Fara í efni

Kórónaveiran/COVID-19 og matvæli

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun berast ýmsar fyrirspurnir varðandi kórónaveiruna (SARS-CoV-2) sem veldur sjúkdómnum COVID-19 og matvæli. Hér að neðan er listi yfir helstu spurningar og svör við þeim. Stofnunin bendir jafnframt á vef almannavarna um COVID-19. Fylgst er með þekkingarþróun á þessu sviði og verða upplýsingar hér uppfærðar eins og við á.

Er hætta á því að matvæli geti borið smit?

 Ekkert bendir til þess að kórónaveiran berist með matvælum skv. áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra.

Getur veiran borist með ferskum ávöxtum og grænmeti?

Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir úðasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Mjög ólíklegt er þó að hún nái að berast milli landa með ávöxtum og grænmeti. Matvælastofnun hvetur neytendur, nú sem áður, til að skola vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu.

Getur veiran borist með umbúðum matvæla?

Það er mjög ólíklegt að menn smitist af kórónaveirunni við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur / sótthreinsun eftir verslunarferð ætti að koma í veg fyrir smit ef svo ólíklega vildi til að veiran væri á snertiflötum í verslunum eða á umbúðum. Fylgið leiðbeiningum landlæknis um handþvott og smitvarnir

Getur veiran borist með innkaupavögnum og körfum í verslunum?

Það er ólíklegt að innkaupavagnar og körfur beri smit. Ef sýktur einstaklingur hóstar eða hnerrar á vagninn eða körfuna eða hreinsar ekki hendur eftir að hafa hóstað og hnerrað í þær gæti smit borist frá yfirborði á hendur annars viðskiptavinar.  Ef leiðbeiningum landlæknis um handhreinsun fyrir og eftir verslunarferð er fylgt er hætta á að smitast vegna mengunar slíkra yfirborða lítil. 

Mötuneyti, veitingastaðir, verslanir og önnur matvælafyrirtæki

Hvað á að gera ef starfsmaður í mötuneyti, eldhúsi eða öðru matvælafyrirtæki greinist með kórónuveiru?

Fólk sem hefur verið greint með COVID-19 sjúkdóminn eða er með veruleg öndunarfæraeinkenni (nefrennsli, hósta, hnerra) má ekki vinna við að framleiða, matreiða eða bera fram matvæli. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti sem varða matvæli skulu stjórnendur matvælafyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk, sem meðhöndlar matvæli, sé heilbrigt.

Ef starfsmaður hefur greinst með COVID-19 og verið í vinnu eftir að einkenni komu fram skal fylgja leiðbeiningum landlæknis sem taka m.a. til þrifa á vinnustöðum.

Hafi starfsmaður  í mötuneyti, veitingastað eða öðru matvælafyrirtæki verið smitaður af veirunni, gæti hann hafa borið smit í matinn?

Kórónaveiran þarf hýsil (menn eða dýr), hún getur því ekki fjölgað sér í matvælum og því litlar líkur taldar á hún geti borist með mat. Smit með matvælum þyrfti í öllu falli að fela í sér mengun frá sýktum einstaklingi sem meðhöndlar matvæli með óhreinum höndum, eða með dropasmiti frá hósta eða hnerra. Starfsfólk í matvælaframleiðslu á að fara eftir reglum fyrirtækisins um persónulegt hreinlæti en þær eiga meðal annars að felast í reglulegum handþvotti og góðum hóstaverjum. Líkur á að smit af völdum kórónuveiru, annarra veira eða örvera berist í matvæli eru afar litlar, viðhafi starfsmenn persónulegt hreinlæti.

Hvað geta mötuneyti og önnur matvælafyrirtæki gert til að forðast kórónuveiru smit ?

Fylgja ráðleggingum landlæknis varðandi kórónuveiruna og smitvarnir.

Brýna skal fyrir starfsmönnum sem höndla með matvæli að þvo hendur:

  • áður en þeir byrja að vinna
  • áður en þeir meðhöndla elduð matvæli eða matvæli tilbúinn til neyslu
  • eftir meðhöndlun eða undirbúning hráefna
  • eftir meðhöndlun úrgangs
  • eftir þrifastörf
  • eftir salernisferðir
  • eftir neysluhlé / matarhlé

Að elda mat og fylgja góðum hreinlætisvenjum við meðhöndlun og undirbúning matvæla er áhrifarík leið til að koma í veg fyrir að matur mengist af kórónavírus. Kórónaveirur þrífast ekki við dæmigert hitastig við eldun matvæla.

Sjá nánar í leiðbeiningum um hlaðborð og heilræði við meðhöndlun matvæla.

Ættu fyrirtæki að vera sérstaklega varkár við að þrífa og sótthreinsa í eldhús og veitingastaði um þessar mundir?

Fyrirtæki eiga að fylgja hefðbundnum þrifaáætlunum í eldhúsum og matvælavinnslum. Algeng sótthreinsiefni (þar með talið þau þau sem innihalda alkóhól) valda því að kórónaveiran verður óvirk. Kórónaveiran smitast ekki með matvælum en vegna hættu á smiti milli manna getur verið nauðsynlegt að þrífa og sótthreinsa sérstaklega yfirborð og áhöld sem margir snerta með stuttu millibili. Fyrirtæki ættu að fara yfir verklag við þrif og/eða þrífa oftar en venjulega búnað sem margir nota.  

Er meiri hætta á að smitast við sjálfsafgreiðslu matvæla en við skömmtun?

Smitaður einstaklingur gæti borið smit á áhöld s.s. tangir, skeiðar og brúsa sem notuð eru við sjálfsafgreiðslu og skömmtun. Ef slíkt smit berst á hendur annars viðskiptavinar gæti sá einstaklingur smitast við það að bera hendur upp að andliti sínu. Ef leiðbeiningum sóttvarnalæknis er fylgt varðandi handþvott og aðrar smitvarnir er dregið verulega úr hættu á smiti.

Veitingahús og mötuneyti sem bjóða upp á sjálfsafgreiðslu ættu að auka tíðni þrifa á svæðum þar sem boðið er upp á sjálfsafgreiðslu og hafa spritt til sótthreinsunar aðgengilegt fyrir viðskiptavini.

Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga mæla með því að þjónustuaðilar með hvers konar sjálfsafgreiðslu ópakkaðra matvæla þ.m.t. sælgæti dragi úr henni eða hætti alveg á meðan faraldurinn gengur yfir.  Hér er ekki átt við sjálfsafgreiðslu ávaxta og grænmeti.

Til að draga úr hættu á smiti frá viðskiptavinum við sjálfsafgreiðslu matvæla gætu mötuneyti og veitingastaðir tekið upp skömmtun í stað sjálfsafgreiðslu. Slík ráðstöfun er mikilvæg þegar viðkvæmir einstaklingar eða aldurshópar eru þjónustaðir. Embætti landlæknis og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra leggur til að matur sé skammtaður af starfsmönnum í leik og grunnskólum, sjá nánar „Upplýsingar vegna kórónaveiru COVID-19 – Mötuneyti leik- og grunnskóla“.

Uppskera grænmetis

Má fólk með kórónaveirusmit eða í sóttkví vinna við uppskeru grænmetis?

Fólk sem hefur verið greint með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, má ekki vinna við uppskeru grænmetis. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti er varða matvæli skulu stjórnendur matvælafyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk, sem meðhöndlar matvæli, sé heilbrigt. Fólk sem hefur verið úrskurðað í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og er einkennalaust, má vinna við uppskeru grænmetis séu ekki aðrir þar að störfum líka. Sjá leiðbeiningar um sóttkví á vef embættis landlæknis. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin.

Framleiðsla dýraafurða

Má fólk með kórónaveirusmit eða í sóttkví vinna við tínslu og pökkun eggja?

Fólk sem hefur verið greint með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, má ekki vinna við tínslu og pökkun eggja. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti er varða matvæli nr. 103/2010 (EB/2004/852) skulu stjórnendur matvælafyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk, sem meðhöndlar matvæli, sé heilbrigt. Fólk sem hefur verið úrskurðað í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og er einkennalaust má vinna við tínslu og pökkun eggja séu ekki aðrir þar að störfum líka. Sjá leiðbeiningar um sóttkví á vef embættis landlæknis. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Má fólk með kórónaveirusmit eða í sóttkví vinna við mjaltir og önnur fjósastörf?

Einstaklingar sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja reglum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Kúabændur sem hafa smitast, ættu að leita allra leiða til að fá afleysingu í mjaltir og önnur verk í fjósi. Bæði vegna þeirrar eigin heilsu, að þeir keyri sig ekki út og tefji fyrir bata, og að þeir dreifi ekki smiti í fjósinu þar sem annað fólk gæti átt eftir að starfa, ef þeir sjálfir verða alvarlega veikir. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur starfi við mjaltir þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna. Tíður handþvottur er mikilvægasta smitvörnin en einnig er æskilegt að nota hanska og grímu við mjaltir og þrif á mjaltatækjum og í mjólkurhúsi. Æskilegt er að opna út og loftræsta mjólkurhúsið að loknum mjöltum. 

Kúabændur sem hafa verið úrskurðaðir í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og eru einkennalausir ættu að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis og er ráðlagt að gæta ýtrustu smitvarna í störfum sínum við mjaltir. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Má sækja mjólk á bæi þar sem fólk er í heimaeinangrun eða sóttkví vegna kórónaveiru?

Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis og þeir sem úrskurðaðir hafa verið í sóttkví skulu fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis. Mælt er með að kúabændur sem hafa smitast leiti allra leiða til að fá afleysingu. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur starfi við mjaltir þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna og má ekki vera til staðar þegar mjólkin er sótt. Sama gildir um einstakling í sóttkví. Mjólkurbílstjóri þarf jafnframt að gæta ýtrustu smitvarna s.s. að nota vinnuhanska sem hann skilur eftir á búinu meðan ástandið varir og þvo hendur með sápuvatni (eða handspritti) áður en hann yfirgefur búið.

Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Fólk á  sauðfjárbúum, nautgripabúum, svínabúum, alifuglabúum og hrossabúum sem hefur smitast ætti að leita allra leiða til að fá afleysingu. Bæði vegna þeirrar eigin heilsu, að þeir keyri sig ekki út og tefji fyrir bata, og að þeir dreifi ekki smiti á búinu þar sem annað fólk gæti átt eftir að starfa, ef það sjálft verður alvarlega veikt. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur sinni störfum á slíkum búum þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna og fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis.  Einstaklingar sem hafa verið úrskurðaðir í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og eru einkennalausir skulu fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis og er ráðlagt að gæta ýtrustu smitvarna við að sinna dýrum. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Mega sláturhús sækja og taka við gripum frá búum þar sem einstaklingar eru í heimaeinangrun eða sóttkví?

Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Mælt er með að einstaklingar á sauðfjár-, nautgripa-, svína-, alifugla- og hrossabúum sem hafa smitast leiti allra leiða til að fá afleysingu. Ef það er ekki mögulegt þurfa þeir að gæta ýtrustu smitvarna. Geri þeir það ætti ekki að stafa hætta af því að sækja og taka við gripum frá þessum búum. Flutningabílstjórar þurfa að gæta ýtrustu smitvarna. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin.  Ýmsar leiðbeiningar og fleiri spurningar og svör um kórónaveiruna er að finna á vef embættis landlæknis.

Getur matur komið í veg fyrir sýkingar?

Undanfarna daga hefur borið á því í fjölmiðlum, auglýsingum og á samfélagsmiðlum að kynntar séu ýmsar vörur sem eiga að styrkja ónæmiskerfi líkamans og koma í veg fyrir sýkingar, m.a. af völdum kórónaveira. Slíkar upplýsingar eða staðhæfingar eru rangar og villandi fyrir neytendur og Matvælastofnun varar við slíkum upplýsingum.

Fæðubótarefni eru matvæli og ekki má eigna þeim þá eiginleika að fyrirbyggja sýkingar eða lækna sjúkdóma. Þetta gildir einnig um matvæli almennt.

Það er vissulega rétt að virkt ónæmiskerfi skiptir höfuðmáli til að verjast sýkingum en það er engin ofurfæða eða fæðubótarefni sem geta komið í veg fyrir sýkingu af völdum kórónaveira.  Góð næring skiptir miklu máli fyrir eðlilega starfsemi ónæmiskerfisins en langflestir hérlendis uppfylla næringarþarfir sínar með góðu og fjölbreyttu fæði. Á vef landlæknis má finna upplýsingar um mikilvægi góðrar næringar fyrir heilsu.

Besta leiðin til að verja sig gegn kórónaveirunni er fylgja leiðbeiningum sóttvarnarlæknis varðandi handþvott, hósta eða hnerra í olnbogabótina og takmarka náin samskipti s.s. handabönd og faðmlög.

Einnig er nú sem endranær rétt að benda á leiðbeiningar Matvælastofnunar um meðhöndlun matvæla við matargerð.

Ítarefni

Uppfært 09.03.20 kl. 11:05
Uppfært 09.03.20 kl. 16:00
Uppfært 09.03.20 kl. 17:40
Uppfært 12.03.20 kl. 11:50
Uppfært 15.03.20 kl. 15:33
Uppfært 30.06.20 kl. 11:50

 


Getum við bætt efni síðunnar?