Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í dýrum og matvælum árið 2022
Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og -næmi hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2022 er nú komin út. Skýrslan er gefin út í samstarfi við Embætti landlæknis sem leggur til þá kafla skýrslunnar sem fjalla um sýklalyfjanotkun manna ásamt sýklalyfjanæmi baktería frá mönnum. Einnig lögðu Landspítalinn, Lyfjastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til gögn sem skýrslan byggir á.
Heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hérlendis árið 2022 var nær þriðjungi hærri en árið áður sem skýrist einvörðungu af sýklalyfjagjöf í landeldi á bleikju vegna kýlaveikibróður. Sé sala sýklalyfja vegna kýlaveikibróður dregin frá heildarsölu sést að sala sýklalyfja fyrir dýr hefur dregist saman síðustu ár. Lyf í flokki tetracýcklínsambanda var hlutfallslega stærsti undirflokkur sýklalyfja með 35% af heildarsölu og lyf í flokki beta-laktamasanæmra penicillína kom þar á eftir með 34% af heildarsölu árið 2022. Sýklalyf sem notuð voru í meðhöndlun vegna kýlaveikibróður voru lyf í flokki tetracýklínsambanda og í flokki annarra sýklalyfja, sem skýrir hlutfallslega aukningu í þeim flokkum.
Um 82% af seldum sýklalyfjum fyrir dýr tilheyra flokki D í AMEG-flokkun Lyfjastofnunar Evrópu, en lyf í flokki D eru fyrsti valkostur þegar velja skal sýklalyf. Næstalgengasti flokkurinn fyrir dýr (12%) eru lyf í flokki C en aðeins 0,1% af seldum sýklalyfjum fyrir dýr tilheyra flokki B. Samkvæmt nýjustu skýrslu Lyfjastofnunar Evrópu er sala sýklalyfja fyrir dýr á Íslandi árið 2021 minnst í Evrópu í tonnum talið, eða 0,57 tonn. Ef magni seldra lyfja er deilt með áætlaðri þyngd búfjár er aðeins Noregur með minna magn seldra sýklalyfja en Ísland.
Helstu niðurstöður næmisprófana á bakteríum frá dýrum og matvælum árið 2022 voru eftirfarandi:
- Tólf stofnar úr jákvæðum sýnum sem tekin voru samkvæmt landsáætlun um varnir og viðbrögð gegn Salmonella í alifuglum og afurðum þeirra voru næmisprófaðir. Einn þeirra (8,3%) reyndist ónæmur fyrir þremur sýklalyfjaflokkum.
- Fjórtán stofnar úr jákvæðum sýnum sem tekin voru samkvæmt landsáætlun um varnir og viðbrögð gegn Campylobacter í alifuglum og afurðum þeirra voru næmisprófaðir. Þeir reyndust allir fullnæmir.
- Árið 2022 voru 85 coli bendibakteríustofnar frá kjúklingum næmisprófaðir og voru 17 þeirra (20%) ónæmir fyrir einu eða fleiri sýklalyfjum, sjö þeirra voru fjölónæmir.
- Einnig voru 170 coli bendibakteríustofnar frá lambabotnlöngum næmisprófaðir og var 31 stofn (18,2%) ónæmur fyrir einu eða fleiri sýklalyfjum, tveir þeirra voru fjölónæmir.
- Skimað var fyrir ESBL/AmpC myndandi coli og karbapenemasa myndandi E. coli úr annars vegar 153 og hins vegar úr 150 kjúklingabotnlangasýnum. Öll sýnin reyndust neikvæð.
- Einnig var skimað fyrir ESBL/AmpC myndandi coli úr 170 botnlangasýnum lamba og reyndust 15 af 170 sýnum jákvæð (8,8%). Allir stofnarnir voru AmpC myndandi og báru yfirtjáð litningabundið gen.
- Á árinu var skimað fyrir MÓSA í svínum. Þetta er í fjórða sinn sem það er gert síðan 2014 og líkt og áður voru öll sýni neikvæð.
Heildarsala sýklalyfja fyrir menn á Íslandi jókst árið 2022 miðað við síðustu tvö ár á undan. Víðtækar sóttvarnaaðgerðir og önnur áhrif COVID-19 faraldurs virðast hafa tímabundið dregið úr tíðni annarra sýkinga og notkun sýklalyfja árin 2020 og 2021. Íslendingar nota enn meira af sýklalyfjum en aðrar Norðurlandaþjóðir en eru í meðallagi miðað við lönd ESB/EES. Ísland hefur enn lágt hlutfall ónæmra baktería hjá mönnum miðað við mörg Evrópulönd. Þó hefur greiningum á bakteríum sem framleiða breiðvirka beta-laktamasa fjölgað undanfarinn áratug en þessi ensím valda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum svo sem penicillínum og kefalósporínum. Þessi þróun hefur einnig átt sér stað annars staðar í Evrópu og heiminum. Þessi gerð ónæmis finnst oft hjá kólígerlum sem valda þvagfærasýkingum.
Uppgötvun sýklalyfja er ein merkilegasta uppgötvun læknisfræðinnar en því miður fer ónæmi sýkla vaxandi um allan heim. Ónæmir sýklar virða engin landamæri og berast greiðlega á milli landa. Alþjóðlegar stofnanir, s.s. WHO, WOAH, FAO og fleiri, hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag.
Framtíðarsýnin „Ein heilsa“ er heildstæð sýn sem nær yfir heilbrigði fólks, dýra og umhverfis. Hugtakið á sérstaklega vel við í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi en ónæmir sýklar berast greiðlega á milli manna, dýra og umhverfis. Ráð Evrópusambandsins (ESB) samþykkti fyrr á þessu ári tilmæli sem miða að því að efla aðgerðir ESB til að berjast gegn sýklalyfjaónæmi á sviði heilsu manna, dýraheilbrigðis og umhverfis. Tilmæli ráðsins eiga að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja bæði hjá mönnum og dýrum með það að markmiði að draga úr sýklalyfjaónæmi.
Hérlendis er áætlað að styrkja enn frekar þverfaglega samvinnu um sýklalyfjaónæmi. Fyrir tæpu ári síðan var skipaður starfshópur um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería en verkefnið er unnið í samstarfi heilbrigðisráðuneytisins, matvælaráðuneytis og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis. Starfshópurinn hefur það hlutverk að auka þverfaglegt samstarf á þessu sviði og móta framtíðarsýn í málaflokknum til næstu tíu ára. Þá er hópnum falið að móta aðgerðaáætlun í málefnum sýklalyfjaónæmis til næstu fimm ára og leggja til leiðir til að koma aðgerðum til framkvæmda auk þess að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu um sýklalyfjaónæmi.
Þó staðan á Íslandi sé að mörgu leiti góð hvað varðar notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi er mikið starf óunnið á þessum vettvangi. Með sameiginlegu átaki verndum við sýklalyfin og drögum úr útbreiðslu ónæmra sýkla hérlendis og í heiminum.
Ítarefni:
Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og -næmi hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2022