Fara í efni

Skæðar fuglaflensuveirur í haferni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í upphafi þessarar viku barst Matvælastofnun tilkynning um að skæðar fuglaflensuveirur hefðu fundist í íslenskum haferni sem drapst í október 2021. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkar veirur finnast hér á landi. Þetta rennir stoðum undir það mat sérfræðinga að miklar líkur séu á að alvarleg afbrigði fuglaflensuveira berist með farfuglum hingað til lands. Það er því brýnt að alifuglaeigendur gæti sérstaklega vel að sóttvörnum sem lúta að því að koma í veg fyrir smit úr villtum fuglum. Jafnframt er mikilvægt að allir sem finna dauða villta fugla tilkynni Matvælastofnun um þá.

Haförninn sem um ræðir var með senditæki á sér og því er vitað að hann drapst 8. október í fyrra við Breiðafjörð. Fuglafræðingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sóttu fuglinn og bættu honum í hóp annarra hafarna sem drepist hafa á síðastliðnum árum og hópurinn var síðar sendur til Þýskalands til ýmis konar rannsókna, sem tengjast verkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar. Þýska rannsóknarstofan hefur sem reglu að ganga úr skugga um hvort fuglaflensuveirur séu í þeim villtu fuglum sem þeir fá til rannsóknar og þá greindust skæðar fuglaflensuveirur í þessum fugli.

Matvælastofnun var upplýst um greininguna síðastliðinn mánudag, 4. apríl. Um er að ræða alvarlegt afbrigði af fuglaflensuveirum af gerðinni H5N1. Engar sérstakar ráðstafanir verða gerðar vegna þessarar greiningar þar sem langt er liðið frá því að fuglinn fannst og staðurinn sem hann fannst á er langt frá byggðu bóli. En rétt er að minna á að í síðustu viku var birt í Stjórnartíðindum auglýsing matvælaráðherra um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Þar eru tilgreindar þær reglur sem fuglaeigendum er skylt að fylgja. Nánar má lesa um þetta í frétt á vefsíðu Matvælastofnunar sem birt var 1. apríl sl.

Það afbrigði veirunnar sem greindist (H5N1) er það sem geisað hefur víða um Evrópu á undanförnum mánuðum og nú einnig í Kanada og Bandaríkjunum. Í upphafi þessa árs bárust fréttir af því að sama afbrigði af fuglaflensuveirum hefði fundist í Austur-Kanada og með rannsóknum á erfðaefni þeirra var hægt að sýna fram á að þær hafi borist með fuglum frá Evrópu, hugsanlega með viðkomu hér á landi. Frá þessu var greint í frétt á vefsíðu Matvælastofnunar 31. janúar sl.

Af þessum tilfellum má draga þá ályktun að miklar líkur séu á að skæðar fuglaflensuveirur berist með farfuglum til landsins. Það er því enn mikilvægara en áður að fuglaeigendur geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir að smit berist í fuglana þeirra úr villtum fuglum.

Matvælastofnun vill ítreka fyrri tilmæli sín um að allir sem finna dauða villta fugla tilkynni um þá til stofnunarinnar, nema ef augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum. Best er að gera það með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar. Þegar tilkynning berst metur stofnunin hvort taka skuli sýni úr fuglinum.

Að lokum er rétt að minna á að sum afbrigði fuglaflensu geta sýkt fólk. Því er ávallt mikilvægt að gæta persónulegra sóttvarna við handfjötlun á villtum fuglum. Ef taka þarf upp dauðan fugl skal það gert með einnota hönskum og hann settur í plastpoka eða með því að stinga hendi í plastpoka og taka fuglinn upp með pokanum og draga pokann svo yfir fuglinn og loka fyrir.


Getum við bætt efni síðunnar?