önnur fjósastörf?

Einstaklingar sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja reglum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Kúabændur sem hafa smitast, ættu að leita allra leiða til að fá afleysingu í mjaltir og önnur verk í fjósi. Bæði vegna þeirrar eigin heilsu, að þeir keyri sig ekki út og tefji fyrir bata, og að þeir dreifi ekki smiti í fjósinu þar sem annað fólk gæti átt eftir að starfa, ef þeir sjálfir verða alvarlega veikir. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur starfi við mjaltir þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna. Tíður handþvottur er mikilvægasta smitvörnin en einnig er æskilegt að nota hanska og grímu við mjaltir og þrif á mjaltatækjum og í mjólkurhúsi. Æskilegt er að opna út og loftræsta mjólkurhúsið að loknum mjöltum. 

Kúabændur sem hafa verið úrskurðaðir í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og eru einkennalausir ættu að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis og er ráðlagt að gæta ýtrustu smitvarna í störfum sínum við mjaltir. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Má fólk í sóttkví, eða greint með COVID-19, vinna við sauðburð?

Einstaklingar sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja reglum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Sauðfjárbændur sem eru smitaðir, ættu að leita allra leiða til að fá afleysingu við sauðburð og önnur verk á búinu. Bæði vegna þeirrar eigin heilsu, að þeir keyri sig ekki út og tefji fyrir bata, og að þeir dreifi ekki smiti í fjárhúsinu þar sem annað fólk gæti átt eftir að starfa, ef þeir sjálfir verða alvarlega veikir. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur starfi við sauðburð þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna. Tíður handþvottur er mikilvægasta smitvörnin en einnig ætti sýktur einstaklingur að nota hanska og grímu.

Sauðfjárbændur sem hafa verið úrskurðaðir í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og eru einkennalausir ættu að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis og er ráðlagt að gæta ýtrustu smitvarna í störfum sínum við sauðburð. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin.

Má fólk í sóttkví, eða greint með COVID-19, vinna við minkabú?

Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja reglum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Starfsfólk minkabúa sem hafa smitast, ætti að fá afleysingu við fóðrun og aðra umhirðu um minka. Bæði með tilliti til eigin heilsu og til að koma í veg fyrir smit í minkahús.

Einkennalausum einstaklingum í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru  er skylt að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis. Starfsfólk minkabúa ætti forðast að sinna umönnun minka, en ef það er óhjákvæmilegt þarf að gæta ýtrustu smitvarna, s.s. þvo sér oft um hendur og nota hanska og grímu við fóðrun og aðra umhirðu.

Ef grunur leikur á að minkar séu smitaðir af kórónaveirunni, til dæmis vegna einkenna frá öndunarfærum eða hækkaðrar dánartíðni í minkabúinu, skal kalla til dýralækni og tilkynna til Matvælastofnunar.

Ítarefni

Uppfært 10.11.20 kl. 14:40
Uppfært 28.08.20 kl. 15:49
Uppfært 09.03.20 kl. 17:36
Uppfært 10.03.20 kl. 14:13
Uppfært 15.03.20 kl. 15:54
Uppfært 20.03.20 kl. 18:11
Uppfært 31.03.20 kl. 13:04
Uppfært 15.04.20 kl. 9:08
Uppfært 20.04.20 kl. 16:09
Uppfært 21.04.20 kl. 10:25


Getum við bætt efni síðunnar?