Fara í efni

Úttekt á eftirliti með verkun garna

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) birti í dag skýrslu vegna úttektar á opinberu eftirliti með verkun garna sem ætlaðar eru til neyslu. Markmiðið var að kanna hvort eftirlit með verkun garna sé í samræmi við matvælalöggjöf ESB sem tók gildi á Íslandi hinn 1. nóvember 2011. Úttektin fór fram 22. - 26. september 2014 og er fyrsta úttekt sem stofnunin framkvæmir hér á landi á þessu sviði. Verkun garna hérlendis var að mati ESA almennt í samræmi við matvælalöggjöf ESB.

Samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar hafa reglur um verkun garna verið innleiddar á viðeigandi hátt í íslenskt regluverk og hefur eftirlitsaðili með vald til beitingar þvingunarúrræða verið skilgreindur. Þarfagreining á starfsþjálfun eftirlitsmanna er til staðar, ásamt þjálfunaráætlun fyrir nýja starfsmenn . Þá hefur Matvælastofnun gefið út skoðunarhandbók og var allt eftirlit sem úttektin sneri að í samræmi við skoðunarhandbókina skv. niðurstöðum ESA. Eftirlitsskýrslur eru vistaðar á rafrænu formi í gagnagrunni Matvælastofnunar, ÍsLeyfi, sem gerir stofnuninni kleift að fylgjast með og leiðbeina eftirlitsmönnum í umdæmunum. 

Verkun garna hérlendis var að mati ESA almennt í samræmi við matvælalöggjöf ESB sem innleidd hefur verið hér á landi. Stofnunin uppgötvaði þó nokkur frávik sem sneru ekki sérstaklega að verkun garna heldur skilyrðum á starfsstöðvum sem afhenda hráefnið. Þannig komu fram ábendingar um betri skilgreiningar á starfsemi fyrirtækja og þætti er varða hreinlæti og framleiðsluhætti þeirra. Starfsfólk Matvælastofnunar og fyrirtækin brugðust við og voru þessir þættir lagfærðir.

Matvælastofnun hefur móttekið athugasemdir ESA og hafið vinnu við að aðlaga eftirlit sitt með hliðsjón af þeim ráðleggingum sem úttektin hefur skilað. Allar úttektir ESA skila sér í tímasettum úrbótaáætlunum sem nýttar eru til umbótavinnu. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?