Fara í efni

Rjúfum smitleiðir smitandi hósta í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


  Ítarlegar rannsóknir hafa nú leitt í ljós að smitandi hósti í hrossum stafar fyrst og fremst af bakteríusýkingu (Streptococcus Zooepidemicus) í efri hluta öndunar-færanna, barka og jafnvel berkjum. Allur hrossastofninn hefur reynst næmur fyrir sýkingunni og ætla má að flest hross landsins hafi nú þegar smitast. Komið hefur í ljós að hross sem gengið hafa í gegnum veikina geta smitast á ný ef þau eru undir miklu smitálagi, þ.e. í snertingu við veika hesta eða í mjög smituðu umhverfi. Þetta bendir til  að hrossin myndi ekki öll fullnægjandi ónæmi gegn sýkingunni. Veikin mun því ekki ganga yfir í eitt skipti fyrir öll eins og þekkt er með sumar veirusýkingar, s.s. hitasóttina sem gekk yfir stofninn 1998. Við verðum þess í stað að læra að halda veikinni í skefjum og lágmarka það tjón sem af henni hlýst. 

Afar áríðandi er að hrossin fari eins frísk og auðið er inn í haustið og veturinn. Eigendur og umsjónarmenn hrossa þurfa að auka mjög eftirlit með hrossunum og þá sérstaklega folöldum og tryggja þeim meðhöndlun ef þörf krefur.
 
Með öllum ráðum þarf að varna því að nýr faraldur sjúkdómsins brjótist út þegar hross verða tekin á hús að nýju.

Veikir hestar (hóstandi og með litaðan hor) viðhalda smitinu og helsta smitleiðin er snertismit frá hesti til hests. Því er grundvallar atriði að hafa veika hesta aldrei innan um fríska og halda þá helst í nokkurri fjarlægð. Ekki verður með öllu hægt að komast hjá hættunni á óbeinu smiti en nú þegar veikum hestum fer fækkandi og mótstaðan eykst hægt og sígandi, verður sú smitleið ekki eins öflug og áður.

Helstu reglur:

Eins og áður hefur verið ítrekað, á að hreinsa og sótthreinsa öll hesthús áður en þau verða tekin í notkun með haustinu eða næsta vetur. Mikilvægt er að húsin hafi þornað vel áður en þau eru tekin í notkun að nýju. Nauðsynlegt getur verið að endurtaka þrif og sótthreinsun á húsum sem hreinsuð voru í vor ef þau hafa verið notuð í sumar.

Almenna reglan er sú að taka ekki hesta á hús nema þeir hafi verið einkennalausir í a.m.k. 30 daga og það sama eigi við um öll hross sem þau hafa komist í snertingu við í þann tíma. Ef taka þarf hesta inn vegna veikinda, s.s. hita eða annarra alvarlegra einkenna, þarf að finna hús þar sem ekki er hætta á að önnur hross smitist.

Þetta þýðir að menn verða að flokka hross í hópa eftir einkennum og/eða hættunni á að þau beri með sér smit.  Æskilegt er að hafa hrossahópa á útigangi ekki of stóra og almennt séð að hafa eins rúmt á hrossum  og frekast er unnt.

Nú eru hryssur að tínast heim úr stóðhestagirðingum og verður að líta á þær, folöldin og stóðhestana sem mögulega smitbera. Sama á við um ferðahesta og aðra hesta sem hafa verið fluttir til og hugsanlega komist í samneyti við veik hross eða verið í smituðu umhverfi. Þetta eru dæmi um hópa sem halda ætti sér þar til komið hefur í ljós hvort veikir hestar eru þar innanum. Sama á við um hross sem koma af fjalli í haust.

Hestar sem ætlunin er að selja, senda í tamningu eða þjálfun eða flytja af öðrum orsökum milli staða, þurfa að hafa tilheyrt sama einkennalausa hópnum í einn mánuð fyrir brottför til að draga úr líkum á að þeir beri veikina með sér. Hesta sem nota á í fjallferðir/göngur eða aðra haustbrúkun þarf nú þegar að halda með einkennalausum hestum til að tryggja eins og auðið er að þeir verði tilbúnir til þeirra nota.

Verði vart við hósta eða graftarkennt nefrennsli í hrossum á húsi ber að taka þau tafarlaust úr húsunum og koma þeim fyrir þar sem þau smita ekki aðra hesta. Hver og einn eigandi þarf að huga að aðstöðu fyrir veika hesta og sjá til þess að þeir hafi félagsskap af a.m.k. einu öðru hrossi. Séu einkennin væg og hestarnir í góðu standi fer væntanlega best um þá á útigangi við góðan aðbúnað, fóðrun og eftirlit. Að öðrum kosti þarf að veita veikum hrossum húsaskjól þar sem ekki er hætta á að önnur hross smitist. Gæta þarf ítrustu smitvarna við gegningar á veikum hrossum.

Matvælastofnun mun í samvinnu við Landssamband hestamannafélaga útfæra nánar smitvarnir í hesthúsahverfum. 

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?